Fyrir hönd Sveitarfélagsins Árborgar gerir bæjarráð eftirfarandi athugasemdir við frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða.
Bæjarráð telur brýnt að gera breytingu á frumvarpinu í þá veru að þeir aðilar sem nefndir eru í 3. tölulið 2. mgr. 12. greinar um umdæmisráð gegni stöðu áheyrnarfulltrúa. Eins og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á mun slík breyting á frumvarpinu undirstrika að meginhlutverk þess er að vera samráðsvettvangur Þjóðgarðastofnunar og sveitarfélaga.
Bæjarráð Árborgar hvetur til þess að breytingar verði gerðar á frumvarpinu þannig að drög að atvinnustefnu fyrir friðlýst svæði verði samþætt verndar- og stjórnaráætlun. Heiti slíkra áætlana gæti þá orðið stjórnunar-, verndar- og nýtingaráætlanir.
Bæjarráð tekur undir með Sambandi íslenskra sveitarfélaga að mikilvægt sé að huga að því að það fyrirkomulag stjórnsýslu sem lagt er til í frumvarpinu verði ekki þyngra í vöfum en tilefni er til.
Bæjarráð Árborgar telur að breyta þurfi frumvarpinu þannig að áréttað verði að miðlæg stoðþjónusta geti átt sér stað utan aðalskrifstofu. Jafnframt óskar Svf. Árborg eftir því að aðalskrifstofa Þjóðgarðastofnunar hafi aðsetur í höfuðstað Suðurlands, á Selfossi.