Formaður bæjarráðs leggur fram svohljóðandi tillögu: Bæjarráð samþykkir að heimila bæjarstjóra að ganga frá framlögðum leigusamningi og beinir því til framkvæmdaráðs og framkvæmdasviðs að vinna að nánari útfærslu á húsnæðismálum stjórnsýslunnar í samráði við sviðsstjóra annarra sviða. Bæjarráðsmenn Sjálfstæðisflokksins leggja til að ákvörðun um málið verði frestað þar til botn fæst í viðræður um endurfjármögnun skulda bæjarfélagsins. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um frestun málsins er felld þá með 3 atkvæðum gegn 2. Tillaga formanns bæjarráðs er samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2. Bæjarrráðsmenn Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram eftirfarandi bókun: Í greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 segir m.a. : „Meðal þeirra aðgerða sem gripið verður til á næsta ári, verður endurskipulagning á nýtingu á húsakosti bæjarins. .. Leitast verður við að fækka starfsstöðvum og sameina. Með því næst betri nýting á húsnæði, mannafla og fjármunum, auk þess sem það skapar grunn til að bæta þjónustuna við bæjarbúa, með meiri samlegð og þverfaglegu samstarfi.“ Fyrir liggja drög að hagstæðum leigusamningi á húsnæði Byr í miðbænum, sem mun tryggja að næstum öll stjórnsýsla bæjarins verður á einum stað í bænum. Af því skapast mikið hagræði fyrir þá bæjarbúa sem þurfa að leita þjónustu til bæjarins. Jafnframt hefur verið sýnt fram á, að með samningnum skapast forsendur til að losa um annað húsnæði sem bærinn hefur haft starfsstöðvar í, segja upp öðrum leigusamningum og leigja og selja húsnæði í eigu bæjarins. Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu Hafnarfjarðar byggir á því að fjárhagsáætlun gangi eftir. Endurskipulagning á nýtingu á húsakosti er hluti af því sem þar er kveðið á um og dregur í raun úr skuldbindingum sveitarfélagsins. Það hagræði sem næst með þessari aðgerð verður fljótt að vega upp þann kostnað sem leiga og flutningar hafa í för með sér. Dýrasti kosturinn í húsnæðismálum er að samþykkja ekki samninginn, þannig að það er vandséð hvað vakir fyrir fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, annað en að þyrla upp pólitísku moldviðri. Bæjarráðsmenn Sjálfstæðisflokksins bóka: Enn ríkir óvissa um endurfjármögnun lána Hafnarfjarðarbæjar upp á milljarða króna og því er óheppilegt að skuldbinda sveitarfélagið, með nýjum leigusamningi og fyrirsjáanlegum framkvæmdum, á meðan slíkt ástand varir og erfiðar aðstæður eru á fasteignamarkaði. Því getum við ekki samþykkt þessa tillögu að svo stöddu. Bæjarráðsmenn Samfylkingar og Vinstri grænna vísa til framlagðrar bókunar sinnar fyrr á fundinum.