Fyrirspurn frá fulltrúum D lista Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarnefnd Árborgar.
Í bréfi dagsettu 12. apríl 2022 frá Mannvirkja og umhverfissviðs Árborgar til Byggingarfulltrúa Árborgar er svohljóðandi málsgrein: „ Samantekt byggingarfulltrúa sýnir að í dag er búið að samþykkja um 549 íbúðir sem eftir er að tengja við hitaveitu. Mikið af þessu íbúðum eru í fjölbýli og má áætla að fjöldi íbúa per íbúð sé um 2,4-2,6. Sé miðað við að hitaveitan anni 1.000 manns til viðbótar eru þolmörkin um 417 íbúðir. Það er því ljóst að búið er að samþykkja íbúðir umfram það sem hægt er að anna. Vakin er athygli á að samkvæmt reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Árborg telst lóð ekki byggingarhæf nema hún geti tengst viðkomandi gatna- og lagnakerfi. Í samningum sveitarfélagsins sem gerðir hafa verið við einkaaðila vegna framkvæmda á eignarlöndum er vísað til þessara reglna um byggingarhæfi lóða. Þá segir í sömu samningum að landeigandi skuli sjálfur semja um lagningu hitaveitu við Selfossveitur, lagningu vatnsveitu við Vatnsveitu Árborgar og lagningu fráveitu við Fráveitu Árborgar. Slíkir samningar hafa ekki verið gerðir við landeigendur.“
Fyrirspurn frá fulltrúum D lista Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarnefnd Árborgar. Hvaða samningar eru það sem ekki hafa verið gerðir við landeigendur og um hvað nákvæmlega á eftir að semja við þá? Hvaða landeigendur eru það sem á eftir að semja við? Er líklegt að sveitarfélagið Árborg sé skaðabótaskylt komi til þess að byggingaraðilar sem fengið hafa byggingarleyfi fái ekki afhent heitt vatn til húshitunar og neyslu?
Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að vísa fyrirspurn til mannvirkja- og umhverfissviðs.
Bókun frá fulltrúum D lista Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarnefnd Árborgar.
Fulltrúar D lista lýsa áhyggjum vegna þess skorts á heitu vatni sem er í Árborg. Það er ljóst að innviðir hafa verið vanræktir í allri þeirri fjölgun sem nú á sér stað í sveitarfélaginu. Það tekur langan tíma að leita að heitu vatni, útvega nauðsynleg leyfi, bora og koma vatninu í notkun. Það er ekki ásættanlegt að íbúar Árborgar verði fyrir skerðingu á jafn sjálfsögðum lífsgæðum sem heita vatnið er. Það teljast varla góðir stjórnarhættir að fyrst núna í apríl 2022 skuli vera ljáð máls á því við byggingarfulltrúa að draga úr veitingu byggingarleyfa þegar þessi staða hefur verið uppi í langan tíma.