Breyting á reglum um lóðaúthlutun
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 21
18. mars, 2020
Annað
Svar

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, fylgdi úr hlaði eftirfarandi tillögu að breytingum á reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Árborg:

8. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

8. gr.
Veiting vilyrða fyrir lóðum

Bæjarráði er í sérstökum tilvikum heimilt að veita vilyrði fyrir lóðum, án undangenginna auglýsinga, þegar sótt er um lóðir innan skipulagðra svæða eða á óskipulögðum. Bæjarráð ákveður þegar vilyrði er veitt hversu lengi það skal gilda, þó ekki lengur en 6 mánuði. Umsækjandi getur sótt um framlengingu á gildistíma vilyrðis ef lóð er ekki byggingarhæf, af ástæðum sem varða sveitarfélagið, innan þess tíma sem vilyrðið gildir.

Bæjarráði er heimilt að krefja umsækjanda lóðar um staðfestingargjald í stað gatnagerðargjalds ef byggingaráform umsækjanda krefjast breytinga á deiliskipulagi sem falla ekki undir 44.gr. skipulagslaga nr.123/2010. Bæjarráð ákveður upphæð gjaldsins með hliðsjón af 4.gr. samþykktar um gatnagerðargjöld í þéttbýli í Sveitarfélaginu Árborg og dregst sú upphæð frá útreiknuðu gatnagerðargjaldi við endanlega úthlutun lóðarinnar.

Endanleg úthlutun getur aldrei farið fram fyrr en að lokinni skipulagsvinnu, sé hennar þörf og að fengnu samþykki Bæjarstjórnar.

Var áður svohljóðandi:
8. Veiting vilyrða fyrir lóðum
Bæjarráði er í sérstökum tilvikum heimilt að veita vilyrði fyrir lóðum, án undangenginna auglýsinga, þegar sótt er um lóðir innan skipulagðra svæða eða á óskipulögðum svæðum. Bæjarráð ákveður þegar vilyrði er veitt hversu lengi það skal gilda, þó ekki lengur en 6 mánuði. Umsækjandi getur sótt um framlengingu á gildistíma vilyrðis ef lóð er ekki byggingarhæf, af ástæðum sem varða sveitarfélagið, innan þess tíma sem vilyrðið gildir. Endanleg úthlutun getur aldrei farið fram fyrr en að lokinni skipulagsvinnu, sé hennar þörf og að fengnu samþykki bæjarstjórnar.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.