Fyrirspurn frá bæjarfulltrúa D-lista - upplýsingar um minnisblöð og verðkönnun vegna leikskóla í Engjalandi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarráð nr. 45
29. ágúst, 2019
Annað
Svar

Bæjarfulltrúar meirihluta svöruðu erindinu með eftirfarandi bókun:

Forseti bæjarstjórnar hefur ekki vísað í nein minnisblöð um þessi mál, hvorki í fjölmiðlum né á fundi bæjarstjórnar. Hinsvegar skýrði forseti það út á bæjarstjórnarfundi að samkvæmt sínum upplýsingum, sem hann vissi ekki annað en væru réttar, þá hefði þáverandi sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs kallað til vinnunnar þá hönnuði sem unnu að nýjum leikskóla, Undralandi, í Hveragerði. Taldi forseti að sviðsstjóri hefði kannað verðhugmyndir þessara hönnuða og „væntanlega“ borið saman við aðra.
Það er augljóst af fundargerðum faghóps fyrir nýjan leikskóla í Engjalandi 21 að sviðsstjóri hefur kallað til vinnunnar, vegna leikskólans í Engjalandi, hönnuðateymið sem vann að leikskólanum Undralandi á árunum 2015-2017. Það er fullkomlega eðlilegt að sviðsstjóri hafi kallað til þetta teymi hönnuða, í ljósi þess að almenn umræða meðal bæjarfulltrúa hafði verið á þann veg að byggja skyldi á hönnuninni í Undralandi, sem væri í raun byggð á hönnun sömu arkitekta á Hulduheimum á Selfossi. Þetta ætti að gera til að spara bæði tíma og peninga.
Úr því ætlunin var að vinna á grunni hönnunarinnar í Undralandi var engin önnur leið fyrir sviðsstjóra en að kalla til hönnuðina að því verki, sem voru m.a. ASK arkitektar og Landhönnun. Þar sem um höfundarrétt er að ræða er ekki heimilt að kalla aðra arkitekta að vinnu með sömu hönnun og rökrétt að teymið allt verði hið sama eins og frekast er unnt.
Nú er hinsvegar komið að þeim tímapunkti að ráðast í útboð og munu tillögur þar að lútandi lagðar fyrir bæjarráð á næstunni.
Það er af öllu ljóst að Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi hefur enga aðkomu átt að vali eða ráðningu hönnuða og lágkúrulegt af Gunnari Egilssyni bæjarfulltrúa að reyna að nota veru hennar í faghópnum sem pólitískt áróðursbragð til að grafa undan trausti í hennar garð. Bæjarstjórn kaus Örnu Ír til setu í faghópnum vegna formennsku hennar í fræðslunefnd með öllum greiddum atkvæðum. Öllum bæjarfulltrúum mátti þá vera ljóst að stefnt skyldi að því að nota sömu hönnun og við Undraland í Hveragerði.

Eggert Valur Guðmundsson S-lista
Tómas Ellert Tómasson M-lista