Gunnar Egilsson, D-lista og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Sigurjón V. Guðmundsson, Á-lista taka til máls undir lið nr. 2- Fyrirspurn frá bæjarfulltrúa D-lista verðmat á landi og landskipti.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista tekur til máls undir lið nr. 2-Fyrirspurn frá bæjarfulltrúa D-lista, verðmat á landi og landskipti og leggur fram eftirfarandi bókun:
Lagt hefur verið fram verðmat á lóðinni Dísarstaðir land 4 í Árborg, landnúmer L207515, fastanúmer 234-1068. Lóðin er framlag Hannesar Þórs ehf til makaskiptasamnings félagsins við Svf. Árborg. Framlag Svf. Árborgar til samningsins eru lóðirnar Tjarnarlækur og Tjarnarlækur millilóð. Matsverðið getur þó aldrei skorið úr um hvert yrði raunverulegt markaðsverð, enda er gerður fyrirvari um 5-7% skekkjumörk í matinu. Landið sem Svf. Árborg tekur í skiptum er talið verðminna vegna nálægðar við hesthúsabyggð sem rýrir kosti landsins til íbúðabyggðar. Landið sem Hannes Þór ehf tekur í skiptunum hentar hinsvegar vel til íbúðabyggðar.
Undirrituð vilja að eftirfarandi staðreyndir komi fram í framhaldi af gagnrýni bæjarfulltrúa D-lista á makaskiptasamning Svf Árborgar og Hannesar Þórs ehf.
Í gildandi aðalskipulagi var fest í sessi framtíðar athafnasvæði hestamanna og hesthúsabyggðar á Selfossi. Með því var land úr jörðinni Dísarstöðum skilgreint sem framtíðarbyggingarland fyrir áframhaldandi uppbyggingu hestamanna á Selfossi og umræður um hugsanlegan flutning hverfisins þaggaðar niður.
Landið sem þannig hafði verið skilgreint í aðalskipulagi sem vettvangur hestamennsku var ekki í eigu sveitarfélagsins. Það var því óhjákvæmilegt að leitað yrði samninga við landeiganda um einhvers konar kaup á því landi sem um ræðir. Þeim viðræðum er nú lokið með farsælli niðurstöðu.
Makaskiptasamningurinn leiðir til þess að Austurbyggð ehf mun byggja íbúðir á því landi sem sveitarfélagið afsalar til félagsins. Öllum íbúðarlóðunum verður svo afsalað aftur til sveitarfélagsins eftir því sem hverfin byggjast og eru það sömu skilmálar og gilt hafa um öll fyrirtæki sem hafa gert samninga um uppbyggingu á einkalöndum á undanförnum árum. Einnig fær sveitarfélagið í umræddum makaskiptasamningi 3 ha úr landi Dísarstaða þar sem fyrirhuguð er bygging nýs grunnskóla.
Við vinnslu málsins var haft samráð við stjórn hestamannafélagsins Sleipnis um færar leiðir og samningaviðræður við landeiganda fylgdu svo í kjölfarið. Það var þó algjörlega undir landeiganda komið að samþykkja eða hafna umleitan sveitarfélagsins og má þakka fyrir samningsvilja hans. Sveitarfélagið Árborg hefur frá upphafi komið að uppbyggingu þessa svæðis fyrir hestaíþróttir að Brávöllum og er það að dómi undirritaðra fráleitt að halda ekki áfram stuðningi og uppbyggingu á umræddu svæði.
Makaskiptasamningurinn sem nú hefur verið gerður er lykillinn að því að bæjaryfirvöld viðurkenni þá frábæru starfssemi í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs sem hestamannafélagið Sleipnir hefur staðið fyrir á undanförnum árum. Það er stundum svo, þegar gerðir eru samningar eins og þessir, að erfitt er að horfa á krónu á móti krónu, til þess eru hagsmunaþættir og hagsmunamat of ólíkt.
Það er skoðun undirritaðra samfélagslegur ávinningur þessa samnings til lengri tíma sé sveitarfélaginu hagstæður og liður í því að gera sveitarfélagið að enn eftirsóttari búsetukosti.
----------
Það er því fjarstæðukennt að horfa þannig á málið að sveitarfélagið sé að tapa á þeim makaskiptum sem hér um ræðir.