Gunnar Egilsson, D-lista, tók til máls.
Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, las upp eftirfarandi fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista:
Í skýrslu Domus Mentis geðheilsustöðvar, dags. janúar 2020, um upplifun starfsmanna Fjölskyldusviðs Árborgar af skipulagsbreytingum sem kynnt var í fræðslu-, félagsmála- og íþrótta- og tómstundanefndum sveitarfélagsins í sl viku kemur fram að afar illa hefur tekist til við að sameina þá starfsemi sem heyrir undir framanngreindar nefndir í eitt svið og skortir m.a. alla forystu í breytingastjórnun og innleiðingu verkefnisins. Stjórnun, teymisvinna og samskipti ganga ekki upp. Bæjarfulltrúar D-lista óska eftir upplýsingum um til hvaða ráðstafana meirihlutinn hyggst grípa til að leysa úr vandanum. Afar mikilvægt að er hlúa vel að þeim mannauði sem fyrir er og skapa starfsfólki þannig skilyrði að það geti sinnt sínum verkefnum. Í skýrslunni eru nefnd nokkur atriði sem vinna má með, en aðgerðaráætlun fylgir ekki. Hvaða leiðsögn, stuðning og úrræði munu starfsmenn fjölskyldusviðs fá við að innleiða þessar breytingar sem greinilega hafa verið afar illa ígrundaðar í upphafi?
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tók til máls.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Í skýrslu Domus Mentis er fjallað um tækifæri til umbóta en einnig jákvæða þætti. Talað er um: mikinn mannauð og fagþekkingu á fjölskyldusviði, Ráðhúsið sem góðan vinnustað, mikil tækifæri til þverfaglegs samstarfs, þróunar teymisvinnu, ráðgjafateymi leikskóla og ráðningu verkefnastjóra í snemmtækri íhlutun.
Það eru stór orð að segja að stjórnun, teymisvinna og samskipti gangi ekki upp eins gert er í fyrirspurninni. Sumt af því sem skýrsluhöfundar greina sem vanda á sér lengri sögu en skipulagsbreyingarnar ná til, svo sem mikil starfsmannavelta og undirmönnun í barnavernd. Utanaðkomandi fagðaðili hefur nú þegar hafið frekari vinnu með barnaverndinni v/kortlagningar verklags og þróun þess í samstarfi við deildarstjóra og starfsfólk. Einnig verður unnið að endurskoðun á skipulaginu með sérstakri áherslu á að styrkja félagsþjónustuna og þverfaglegt samstarf á fjölskyldusviði og við stofnanir utan þess. Þar verður m.a. horft á þær breytingar sem hafa orðið á lögum um félagsþjónustu og áform barna- og félagsmálaráðherra sem falla vel að markmiðum fjölskyldusviðs. Leitast er við að vinna sem mest í gegnum styrkleika sviðsins, sem eru margir. Einnig er verið að vinna að því að tryggja betur öfluga faglega forystu og eru stjórnendur að vinna að því að setja niður samstarfsfundi til að vinna að nauðsynlegum umbótum. Utanaðkomandi fagaðilar koma með í þá vinnu en í umbótastarfinu er mikilvægt að nýta sem mest eigin mannauð og þá fagþekkingu sem er til staðar hér í Árborg.
Á samstarfsfundi á fjölskyldusviði í ágúst 2019 kom fram að nú væri staðið frammi fyrir nýjum áskorunum, þegar ólíkir fagaðilar eiga að starfa saman sem áður hafa unnið út frá mismunandi gildismati og starfsvenjum. Skýrsla Domus Mentis sýnir að þau orð áttu við rök að styðjast. Á sama fundi kom fram að þekkingarsköpun og þróun þjónustu byggir mikið á sameiginlegri ígrundun starfsfólks, endurmati, víðtækri samvinnu og opnum starfsháttum. Lögð verður áhersla á það á næstu mánuðum að treysta slík vinnubrögð. Mikilvægt er að efla fjölskyldusvið og þá þjónustu sem því er ætlað að sinna með velferð íbúanna að leiðarljósi.
Aðgerðaráætlun vegna skýrslunnar hefur verið í vinnslu. Aðgerðir eru þegar hafnar og hefur bæjarstjóri óskað eftir að fá að kynna hana fyrir bæjarráði á morgun, heimili bæjarráð að málið verði tekið á dagskrá.
Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.