Bæjarráð Árborgar hvetur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga til að endurskoða afstöðu sína til Framfaravogar sveitarfélaga.
Í ályktun 886 fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga var hafnað formlegri aðkomu Sambandsins að Framfaravog sveitarfélaga. Eins og fram kom í erindi bæjarstjóra Kópavogsbæjar, Reykjanesbæjar og Svf. Árborgar, sem lá fyrir fundinum, er aðkoma Sambandsins að verkefninu mikilvæg og vel viðeigandi.
Ekki var farið fram á fjárhagslegan stuðning við verkefnið heldur aðeins að Sambandið styddi verkefnið til umræðu og samstarfs meðal sveitarfélaga, auk þess sem óskað var eftir stuðningi Sambandsins við þá vegferð að fá ríkið, með háskólasamfélaginu, til að auka verulega söfnun og birtingu gagna um samfélagslega þætti.
Óskir sveitarfélaganna þriggja eru í fullu samræmi við umræður á fundi sem Sambandið stóð fyrir þann 6. mars síðastliðinn: „Þriðji tengiliðafundur sveitarfélaga um heimsmarkmiðin ? Finnum samnefnara!“ Á þeim fundi var m.a. bókað í fundargerð:
„Þá var rætt var um mikilvægi þess að sveitarstjórnarstigið sé inni í mælikvarðavinnu Hagstofu Íslands vegna heimsmarkmiðanna og að ríkið tryggi fjármagn í þessa vinnu. Enn fremur að þörf sé á því að skilgreina mælikvarðavinnu ríkis og sveitarfélaga vegna heimsmarkmiðanna sem sérstakt verkefni og möguleika þess að stofna formlegan vinnuhóp í kringum verkefnið sem hafi yfirsýn yfir þá mælikvarða sem eru til og sinni gæðaeftirliti.“
Sveitarfélögin Árborg, Reykjanesbær og Kópavogsbær hafa lagt mikla vinnu í að skilgreina mælikvarða sem nýst geta til samfélagslegrar þróunar á grunni Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og liggja nú fyrir 60 vísar. Mikil vinna er þó enn fyrir höndum við að slípa þá til og tryggja að góðar opinberar upplýsingar liggi til grundavallar mælingum. Sveitarfélögin vilja gjarnan að sporganga þeirra nýtist öðrum sveitarfélögum í landinu og því er biðlað til stjórnar Sambandsins að endurmeta ákvörðun sína.