Breytingar á samþykktum um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 44
16. febrúar, 2022
Annað
Fyrirspurn
Þriðja umræða
Svar

Síðari umræða

Gunnar Egilsson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista taka til máls.

Lagt er til að 1. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar verði svohljóðandi:

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar er skipuð ellefu bæjarfulltrúum, sem kjörnir eru lýðræðislegri kosningu af íbúum sveitarfélagsins samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum gegn fjórum atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista. Fulltrúar D-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar D-lista greiða atkvæði gegn tillögu um breytingum á samþykktum Sveitarfélagsins Árborgar. Að fjölga bæjarfulltrúum úr níu í ellefu á þessu kjörtímabili finnst okkur vera óráð. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er ekki nauðsynlegt að fara í þessa fjölgun fyrr en eftir kosningar 2026. Á fundi Bæjarstjórnar 12. júní 2013 var samþykkt að breyta samþykktum Sveitarfélagsins þar sem ákvæði um að 2/3 sveitarstjórnamanna yrðu að samþykkja breytingar á samþykktum Sveitarfélagsins Árborgar. Samþykktirnar voru unnar af fulltrúum allra flokka sem sæti áttu í bæjarstjórn þá og þannig var reynt að ná breiðri samstöðu um meginatriði þeirra. Þegar núverandi meirihluti tók við 2018, voru gerðar breytingar á samþykktum sveitarfélagsins án aðkomu D-listans og þetta ákvæði tekið út. Bæjarfulltrúar D-lista lögðu þá fram tillögu á 2.fundi bæjarstjórnar um að þeir væru tilbúnir í samstarf við aðra flokka um endurskoðun á samþykktum Sveitarfélagsins Árborgar en því var hafnað. Það er sorglegt hvernig meirihluti B -S- M -Á- lista traðka á lýðræðinu með því að samþykkja þessar breytingar án samráðs við fulltrúa D lista og halda því frá fulltrúum tæplega 40% kjósenda, en í núverandi meirihluta eru þrír bæjarfulltrúar sem áður samþykktu samþykktirnar 2013. Nær væri að virkja alla níu bæjarfulltrúana betur til starfa en verið hefur á þessu kjörtímabili.

Gunnar Egilsson
Brynhildur Jónsdóttir
Kjartan Björnsson
Ari Björn Thorarensen

Lagt er til að 8. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar verði svohljóðandi:

Bæjarstjórn Árborgar heldur reglulega fundi bæjarstjórnar, þriðja miðvikudag í mánuði, kl. 17.00.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum gegn fjórum atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.

Lagt er til að 14. gr. samþykktarinnar verði svohljóðandi:

Bæjarfulltrúa er heimilt að taka þátt með rafrænum hætti í fundum sveitarstjórnar og nefnda og ráða á vegum sveitarfélagsins. Þegar bæjarfulltrúi tekur þátt í fundi með raf­rænum hætti skal hann vera staddur í sveitarfélaginu eða í erindagjörðum innan lands á vegum sveitar­félags­ins. Að öðrum kosti skal varamaður boðaður á viðkomandi fund. Tryggja skal jafna mögu­leika allra fundarmanna til þátttöku á fundi og í atkvæðagreiðslu, óskerta möguleika þeirra til að fylgjast með því sem þar fer fram og öryggi samskipta milli fundarmanna.
Fulltrúar í nefndum sveitarfélagsins hafa sömu heimildir og bæjarfulltrúar skv. 1. mgr.
Um framkvæmd fjarfunda að öðru leyti gildir auglýsing um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitar­stjórna, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.

Tillagan er borin undir og samþykkt með 5 atkvæðum. Ari B. Thorarensen, D-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni og 3 fulltrúar D-lista sitja hjá.