Helstu tafir þessa verkefnis eru tilkomnar vegna þess að eldra skipulag gerði ekki ráð fyrir nema 3 virkjuðum holum á svæðinu og þurfti því að láta fara fram deiliskipulagsbreytingu á svæðinu. Eins og bæjarfulltrúa Gunnari Egilssyni ætti að vera kunnugt um, sér í lagi eftir að hafa verið formaður bæði framkvæmda og veitunefndar og skipulagsnefndar, þá er slík vinna oftar en ekki mjög tímafrek. Fyrirliggjandi gögn sem lúta að þessu máli eru greinagerð um skipulagsbreytinguna, svar við byggingarleyfisumsókn og svar við skipulagsbreytingu. Verið er að leggja lokahönd á virkjun ÓS-4 þrátt fyrir að verkið hafi tafist. Verkið sem slíkt hefur gengið hratt og vel og er verið að ljúka síðustu verkþáttum, og stefnt að því að dæling hefjist snemma á næsta ári. Það er skoðun undirritaðra að fyrirspurn eins og sú sem hér um ræðir eigi að leggja fyrir eigna- og veitunefnd en ekki bæjarrráð, auk þess sem bæjarfulltrúinn vegur ómaklega að okkar dómi að starfsheiðri þeirra starfsmanna sveitarfélagsins sem leggja sig mjög fram í sínum störfum og bera ábyrgð á rekstraröryggi Selfossveitna. Einnig er rétt að það komi fram að margsinnis á undanförnum árum hefur verið brugðið á það ráð að loka sundlaugum í sveitarfélaginu þegar spáð er miklu kuldakasti, enda féll ekki þrýstingur heita vatnsins niður í þessu kuldakasti og engar kvartanir vegna þrýstingsleysis borist Selfossveitum. Rétt er að benda á í þessu samhengi að tveir af fimm stjórnarmönnum Eigna- og veitunefndar sitja þar í umboði Sjálfstæðisflokksins og eðlilegast hefði verið að bæjarfulltrúi Gunnar Egilsson hefði leitað eftir upplýsingum hjá þeim vegna málsins í stað þess að leggja fram formlega fyrirspurn í bæjarráði.
Eggert Valur Guðmundsson S lista
Tómas Ellert Tómasson M lista