Fjölnota íþróttahús á Selfossvelli
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 16
16. október, 2019
Annað
Fyrirspurn
Tillaga frá 10. fundi eigna- og veitunefndar frá 9. október sl. liður 8. Meirihluti eigna- og veitunefndar leggur til við bæjarstjórn að tilboði lægstbjóðenda verði tekið og að sviðsstjóra Mannvirkja- og umhverfissviðs verði falið að ganga til samninga við lægstbjóðendur svo fremi að þeir uppfylli kröfur útboðsgagna.
Niðurstaða vinnu sem KPMG vann í júlí sl. sýnir að ekki þörf á sérstakri úttekt á áhrifum fjárfestingarinnar á fjárhag sveitarfélagsins. Fjárfestingin telst vera um 16% af skatttekjum sveitarfélagsins og því undir 20% viðmiðs sveitarstjórnarlaga. Gert er ráð fyrir þessari fjármögnun í 4ra ára áætlun sveitarfélagsins og að fjárfestingunni verði mætti með skatttekjum og lántökum.
Svar

Gunnar Egilsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista og Ari Björn Thorarensen, D-lista tóku til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, 4 bæjarfulltrúar D-lista voru á móti.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

Sögulegum áfanga er nú náð með samþykkt meirihluta bæjarstjórnar um að heimila byggingu fyrsta áfanga Íþróttamiðstöðvar við Engjaveg á Selfossi. Fullbyggð mun Íþróttamiðstöðin verða yfir 20.000 fermetrar að stærð og rúma meðal annars aðstöðu fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð, handbolta- og fimleikahöll, líkamsrækt, bardagaíþróttir auk aðstöðu fyrir fleiri íþróttagreinar og einnig mun hún nýtast til sýningar- og tónleikahalds. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við Íþróttamiðstöðina við Engjaveg verði að fullu lokið árið 2030.
Fyrsti áfangi Íþróttamiðstöðvarinnar sem nú var samþykkt að hefja framkvæmdir við er fjölnota íþróttahús sem er um 6.500 fermetrar að stærð og mun rúma hálfan knattspyrnuvöll, aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir, göngubraut og nýtast til sýningar- og tónleikahalds. Húsið mun rísa við suðurenda núverandi gervigrasvallar. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi hússins verði tilbúinn til notkunar 1. ágúst 2021.
Málflutningur bæjarfulltrúa D-lista Sjálfstæðisflokksins vekur furðu þar sem að niðurstaða vinnu sem KPMG vann í júlí sl. sýnir að ekki er þörf á sérstakri úttekt á áhrifum fjárfestingarinnar á fjárhag sveitarfélagsins. Fjárfestingin telst vera um 16% af skatttekjum sveitarfélagsins og því undir 20% viðmiðs sveitarstjórnarlaga. Gert er ráð fyrir þessari fjármögnun í 4ra ára áætlun sveitarfélagsins og að fjárfestingunni verði mætt með skatttekjum og lántökum.
Meirihluti bæjarstjórnar fagnar því að framkvæmdir við fyrsta áfanga Íþróttamiðstöðvar við Engjaveg séu að hefjast enda uppfyllir hún óskir og þarfir íþróttahreyfingarinnar til langs tíma, ekki bara á Selfossi heldur í Svf. Árborg og á Suðurlandi öllu.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Helgi S. Haraldsson, B-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista

Gunnar Egilsson, D-lista óskaði eftir að fá að gera grein fyrir atkvæði minnihlutans með eftirfarandi bókun:

Bæjarfulltrúar D-lista greiða atkvæði gegn áformum um byggingu fjölnota íþróttahúss eins og lagt er upp með það af hálfu meirihlutans. Fullnægjandi kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir, hönnun margra verkþátta er ekki lokið og þó er búið að bjóða bygginguna út. Af hálfu meirihlutans hefur verið vísað til álits endurskoðenda á því að fjárfestingin næmi um 16% af áætluðum skatttekjum sveitarfélagsins. Ekki verður annað séð en það álit hafi byggt á ófullnægjandi gögnum af hálfu sveitarfélagsins, þar sem ekki er gert ráð fyrir nándar nærri öllum kostnaðarliðum, auk þess sem nú liggja fyrir verðtilboð í framkvæmdir, að svo miklu leyti sem unnt er að horfa til þeirra þar sem hönnun verksins er ekki lokið. Þess er farið á leit að unnin verði kostnaðaráætlun fyrir verkið í heild, þar sem tekið verði tillit til kostnaðar við undirbúning og hönnun, þeirra verðtilboða sem nú liggja fyrir vegna framkvæmdarinnar og að áætlaður verði kostnaður við verkliði sem eru ekki inni í útboðum sem fram hafa farið en nauðsynlegt verður að ráðast í til að geta tekið húsið í notkun, þar er t.d. um að ræða gervigras, hlaupabrautir og kaup á nauðsynlegum búnaði, auk þess sem ljóst er að umtalsverður kostnaður mun hljótast af aukaverkum þegar lagt er upp með verkframkvæmd á þessum grunni. Einungis með allar þessar forsendur uppi á borðum verður unnt að fá marktækt álit á því hvort umrædd fjárfesting fer yfir 20% af skatttekjum, en þá ber að gæta að ákvæðum 66. gr. sveitarstjórnarlaga, eins og áður hefur verið bent á.