Ársreikningur 2019
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 24
27. maí, 2020
Annað
Fyrirspurn
Síðari umræða.
Svar

Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Gunnar Egilsson, D-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Sigurjón V. Guðmundsson, Á-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista tóku til máls.

Ársreikningur 2019 var borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða með 9 atkvæðum.

Gunnar Egilsson, D-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Athygli vekur að A-hluti sveitarsjóðs er í mínus sem nemur 136 millj. króna. Tekjuaukning A-hluta á milli áranna 2018 og 2019 er 1.028 millj.króna. Í ljósi þeirrar miklu tekjuaukningar hefði verið eðlilegt að A-hluti hefði skilað að lágmarki um 200-300 millj.króna afgangi. Það er grafalvarlegur hlutur að rekstrarafkoma sé ekki betri en raun ber vitni.

Skuldaviðmið er nú 119% og er því haldið fram að það hafi lækkað frá 2017. Horfa verður á þá fullyrðingu í því ljósi að breytingar hafa verið gerðar á útreikningi skuldahlutfalls á tímabilinu, m.a. hefur þar áhrif að rekstur Leigubústaða Árborgar var tekinn út úr samstæðu sveitarfélagsins skv. nýlegri lagaheimild, þá var einnig reglum um útreikning skuldaviðmiðs breytt. Ef bornar eru saman tölur frá 2017 miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið þá er raunin sú að skuldaviðmið hækkar umtalsvert, en það hefði verið um 108% 2017 miðað við núgildandi útreikning, en er nú 119%. Ekki er því um lækkun skulda að ræða.
Bæjarfulltrúar D lista hafa alvarlegar áhyggjur af vaxandi skuldastöðu sveitarfélagsins þrátt fyrir vaxandi tekjur.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Rekstur Sveitarfélagsins Árborgar, árið 2019, einkenndist af miklum og örum vexti sveitarfélagsins, fólksfjölgun uppá 6%. Með svo mikilli fjölgun íbúa aukast útsvarstekjur verulega en einnig allur kostnaður við að veita þá þjónustu sem lögbundin er og aðra nauðsynlega þjónustu fyrir íbúana. Við skoðun ársreikningsins endurspeglast þetta helst í mikilli aukningu kostnaðar í fræðslu-og uppeldismálum og skipulags- og byggingarmálum, umfram áætlun ársins, ásamt sameiginlegum kostnaði.
Fræðslu- og uppeldismál eru 177 milljónir yfir áætlun og er þar helsta ástæðan mikil aukning á launagreiðslum en þær eru 100 milljónir yfir áætlun. Veikindalaun eru mjög hár kostnaður hjá sveitarfélaginu og í leik- og grunnskólum Árborgar voru árið 2019 greiddar 100 milljónir í veikindalaun sem ekki var áætlað fyrir.
Skipulags-og byggingarmál eru 45 milljónir yfir áætlun og er þar helsta ástæðan mikil aukning á aðkeyptri þjónustu vegna lögfræði-, verkfræði- og arkitektakostnaðar en hann er 25 milljónir yfir áætlun. Einnig er mikil aukning á launakostnaði m.a vegna byggingareftirlits og veikindalauna.
Sameiginlegur kostnaður er 56 milljónir yfir áætlun og er þar helsta ástæðan aukning á aðkeyptri þjónustu sérfræðinga m.a vegna útboða á ræstingu, samtals 30 milljónir. Einnig eru launagreiðslur umfram áætlun.
Loks eru lífeyrisskuldbindingar umfram áætlun um 46 milljónir. Lífeyrisskuldbindingar er erfitt að áætla en þær eru reiknaðar út í árslok 2019 af tryggingarstærðfræðingi, samkv. reglum sem þar gilda um.
Aðalasjóður skilaði tapi uppá 44 milljónir en var áætlað að skilaði afgangi uppá 31 milljón. Eins og sjá má hér að ofan vantar ekki mikið uppá að hægt sé að reka aðalsjóð með afgangi og skal það vera meginmarkið í rekstri Árborgar að svo verði. Samstæðan skilaði afgangi uppá 111 milljónir en var áætlað að skilaði 173 milljónum í afgang.
Skuldahlutfall Sveitarfélagsins Árborgar hefur náð nýju lágmarki og er samkv. reglum þar um, í árslok 117,5% en var 153% árið 2014. Það var 122,6% í árslok 2018.
Mikilli uppbyggingu og hraðri fjölgun íbúa, fylgja miklir vaxtaverkir og hefur Sveitarfélagið Árborg ekki farið varhluta af því undanfarin ár og þá sérstaklega árið 2019. Mikið kapphlaup er í gangi að byggja upp þjónustu fyrir ört vaxandi sveitarfélag s.s með byggingu leikskóla og grunnskóla ásamt öðrum innviðum. Við undirrituð skorumst ekki undan þeirri ábyrgð sem því fylgir og vonum að aðrir bæjarfulltrúar geri það ekki heldur. Starfsmenn Árborgar hafa ekki farið varhluta af þessu heldur og ber að þakka þeim fyrir mikla og góðu vinnu á þessum tímum mikillar fjölgunar íbúa og þeim mikla vexti sem verið hefur og mun halda áfram eins og horfur eru í dag.
Arna Ír Gunnarsdóttir S lista
Eggert Valur Guðmundsson S lista
Helgi Sigurður Haraldssson B lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson Á lista
Tómas Ellert Tómasson M lista