Fjárhagsáætlun 2020-2023
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 18
11. desember, 2019
Annað
Fyrirspurn
Síðari umræða.
Svar

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tók til máls og kynnti breytingar á fjárhagsáætlun og 3ja ára áætlun milli umræðna.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tóku til máls.

Fjárhagsáætlun 2020 og 3ja ára áætlun voru bornar undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, bæjarfulltrúar D-lista sátu hjá.

Gunnar Egilsson, D-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar D lista leggja fram eftirfarandi bókun og gera grein fyrir atkvæðum sínum við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir Arborg.

Við sitjum hjá við afgreiðslu.

Við getum ekki samþykkt fjárhagsáætlunina vegna skorts á fullnægjandi upplýsingum um stórann hluta fjárfestinga,óraunhæfar áætlanir um kostnað og að okkar mati ranga forgangsröðun verkefna.
Á þetta höfum við ítrekað bent og óskað eftir betri uppl. en hvorki fengið hljómgrunn eða svör.
Við teljum að meirihluti bæjarstjórnar sé með þessu að vanrækja grunnþjónustu og stefna fjárhagslegu sjálfstæði sveitarfélagsins í hættu.


Eggert Valur Guðmundsson S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mikil vinna hefur verið lögð í að bæta áætlanagerð hjá sveitarfélaginu að undanförnu með það að markmiði að fjárhagsáætlunin sé eins nákvæm og kostur er. Það er hlutverk bæjarfulltrúa allra flokka, í samstarfi við starfsfólk sveitarfélagsins, að gera sífellt betur í rekstri sveitarfélagsins.

Svf. Árborg er um margt einstakt sveitarfélag með friðsælum sjávarþorpum, búgarðabyggð, stóru þéttbýli með þjónustu sem nútímasamfélag gerir kröfur um, auk dreifbýlis þar sem stundaður er hefðbundin landbúnaður og kraftmikil hesta- og ferðamennska.

Svf. Árborg hefur vaxið gríðarlega á skömmum tíma og hefur uppbygging íbúðarhúsnæðis að öllum líkindum aldrei verið meiri en hún er þessi misserin. Framkvæmdir við nýtt byggingarland í landi Bjarkar eru komnar í gang auk fjölmargra annarra verkefna sem of langt mál er að tína til í stuttri bókun.

Nú á dögunum var tíu þúsundasti íbúi sveitarfélagsins boðinn velkominn með gjöfum. Á undanförnum árum hefur íbúafjölgun verið mikil og sýnir svo ekki verður um villst að eitthvað er verið að gera rétt við stjórnun sveitarfélagsins. Margt er þó enn hægt að bæta og munum við á næstu árum sífellt leita leiða til þess að gera betur í að bæta þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.

Fjárhagáætlun sveitarfélagsins er ekki einungis rammi um útgjöld og tekjur, heldur er hún stefna um þjónustu og framkvæmdir sem markar línur fyrir það öryggi sem íbúar ásamt fyrirtækum búa við næsta árið. Það er von okkar að með samþykkt þessarar fjárhagsáætlunar sé stigið skref til þess að koma á móts við réttmætar væntingar íbúa og fyrirtækja. Starfsfólki sveitarfélagsins eru færðar hinar bestu þakkir fyrir þeirra vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar um leið og undirrituð óska starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins gleðilegra jóla.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar 2020 :
Útsvarsprósentan er óbreytt milli ára eða 14,52%
Fasteignaskattsprósenta af íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,275% í 0,2544% eða um 7,5%
Fasteignaskattsprósenta af atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,65% í 1,60% eða um 3%
Vatnsgjald á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,1765% í 0,1721% eða um 2,5%
Sorphirðugjald hækkar um 5% milli ára.
Almennt hækka gjaldskrár um 2,5% milli ára í samræmi við samkomulag sem gert var í tengslum við lífskjarasamninga.


Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista.