Skipulags- og byggingarráð samþykkir að valkostur A á tillögu dags. 10.08.2009 verði valinn fyrir línur og tengivirki við Hrauntungur og felur skipulags- og byggingarsviði að ganga frá endanlegum gögnum fyrir næsta fund. Fulltrúi Vinstri Grænna getur hvorugan kostinn valið þar sem línan liggur yfir merkt brunnsvæði vestan Helgafells og telur það skyldu sína að verja vatnsból Hafnarfjarðarkaupstaðar. Fulltrúar Samfylkingarinnar gera sér grein fyrir að línur liggja yfir brunnsvæði merkt á aðalskipulagi, sem ekki er notað sem slíkt, og að nauðsynlegt er að sækja um undanþágu ef leggja á línur um brunnsvæðið eða breyta aðal- og svæðisskipulagi. Fulltrúi Vinstri Grænna bókar að hvort sem skipulagi er breytt eða sótt um undanþágu er svæðið jafnviðkvæmt eftir sem áður. Fulltrúar Samfylkingarinnar benda fulltrúa Vinstri Grænna á að undanþága muni væntanlega ekki fást nema Umhverfisráðherra, sem veitir undanþáguna, telji slíka undanþágu í lagi.