Lögð var fram gildandi skráning BG eigna ehf. og breytingasaga, ásamt stofngögnum. Gildandi skráning er sú sama og stofnskráningin. Einnig voru siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Sveitarfélaginu Árborg lagðar fram.
Ari Björn Thorarensen, D-lista og Gunnar Egilsson, D-lista, tóku til máls.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er dapurlegt að verða vitni að því að svo reyndir bæjarfulltrúar eins og Gunnar Egilsson og Ari Björn Thorarensen skuli ekki sjá ástæðu til þess að draga til baka þau ummæli sem þeir viðhöfðu á síðasta bæjarstjórnarfundi í garð bæjarfulltrúa Tómasar Ellerts Tómassonar . Það er skoðun undirritaðra bæjarfulltrúa að bæjarfulltrúarnir Gunnar Egilsson og Ari Björn Thorarensen hafi ekki sýnt háttvísi í umræðum um þetta mál. Ummæli þeirra voru hrein og klár ósannindi, fyrir liggur að forseti bæjarstjórnar hefur lagt fram gögn því til staðfestingar. Það er alveg ljóst að kjörnum fulltrúum ber að haga störfum sínum og orðræðu í samræmi við settar siðareglur sem þessir bæjarfulltrúar hafa skrifað undir og samþykkt með undirritun sinni. Í 3. gr. siðareglna sveitarfélagsins segir m.a að kjörnir fulltrúar eigi að sýna störfum og réttindum annara kjörinna fulltrúa virðingu, að auki kemur fram í 2. gr. siðareglna að kjörnir fulltrúar eigi að forðast að hafast nokkuð það að sem er þeim til vanvirðu eða hvað það sem varpað getur rýrð á störf þeirra eða Svf Árborgar. Undirrituð telja það sjálfsagt og eðlilegt að siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í samræmi við hlutverk sitt skv. 29. gr sveitarstjórnarlaga taki til umfjöllunar og úrskurði hvort bæjarfulltrúarnir Gunnar Egilsson og Ari Björn Thorarensen hafi brotið gegn siðareglum Svf Árborgar með ummælum sínum og háttvísi á síðasta bæjarstjórnarfundi þann 30 apríl s.l.
Sigurjón V Guðmundsson Á lista
Helgi S Haraldsson, B-lista,
Tómas E Tómasson, M-lista,
Eggert V Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista.
Gunnar Egilsson, D-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tóku til máls.