Lögð fram skýrsla Félagsvísindastofnunar, dags. 15. júní 2011, um viðhorf til álversins í Straumsvík, umhverfis- og atvinnumála í Hafnarfirði.
Lögð fram svohljóðandi sameiginleg yfirlýsing Hafnarfjarðarbæjar og Rio Tinto Alcan:
"Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto Alcan hafa undanfarna mánuði átt í viðræðum um stöðu fyrirtækisins í hafnfirsku samfélagi í nútíð og framtíð, en bæjarráð óskaði eftir viðræðunum á fundi í október sl. Báðir aðilar leggja áherslu á mikilvægi þess að víðtæk sátt ríki um stöðu fyrirtækisins í samfélaginu og framtíðaráform þess og hyggjast vinna saman að því að svo megi verða.
Mjög góður andi hefur ríkt í viðræðum aðila og snemma í þeim var ákveðið að kanna vilja og viðhorf bæjarbúa til fjölmargra þátta sem snerta starfsemi fyrirtækisins. Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto Alcan réðu Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að gera umfangsmikla rannsókn á viðhorfum bæjarbúa til atvinnumála í víðum skilningi, auk viðhorfa til álversins í Straumsvík og framtíðar þess. Félagsvísindastofnun gerði í þessu skyni umfangsmikla símakönnun, auk rýnihóparannsóknar.
Í þessum rannsóknum kom m.a. fram, að þrír af hverjum fjórum íbúum í Hafnarfirði telja jákvætt fyrir bæjarfélagið að hafa álverið starfandi þar og innan við einn af hverjum tíu telur það neikvætt. Sama gildir um viðhorf til 20% framleiðsluaukningar álversins sem nú er unnið að. Helstu ávinningar af veru fyrirtækisins eru taldir þeir að það skapar störf og tekjur fyrir bæjarsjóð. Þegar spurt er um nokkra ólíka kosti varðandi framtíð álversins, segist mjög lítill hluti svarenda vilja draga úr framleiðslu eða hætta henni, rúm 43% vilja láta staðar numið eftir framleiðsluaukninguna og rúm 47% vilja auka framleiðslu enn frekar. Mögulegt hlutfall þeirra sem telja ásættanlegt að auka framleiðslugetuna fer í um 66%, að því gefnu að uppfyllt verði ströng skilyrði, ekki síst í umhverfismálum. Þegar spurt er beint hvernig fólk myndi greiða atkvæði ef kosið yrði um stækkun álversins í dag, segjast 59,5% myndu styðja stækkun, þar af sumir að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Rannsóknarskýrslan í heild sinni er aðgengileg á vefjum Hafnarfjarðarbæjar og Alcan á Íslandi.
Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að áfram ríki mikil sátt um starfsemi fyrirtækisins í hafnfirsku samfélagi og lýsa ríkum vilja til að stuðla sameiginlega að því að svo megi verða. Í ljósi niðurstaðna könnunarinnar er það mat aðila, að ekki sé tímabært að kjósa aftur um mögulega stækkun álversins. Rio Tinto Alcan telur að unnt sé að hanna stækkunarkost sem tæki betur tillit til sjónarmiða bæjarbúa eins og þau birtast í könnuninni og nyti þar með víðtækari stuðnings. Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto Alcan eru sammála um að ræða áfram um möguleika til eðlilegrar þróunar fyrirtækisins í bænum.
Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa oddvitar flokkanna í bæjarstjórn tekið þátt í viðræðunum: Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðs og Valdimar Svavarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Í viðræðuhópi Rio Tinto Alcan voru Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, Alexis Segal, yfirmaður samskiptasviðs Rio Tinto Alcan í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku og Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Alcan á Íslandi, auk þess sem Wolfang Stiller, fyrrverandi stjórnarformaður Alcan á Íslandi tók þátt í þeim í upphafi."