Fyrsti varaforseti, Guðfinna Guðmundsdóttir, tók við fundarstjórn. Guðmundur Rúnar Árnason tók til máls og lagði fram svohljóðandi breytingartillögu: "Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að skipa 5 manna nefnd til að hefja undirbúning að endurskoðun stjórnsýslu sveitarfélagsins. Nefndin verði skipuð 3 kjörnum fulltrúum, einum úr hverjum stjórnmálaflokki sem á fulltrúa í bæjarstjórn og tveimur starfsmönnum sem bæjarstjóri tilnefnir. Nefndinni verði heimilað að leita sér utanaðkomandi ráðgjafar. Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 14. júní 2010. Megin markmið með störfum nefndarinnar er að tryggja að stjórnsýsla Hafnarfjarðar sé á hverjum tíma skilvirk, gegnsæ, hagkvæm, gæti jafnræðis og starfi í góðu innra samræmi að þeim markmiðum sem bæjarstjórn setur henni. Í störfum sínum skal nefndin m.a. huga sérstaklega að eftirfarandi: Núverandi stjórnsýsla er að stofni til frá árinu 2002; nauðsynlegt er að leggja mat á hversu vel hún hefur þjónað tilgangi sínum. Nefndin íhugi hvort líkur séu til þess að “flatari” þ.e.a.s. “tveggja laga” stjórnsýsla kunni að vera heppilegra stjórnsýsluform en það sem nú er. Nefndin skoði sérstaklega hvort yfirtaka sveitarfélagsins á málefnum fatlaðra kalli á breytingar á stjórnsýslu þess að teknu tilliti til þeirra stefnumörkunar að málefni fatlaðra séu hluti af allri almennri þjónustu sveitarfélagsins. Nefndin athugi hvernig þjónusta sveitarfélagsins við börn og unglinga í skóla-,æskulýðs-forvarnar- og íþróttamálum verði sem best komið fyrir. Nefndin hafi það sem forgangsviðmið í starfi sínu að stjórnkerfi sveitarfélagsins tryggi sveigjanleika, boðleiðir og þverfaglega samvinnu. Nefndin tryggi ennfremur í tillögum sínum að tengsl stjórnkerfisins við hina pólitísku stýringu, stefnumótun og ákvarðanatöku í bæjarstjórn, ráðum, nefndum og stjórnum verði með skýrum og augljósum hætti. Nefndin skal hafa samráð við forsetanefnd um úrlausnarefni sem kunna að snerta túlkun eða breytingar á samþykktum um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar. Tilnefningar liggi fyrir á næsta fundi bæjarráðs." Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók til máls. Guðmundur Rúnar Árnason kom að andsvari. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók til máls öðru sinni. Guðmundur Rúnar Árnason kom að andsvari öðru sinni. María Kristín Gylfadóttir tók til máls. Jón Kr. Óskarsson tók til máls. Guðmundur Rúnar Árnason tók til máls. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók til máls. Guðmundur Rúnar Árnason kom að andsvari. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti breytingartillöguna með 11 samhljóða atkvæðum: María Kristín Gylfadóttir kom að svohljóðandi bókun f.h. Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna: "Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri Grænna fagna framkominni tillögu og viðsnúningi meirihluta fjölskylduráðs frá því að skoða eingöngu fyrirkomulag stjórnunar félagsmiðstöðva sem tengjast grunnskólum Hafnarfjarðar yfir í að vilja nú skoða stjórnsýslu sveitarfélagsins með heildstæðum hætti. Á síðasta fundi fjölskylduráðs var þessi upphaflega þrönga nálgun meirihlutans gagnrýnd harðlega af minnihluta ráðsins sem lagði til að fram færi heildstæð endurskoðun á stjórnskipulagi íþrótta-, æskulýðs- og forvarnamála, í tengslum við endurskoðun á verksviðum fjölskyldu- og fræðslusviða, í þeim tilgangi að auka skilvirkni og samþættingu á þjónustu við börn og ungmenni og gegnsæi í stjórnsýslu bæjarins. Tillaga meirihlutans sem kom fram tveimur klukkustundum fyrir bæjarstjórnarfund gengur enn lengra en tillaga fulltrúa minnihlutans í fjölskylduráði gerði en lagt er til að hafinn verði undirbúningur að endurskoðun á stjórnsýslu sveitarfélagsins í heild sinni. Það er gagnrýni vert að meirihlutinn hunsi eðlilegar verklagsreglur bæjarstjórnar og er sérstaklega bent á að tillögu Sjálfstæðisflokks um breytingar á stjórnsýslu sveitarfélagsins var vísað til umfjöllunar í forsetanefnd þann 22. desember sl." Haraldur Þór Ólason (sign) Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign) Guðrún Jónsdóttir (sign) María Kristín Gylfadóttir (sign)