Bæjarráð samþykkir tillögu bygginganefndar nýs grunnskóla í Björkurstykki, frá 10. júní sl., um að framkvæmdir við jarðvinnu hefjist nú í ágúst og að byggingartími skólans verði lengdur fram í maí 2022, í stað ágúst 2021.
Það er mat verkfræðinga Verkís að mjög knappur tími gæfist til framkvæmda ef skila ætti húsnæðinu haustið 2021. Knappur framkvæmdatími getur mögulega leitt til aukins kostnaðar og einnig truflana á skólastarfi ef eitthvað kæmi upp á sem tefði skil verksins.
Gera þarf ráð fyrir að formlegt starf Björkurskóla geti hafist fyrr, eða haustið 2021, og að starfsemi skólans verði þá hýst með bráðabirgðarlausnum þar til nýtt húsnæði verður afhent. Mikil fjölgun gunnskólabarna undanfarin ár, og fyrirsjáanlegt framhald þar á, leyfir vart að núverandi skólar hýsi allt skólastarf til haustsins 2022. Af þeim sökum er mikilvægt að tryggja nægjanlegt bráðabirgðahúsnæði þar til fyrsti áfangi nýrrar skólabyggingar verður tekinn í notkun.
Bæjarráð felur mannvirkja- og umhverfisviði að leita lausna á húsnæðismálum nýja grunnskólans þar til að skólabyggingin verður tekin í notkun í maí 2022 og gera ráð fyrir kostnaðinum við gerð fjárhagsáætlunar 2021.