Gunnar Egilsson, D-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
Á fundi framkvæmda- og veitustjórnar hinn 30. janúar s.l. samþykkti meirihluti stjórnar Selfossveitna bs. að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 600.000.000 kr., til 16 ára til að fjármagna framkvæmdir skv. samþykktri fjárhagsáætlun. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins stæði einföld óskipt ábyrgð Sveitarfélagsins Árborgar og setji það til tryggingar tekjur sínar. Fulltrúar D-lista sitja hjá við þessa afgreiðslu málsins.
Nú hefur verið lagður fram tölvupóstur með afgreiðslu stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga þar sem eftirfarandi kemur fram:
„Stjórn Lánasjóðsins tók fyrir lánsumsókn Árborgar á síðasta fundi, síðastliðinn þriðjudag og var lánsumsókn fyrir 600 mkr. samþykkt.
Lánsumsóknin var samþykkt þannig að 580 mkr. séu vegna afborganir eldri lána og 20 mkr. séu vegna framkvæmda ársins.“
Afgreiðslan er skilyrt við að langstærstur hluti lánsins, 580 mkr, sé nýttur til afborgana eldri lána og einungis 20 mkr vegna framkvæmda ársins. Í samþykkt framkvæmda- og veitustjórnar var hinsvegar sótt um lán til að fjármagna framkvæmdir ársins samkvæmt fjárhagsáætlun, ekki til endurfjármögnunar. Þessi afgreiðsla Lánasjóðs sveitarfélaga staðfestir það sem haldið hefur verið fram af fulltrúum D-lista að fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins fær ekki staðist skoðun og er mjög óábyrg. Ljóst er að áætluð fjárfesting er alltof há og áætlaðar tekjur á móti fjárfestingu af gatnagerðargjöldum eru með öllu óraunhæfar. Undirritaður óskar eftir að upplýst verði hvernig meirihluti bæjarstjórnar hyggst fjármagna þær framkvæmdir sem áætlaðar eru.
Gunnar Egilsson, D-lista.
Bókun vegna beiðni bæjarfulltrúa D lista
Það vekur furðu undirritaðra bæjarfulltrúa sú beiðni fulltrúa D lista, að afgreiðsla stjórnar Lánasjóðs Sveitarfélaga sé færð inn sem sérstakt mál inn á fund bæjarráðs. Afgreiðslumál Lánasjóðsins eru ekki leyndarmál enda um opinbera aðila að ræða, það vekur líka furðu hvers vegna fulltrúi D lista leggur ekki sjálfur fram með hvaða hætti stjórn Lánasjóðsins afgreiddi lánsumsókn sveitarfélagsins í ljósi þess að hann fékk hana senda í tölvupósti frá bæjarstjóra í síðustu viku. Það er ekkert óeðlilegt við það að lán frá Lánasjóði Sveitarfélaga fari til afborgana eldri lána enda er það ætlun meirihluta bæjarstjórnar að leita leiða til þess að endurfjármagna eldri lán með hagstæðari kjörum. Á næstu dögum fer í gang vinna við endurskoðun fjárfestingaráætlunar,sérstaklega með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu frá því í haust.
Það felur í sér mikla ábyrgð að vera kjörinn bæjarfulltrúi. Við gerð fjárhags og fjárfestingaráætlunar sveitarfélagsins á liðnu hausti voru allir kjörnir fulltrúar boðaðir á vinnu og samráðsfundi, alls níu talsins. Það er ein af frumskyldum þeirra sem kjörnir eru til þess að stýra sveitarfélaginu, að taka þátt í slíkri vinnu til þess að vera vel upplýstir um fyrirhugaðar fjárfestingar, rekstur og lántökur næstu ára. Fulltrúi D lista í bæjarráði mætti einungis á einn slíkan samráðsfund og boðaði ekki forföll á hina. Sú fjarvera skýrir hugsanlega á einhvern hátt fjölmargar fyrirspurnir og bókanir fulltrúans varðandi fjárhag, hugsanlegar fjárfestingar og rekstur sveitarfélagsins á undanförnum vikum og mánuðum.
Eggert Valur Guðmundsson S-lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson Á-lista