Fyrirspurn
Batteríið Arkitektar leggja fram tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi íbúðarbyggðar í landi Árbakka og Austurvegar 65, Árborg. Gildandi deiliskipulag er frá árinu 2007 og breytt 2008. Deiliskipulagsbreytingin mun taka yfir gildandi deiliskipulag innan deiliskipulagsmarka hennar. Svæðið sem um ræðir liggur norðvestan byggðar á Selfossi, meðfram Ölfusá. Svæðið markast af Ölfusá til vesturs, atvinnuhúsa- og íbúðabyggð til suðurs, útivistarsvæði og fyrirhuguðu vegstæði fyrir þjóðveg til norðausturs. Aðkomur að svæðinu er frá Árvegi, bæði að vestan og austan. Svæðið er að mestu flatlent en hallar lítillega til norðurs í átt að Ölfusá. Víðsýnt er frá svæðinu yfir Ölfusá og Ingólfsfjall. Skipulagstillagan er í samræmi við gildandi aðalskipulag Árborgar 2010-2030, þ.m.t. breytingu á aðalskipulagi Árborgar 2010-2030, sem öðlaðist gildi 28. júlí. 2021. Deiliskipulagssvæðið, um 24 ha að flatarmáli, er skipulagt fyrir íbúðarbyggð með tveimur megin aðkomuleiðum inn á svæðið. Reiturinn er í dag grassvæði með lágum trjágróðri næst byggðinni. Stutt er í útivistarsvæði við Ölfusá og golfvöllinn á Svarfhóli.
Meginmarkmið við gerð deiliskipulagsbreytingar fyrir svæðið er að mæta eftirspurn fyrir íbúðir í Árborg með því að þróa þar aðlaðandi og eftirsóknarverða byggð sem tekur mið af landkostum og þeirri staðreynd að svæðið verður í beinum tengslum við útivistarsvæði og ósnortna náttúru, samhliða því að ná fram sem bestri nýtingu svæðisins og skapa þannig hagstæðar fjárhagslegar forsendur fyrir uppbyggingu og rekstur. Í núgildandi deiliskipulagi var gert ráð fyrir allt að 287 íbúðum. Meginhluti bygginga á breyttu skipulagssvæði verða 1-2 hæða sérbýli (einbýlishús, parhús og raðhús). Á norðvesturhluta svæðisins verða 3-5 hæða fjölbýlishús. Áhersla er lögð á að sem flestir íbúar njóti í senn rólegs umhverfis og útsýnis. Hús sem standa sem næst óhreyfðu landi að Ölfusá mynda lágreista stakstæða einnar hæðar byggð. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir fjölbreytt lágreist byggð á stærsta hluta svæðisins en eru 3-5 hæðir í norðaustur horninu. Á svæðinu er gert ráð fyrir u.þ.b. 550 íbúðum. Þær skiptast í grófum dráttum þannig að um 25% íbúðanna verða í sérbýli, og um 75% íbúðanna verða í fjölbýlishúsum. Gert er ráð fyrir íbúðabyggð með almennum íbúðum. Auk íbúðanna er gert ráð fyrir fyrir leikskóla á svæðinu. Á svæðinu verða íbúðir fyrir eldra fólk auk þess að gert er ráð fyrir einu sambýli.