Bæjarráð Svf. Árborgar þakkar stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir tillögur að efnahagslegum viðbrögðum sveitarfélaga vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Bæjaryfirvöld munu taka til skoðunar og úrvinnslu allar þær hugmyndir og ábendingar sem þar koma fram, um mögulegar aðgerðir sveitarfélaga til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf.
Bæjarráð Árborgar saknar þess að ekki skuli hafa verið minnst á niðurfellingu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum sveitarfélaga í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar, „Viðspyrna fyrir Ísland“. Niðurfelling virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum sveitarfélaga hefur lengi verið í umræðunni og er það mat bæjarráðs Svf. Árborgar að nú sé rétti tíminn til þess að stíga skrefið og fella virðisaukaskattinn niður af slíkum framkvæmdum. Með þeirri aðgerð væri einnig verið að aðstoða sveitarfélögin við að uppfylla lagalegar skyldur sínar. Ásamt því að hvetja til slíkrar niðurfellingar, leggur Bæjarráð til við ríkið að það felli tímabundið niður virðisaukaskatt af nýframkvæmdum sveitarfélaga svo atvinnulífið fái þá innspýtingu sem nú bráðvantar.
Bæjarráð Árborgar leggur að lokum til við ríkisvaldið að það skoði þann möguleika að veita sveitarfélögum hærri hlutdeild í skatttekjum ríkissjóðs. Þannig yrðu sveitarfélög betur í stakk búin til að bregðast við þeim efnahagslega og samfélagslega vanda sem birst getur með mismunandi hætti frá einu sveitarfélagi til annars.