Gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði að öllu leyti fjármagnaðar með veltufé frá rekstri og lántökum frá Lánasjóði Sveitarfélaga. Ekki er talin þörf á öðrum leiðum, þó að KPMG hafi greint mögulega fjármögnun frá lífeyrissjóðum og leitt í ljós að sú nálgun eykur fjárfestingargetu Árborgar umtalsvert.
Eins og bæjarráð kallaði eftir, 21. mars síðastliðinn, er fjárfestingaáætlun 2019-2022 nú í endurskoðun. Í því samhengi þótti nauðsynlegt að endurmeta einnig forsendur í fjárhagsáætlun enda hefur afkoma sveitarsjóðs mikil áhrif á fjárfestingargetu. Stefnt er að því að endurmat liggi fyrir í byrjun júní. Þar mun koma fram hvernig æskilegt er að fjárfestingar dreifist og hvernig haga þarf lántökum. Tillaga um uppfærða fjárfestingaáætlun ætti þá að geta komið til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 19. júní.
Ályktun bæjarráðs frá 21. mars síðastliðnum:
"Í ljósi breyttra forsenda telur bæjarráð rétt að endurmeta fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins 2019-2022 og kanna hvort ástæða er til að gera breytingar frá þeirri áætlun sem samþykkt var í desember síðastliðinn.
Á fyrstu mánuðum ársins hafa verið samþykktir miklir viðaukar vegna útgjalda í sorpmálum vegna breyttra aðstæðna. Einnig hefur reynst nauðsynlegt að samþykkja frekari viðauka, vegna stofnframlaga og annarra útgjalda. Þessir viðaukar hafa lækkað áætlaðan afgang ársins 2019 umtalsvert.
Það má einnig ætla að fyrir liggi nýjar kostnaðarupplýsingar um einhverjar af þeim fjárfestingum sem ráðgerðar eru í fjárfestingaáætlun og jafnvel nýjar upplýsingar um fyrirsjáanlega framvindu í gatnagerð ársins. Loks eru blikur á lofti í efnahagslífinu og ástæða til að meta hvort það kallar á sérstök viðbrögð."