Lúðvík Geirsson tók til máls. Þá Jón Páll Hallgrímsson, Almar Grímsson, Gísli Ó. Valdimarsson og Eyjólfur Sæmundsson. Jón Páll Hallgrímsson kom að andsvari.
Bæjarstjórn samþykkti tillögu bæjarráðs og samþykkti því fyrirliggjandi samkomulag Landnets og Hafnarfjarðar með 10 atkv. 1 á móti.
Jón Páll Hallgrímsson kom að svohljóðandi bókun: "Fagna ber þeim árangri sem náðist í samningaferlinu, að minnka eigi umfang Hamranestengivirkis og að allar háspennulínur sem að því koma munu hverfa í áföngum fyrir augum þeirra sem um svæðið fara og búa. Einnig mun sjónmengun vegna háspennulína í landi Hafnarfjarðar fara minnkandi samkvæmt samkomulaginu. Þar að auki ber að fagna sérstaklega að tekist hafi að minnka þann kostnað sem mögulega getur fallið á Hafnarfjarðarbæ ef framkvæmdum verður flýtt. Það breytir því samt ekki að það samkomulag sem hér er til afgreiðslu byggir á þeirri stóriðjustefnu sem hefur verið ríkjandi hér á landi í allt of langan tíma. Þær framkvæmdir sem samkomulagið segir til um eru að tryggja raforku fyrir álver í Helguvík, byggingu netþjónabúa og endurnýjun og endurbætur núverandi Álvers í Straumsvík. Einnig er gert ráð fyrir enn frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar eins og stækkun álvera á svæðinu. Landsnet vísar í lög um stofnun Landsnets nr. 75/2004 og raforkulög nr. 65/2003 sem rök fyrir byggingu loftlína í stað jarðstrengja. Þar er kveðið á um að fyrirtækið skuli byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Í ljósi þverpólitískrar samstöðu á Alþingi um lagningu jarðstrengja í stað loftlína og þess sem fram kemur í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025, þar sem segir að "Hafnarfjarðarbær gerir þá kröfu að háspennulínur sem nú liggja að dreifistöð Landsvirkjunar í Hamranesi verði lagðar í jörð..." er ekki ásættanlegt að samþykkja að stærsti hluti flutningakerfisins sem hér um ræðir séu loftlínur en ekki jarðstrengir. Á þessum forsendum greiðir bæjarfulltrúi Vinstri grænna atkvæði gegn samkomulagi um uppbyggingu flutningskerfis rarforku sem aðallega er ætluð til uppbyggingar enn frekari stóriðju á Suðvesturhorni landsins.
Lúðvík Geirsson kom að svohljóðandi bókun fyrir hönd Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks: "Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 gerir ráð fyrir að núverandi tengivirki við Hamranes verði flutt frá íbúðabyggð inn á atvinnusvæðin í Hellnahrauni. Jafnframt að allar háspennulínur innan skipulagðar byggðar verði í jarðstrengjum. Þar er m.a. átt við Hamraneslínur 1 og 2 sem liggja við nýjustu íbúðahverfin á Völlum. Í um tvö ár hafa staðið yfir viðræður á mili bæjarins og Landsnets um breytingar á flutningskerfi raforku í landi Hafnarfjarðar. Þörf er á breytingum og uppbyggingu á flutningskerfinu m.a. samhliða frekari raforkuframleiðslu á Reykjanesi, flutningi raforku til og frá Reykjanesi og frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi á svæðinu. Í ágúst sl. var settur af stað sameiginlegur starfshópur bæjarráðs og skipulags- og byggingaráðs, skipaður fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn. Hópnum var falið að ljúka viðræðum við Landsnet um fyrirkomulag breytinga á flutningskerfi raforku. Niðurstaða í þeim viðræðum liggur nú fyrir í samkomulagi um uppbyggingu flutningskerfis raforku dags. 27.10.2008. Í samkomulaginu er m.a. ákveðið að Hamraneslínur 1 og 2 verði teknar niður og færðar suður fyrir Helgafell í legu Búrfellslínu. Þeirri framkvæmd verður lokið á árunum 2010 og 2011. Einnig er ákveðið að færa núverandi tengivirki við Hamranes og byggja nýtt sunnan við skipulagða byggð skv. aðalskipulagi, á svæðinu við Hrauntungur.
Þeirri framkvæmd getur verið lokið ekki síðar en árið 2015. Framundan er viðamikið matsferli á umhverfisáhrifum þessara framkvæmda og því samhliða nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025. Í því ferli verður umfangsmikil kynning fyrir íbúa og hagsmunaaðila. Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lýsa yfir stuðningi sínum við það samkomulag sem hér liggur fyrir og fagna því jafnframt að allar lykiláherslur sem fram koma í samþykktu aðalskipulagi eru staðfestar í þessu samkomulagi." Lúðvík Geirsson (sign) Haraldur Þór Ólason (sign) Guðmundur Rúnar Árnason (sign) Rósa Guðbjartsdóttir (sign) Eyjólfur Sæmundsson (sign) Almar Grímsson (sign) Margrét Gauja Magnúsdóttir (sign) Guðfinna Guðmundsdóttir (sign) Ingimar Ingimarsson (sign9 Gísli Ó. Valdimarsson (sign)