Covid-19 - Leiðbeiningar um aðgerðir fyrir heimilin
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarráð nr. 68
26. mars, 2020
Annað
Fyrirspurn
Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. mars, þar sem sveitarfélög eru hvött til að kanna möguleika á lækkun gjaldskrár og tímabundinni lækkun eða niðurfellingu tiltekinna gjalda, ásamt leiðbeiningum fyrir sveitarfélög, sem þau geta nýtt við ákvarðanir um afslátt af greiðsluhlutdeild notenda í velferðarþjónustu.
Svar

Bæjarráð Svf. Árborgar þakkar stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir þær ábendingar og hugmyndir sem stjórnin viðrar um mögulegar aðgerðir sveitarfélaga til aðstoðar heimilum landsins í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin vegna COVID-19 heimsfaraldursins.
Bæjarráð hefur nú þegar ákveðið að leikskólagjöld verði endurgreidd foreldrum þá daga sem barn mætir ekki á leikskóla og með sama hætti að fæðisgjöld verði endurgreidd fyrir þá daga sem börn fá ekki fæði. Sama fyrirkomulag gildir vegna gjalda fyrir frístundaheimili og fæði í grunnskólum. Einnig ákvað bæjarráð að dagforeldrar haldi greiðslum sínum frá sveitarfélaginu ef dagforeldrið er skipað í sóttkví.
Bæjaryfirvöld vinna nú að aðgerðaráætlun til að koma til móts við þarfir íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu í þeim krefjandi aðstæðum sem við blasa. Bæjarfulltrúar munu fara yfir tillögur á næsta þriðjudag og bæjarráð stefnir að kynningu aðgerðaráætlunar á næsta fundi bæjarráðs, þann 2. apríl næstkomandi.
Bæjarráð óskar eftir þátttöku íbúa sveitarfélagsins í vinnunni og mun í þeim tilgangi láta setja upp sérstakt tölvupóstfang - hugmynd@arborg.is - þar sem að íbúar geta komið á framfæri hugmyndum og ábendingum, um aðgerðir sem gætu á næstu mánuðum komið til móts við þarfir íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu og einnig stuðlað að þróttmiklu og eftirsóknarverðu sveitarfélagi. Hugmyndir íbúa verða yfirfarnar af bæjarfulltrúum og hafðar til hliðsjónar við mótun aðgerða.