Skipulags og byggingarráð samþykkir með þremur atkvæðum fulltrúa VG og Samfylkingar svar Skipulags-og byggingarsviðs til Skipulagsstofnunar dagsett 16. febrúar 2011. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram eftirfarandi bókun: Lagt er til að deiliskipulag Suðurgata-Hamarsbraut verði afturkallað frá Skipulagsstofnun. Verulegar breytingar á auglýstu skipulagi er varða Hellubraut voru ekki kynntar fyrir þeim lóðarhöfum er málið varðar einnig veruleg breyting á skipulaginu á milli funda SBH þann 18.jan. og 1. feb. sl. sem ekki var kynnt sérstaklega fyrir ráðinu. Fullyrt er að um óverulega breytingu sé um að ræða á auglýstu skipulagi en reyndin er sú að veruleg breyting er á þeim hluta er varðar Hellubraut. Ráðið var sammála um að nálgast skipulag frá 1981, það skipulag sem nú er til umsagnar hjá Skipulagsstofnun er langt frá því skipulagi auk þess er gerð tillaga um stækkun lóðar á Hellullbraut 9 á kostnað lóðar nr. 7 sem er hrein eignarupptaka sem gæti því verið brot á stjórnarskrá, auk þess að geta gert Hafnarfjarðarbæ skaðabótaskyldan. Fulltrúar meirihlutans leggja fram eftirfarandi bókun: Skipulag þetta hlaut samhljóða samþykki bæjarstjórnar á fundi þann 9.febrúar 2011 og hefur Skipulagstofnun veitt jákvæða umsögn sina um feril málsins og málsmeðferð sbr. bréf dags. 2. febrúar sl. Ekki er rétt að þær breytingar sem gerðar voru á milli funda þann 18. janúar til 1. febrúar hafi ekki verið kynntar ráðinu, en þær voru í samræmi við umræður á fundi ráðsins þann 18. janúar og ættu ekki að koma þeim fulltrúum sem sátu þann fund á óvart. Þá er það mat bæði fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, sem og starfsmanna Skipulags- og byggingarsviðs og Skipulagsstofnunar að um verulega breytingu hafi ekki verið að ræða, heldur hafi sú óverulega breyting sem gerð var á milli funda varðandi gatnahönnun og úrfærslu á götu verið til hagsbóta fyrir alla íbúa á svæðinu og þær verið í samræmi við umræður sem áttu sér stað. Skipulagið frá 1981 er notað til grundvallar að hluta fyrir heildarskipulag svæðisins en gera þurfti lagfæringar á lóðarmörkum til þess að laga aðkomu íbúa við Hellubraut 3, 5, 7 og 9. Deiluskipulag þetta varðar hagsmuni fjölda íbúa á stóru svæði, m.a. við Suðurgötu og Strandgötu, þar sem er brýnt að bæta aðkomu og umferðaröryggi.