Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaáætlun 2020-2024.
Farið er í umsögninni yfir þá hnökra sem orðið hafa á samskiptum ríkis og sveitarfélaga í tengslum við þá einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar að frysta framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2020 og 2021. Skerðingin nemur samtals 3-3,5 ma.kr. og bitnar harðast á fámennum sveitarfélögum. Gerð er skýlaus krafa um að Alþingi dragi til baka þessi áform ríkisstjórnarinnar.
Í umsögninni er einnig farið nokkuð ítarlega yfir einstök málefnasvið í fjármálaáætluninni enda snúa fjölmargar aðgerðir að samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Á meðal atriða sem sambandið leggur mesta áherslu á má nefna:
Að innheimtuþóknun sem sveitarfélögin greiða ríkinu fyrir innheimtu útsvars í staðgreiðslu verði lækkuð verulega.
Að tryggt verði fjármagn til sóknaráætlana landshluta og til almenningssamgangna.
Að tekjur af gistináttaskatti færist til sveitarfélaga og að gripið verði til aðgerða til að bæta stöðu ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni.
Að hraðað verði vinnu við mótun tillagna um skattlagningu orkumannvirkja.
Að framkvæmdum við ofanflóðavarnir verði hraðað.
Að unnið verði áfram að umbótum í menntamálum, með áherslu á nýliðun í kennarastétt.
Að rekstrarforsendur hjúkrunar- og dagdvalarrýma á öldrunarstofnunum verði treystar, þannig að daggjöld taki mið af kröfulýsingum fyrir þessar stofnanir.
Að teknar verði upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig hægt verði að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar.