Fyrirspurn
Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að stofnun klassískrar hljómsveitar á Suðurlandi og þann 16. september n.k. er fyrsti tónleikadagur hljómsveitarinnar. Fyrsta verkefni Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands eru tónleikar fyrir börn í sunnlenskum grunnskólum.
Á þessum fyrstu tónleikum heimsækir skólana 14 manna klassísk hljómsveit undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, ásamt sögumanni, og flytur nemendum 40 mínútna dagskrá. Hljómsveitin er að stærstum hluta skipuð hljóðfæraleikurum á Suðurlandi enda er það eitt af meginmarkmiðum með stofnun hljómsveitarinnar.
Þessir tónleikar eru styrktir af Uppbyggingarsjóði SASS, Tónlistarsjóði, List fyrir alla, Kaffi Krús, Seti röraframleiðslu og Sigtúni þróunarfélagi.