Bæjarráð Árborgar samþykkir að sveitarfélagið verji allt að 10 milljónum króna í kynningar- og ímyndarherferð þar sem áhugasöm fyrirtæki á svæðinu munu einnig taka þátt.
Megininntak átaksins er að draga athygli að jákvæðum breytingum sem eru að eiga sér stað á Selfossi og þeim uppbyggjandi áhrifum sem þær munu hafa á næstu árum. Áhersluatriði átaksins verða mannlíf, vöxtur og náttúra. Samhliða verða Eyrarbakki, Stokkseyri og Sandvíkurhreppur kynntir sem áhugaverðir staðir til heimsókna, búsetu og atvinnureksturs.
Mikill fjöldi fólks á leið um Selfoss á degi hverjum og til mikils að vinna að þeir líti á staðinn sem áhugaverðan til heimsóknar. Þá stendur fyrir dyrum að hefja úthlutun lóða í Björkurstykki, á vegum sveitarfélagsins, og jafnvel víðar á vegum einkaaðila, og mun jákvæð kynning sem þessi styrkja sveitarfélagið sem afbragðs búsetuvalkost. Einnig má benda á að mikilvægt er að fyrirtæki í landinu sjái tækifæri í því að nýta vaxandi fjölda íbúa og aukið atgervi í Árborg til að auka starfsemi sína í sveitarfélaginu.
Fyrirtæki og framkvæmdaaðilar á Selfossi hafa sýnt mikinn áhuga á að koma að slíkri kynningarherferð, ásamt sveitarfélaginu, með það að markmiði að auðga mannlíf og fjölga hér tækifærum.
Efni kynningarátaksins verður tekið upp nú í sumar og mun verða birt í öllum fjölmiðlum í haust og eftir áramót. Sérstök áhersla verður lögð á samfélagsmiðla, en einnig hefðbundna fjölmiðla.
Tengiliður verkefnisins fyrir hönd sveitarfélagsins verður Bragi Bjarnason, frístunda- og menningarfulltrúi. Sveitarfélagið mun annast fjárvörslu vegna átaksins.
Bæjarráð samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2019 upp á 10 milljónir króna vegna þessa verkefnis.