Fyrirspurn
Sigurður Ásbjörnsson f.h. Skipulagsstofnunar hefur í tölvupósti dags. 11.8.2022 óskað eftir umsögn sveitarfélagsins Árborg á umhverfismatsskýrslu (Mat á umhverfisáhrifum), frá fyrirtækinu EP Power Minerals, vegna fyrirhugaðrar efnistöku á Mýrdalssandi. Skýrslan er aðgengileg og til kynningar á heimasíðu Skipulagsstofnunar.
Óskað er eftir að umsagnir berist fyrir 26.september 2022.
"Fyrirtækið EP Power Minerals, hér eftir nefnt EPPM til styttingar, hyggur á efnistöku á vikri á Mýrdalssandi austan og suðaustan við Hafursey, svokallaðri Háöldu. Vikurinn verður fluttur út til Evrópu, og mögulega NAmeríku, þar sem hann verður notaður sem íblöndunarefni í framleiðslu á sementi. Vikrinum verður keyrt til Þorlákshafnar þar sem hann er settur um borð í skip sem siglir með hann til sementsframleiðenda, aðallega í Evrópu. Vikrinum er ætlað að koma í stað kolaösku (e. coal fly ash) úr kolaorkuverum sem notuð hefur verið sem íblöndunarefni í sement um áraraðir. Fyrirhugað efnistökusvæði er 15,5 km2 að flatarmáli og benda jarðfræðirannsóknir til þess að auðvinnanlegur vikur innan þess svæðis sé um 146 milljónir m3 . Fyrirhugað er að taka 286 þús m3 af efni fyrsta árið en að fimm árum liðnum verði búið að auka efnistökuna upp í 1,43 milljón m3 (1 milljón tonn) á ári og er stefnt að því að halda þeim afköstum eftir það. Miðað við þær áætlanir ætti vikurlagið á Mýrdalssandi austan og suðaustan Hafurseyjar að duga til efnistöku í rúmlega 100 ár. Um er að ræða efnistöku og haugsetningu sem nemur meira magni en 500.000 m3 og er á svæði sem er stærra en 25 ha. Samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda fellur framkvæmdin því undir flokk A, þ.e. framkvæmd sem ávallt er háð umhverfismati, með vísan í tölulið 2.01 í 1. viðauka laganna."