Bæjarráð - 100
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 31
20. janúar, 2021
Annað
‹ 15
16
Fyrirspurn
100. fundur haldinn 14. janúar.
Svar

Ari B. Thorarensen, D-lista tekur til máls undir lið nr. 1-Umsögn- frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál.

Forseti leggur til að bæjarstjórn taki undir bókun bæjarráðs undir lið nr. 1 -Umsögn- frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál og var það samþykkt samhljóða.

Bókunin er svohljóðandi:
Bæjarráð Svf. Árborgar telur að frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð sé ekki tilbúið til afgreiðslu eins og það liggur fyrir nú. Hér er um að ræða stórt og viðamikið mál sem þarfnast mun meira samráðs svo tímabært sé að taka ákvörðun um stofnun þjóðgarðs á hálendinu.

Bæjarráð telur ekki ásættanlegt að skipulagsvald sveitarfélaga skerðist, enda eitt öflugasta verkfæri sveitarfélaga og íbúa þeirra til þess að hafa áhrif á þróun byggðar og landnotkun. Með tilliti til aðkomu sveitarfélaganna að málefnum miðhálendisins, þekkingar þeirra og nálægðar, þjónar það ekki hagsmunum sveitarfélaganna að fella 30-40% af landinu öllu undir miðstýringarvald ríkisins.

Bæjarráð óttast að verði frumvarpið að lögum muni skipulagsvaldið í raun flytjast yfir til stjórnar Þjóðgarðsstofnunar, sem þá kemur til með að stýra og fjalla um þætti eins og landnýtingu og mannvirkjagerð, auk annara innviða, án aðkomu sveitarfélaga.

Ennfremur telur bæjarráð að heppilegra hefði verið að stofna til samtals við einstök sveitarfélög varðandi frekari þörf á vernd hálendisins. Ef sú leið hefði verið valin væri auðveldara að meta kosti og galla einstakra friðlýsingarmöguleika eða útfærslur þjóðgarðs á hluta umrædds svæðis.

Bæjarráð telur einnig mikla óvissu ríkja um fjármögnun verkefnisins og því raunveruleg hætta á að ekki takist að byggja upp innviði þjóðgarðsins svo sómi sé að.

Bæjarráð Svf. Árborgar leggst því gegn fyrirliggjandi frumvarpi um Hálendisþjóðgarð.