Bæjarráð samþykkir erindið og vísar því til vinnu við fjárhagsáætlun að gert verði ráð fyrir fjárheimildum í fjárhagsáætlunum áranna 2022 og 2023.
Í samsstarfssamningi Svf. Árborgar og Vesturbúðarfélagsins, sem samþykktur var þann 24. júní í bæjarráði, er kveðið á um það sameiginlega markmið Svf. Árborgar og Vesturbúðarfélagsins að Vesturbúðarhúsin verði endurbyggð í sem næst upprunalegri mynd á lóðinni þar sem húsin stóðu á sínum tíma. Í samningnum er einnig kveðið á um að Vesturbúðarfélagið muni í samstarfi við Minjastofnun og aðra fagaðila láta vinna nauðsynlegan fornleifauppgröft á lóðinni.
Fornleifauppgröfturinn er kostnaðarsamt verkefni en engu að síður nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að ganga úr skugga um hvort hið sameiginlega markmið um endurbyggingu sé gerlegt. Verkefnið mun hafa mikil áhrif á endurheimt gamallar götumyndar á Eyrarbakka til samræmis við Verndarsvæði í byggð og það er því ekki óeðlilegt að Svf. Árborg komi með að verkefninu með sérstöku fjárframlagi.
Svo vísað sé til lokagreinargerðar um Verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka, sem meðal annars nær yfir Vesturbúðarhól: Mikilvægt er, ekki aðeins fyrir Eyrarbakka og Sveitarfélagið Árborg heldur landið allt, að glata ekki [séreinkennum byggðasögu Eyrarbakka] heldur styrkja þau og vernda og nota til jákvæðrar kynningar og fræðslu. Markmiðið með því að skilgreina þennan hluta þorpsins sem verndarsvæði í byggð, er ekki einungis að vernda söguna og byggingararfinn, heldur standa vonir til þess að með því aukist skilningur íbúa og bæjaryfirvalda á því hversu mikilvægur þessi menningarsögulegi arfur er, sem aftur leiði til þess að honum sé sómi sýndur. Svo það megi takast, þarf samhent átak allra sem að uppbyggingu og viðhaldi svæðisins koma.