Bæjarráð þakkar erindi Hverfisráðs Eyrarbakka og tekur undir með hverfisráðinu og Foreldrafélagi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Verklag starfsfólks BES hefur verið til mikillar fyrirmyndar í þessu máli og bæjaryfirvöld brugðust því skjótt við eftir ábendingar stjórnenda á grunni úttektarskýrslu sem þá var enn í drögum. Samdóma niðurstaða var því að loka húsnæðinu og leysa húsnæðismál skólans til bráðabirgða. Þannig fæst ráðrúm til að rýna lokaútgáfu úttektarskýrslu Eflu og móta í framhaldinu nauðsynlegar aðgerðir.
Ekki er enn hægt að segja til um það hvort hægt verður að gera endurbætur á núverandi húsnæði eða hvort ráðast þurfi í nýbyggingu og fjarlægja húsnæðið sem fyrir er. Vanda þarf til ákvarðana um framhald málsins og tryggja að hönnun nýs eða endurbætts húsnæðis uppfylli sem best þær þarfir sem eru til staðar. Í þessu felast mikil tækifæri til að bæta aðbúnað nemenda og starfsfólks, þau tækifæri þarf að nýta vel. Endanlegar lausnir þurfa þannig að styrkja skólastarfið og þær þarf að vinna í sem mestri sátt við samfélagið allt.