Skipulags- og byggingarráð synjar tillögunni eins og hún liggur fyrir, þar sem ekki liggja fyrir rannsóknir á jarðvegi og aðlaga þarf hugsanlega byggð á svæðinu að fornleifum. Skipulags- og byggingarráð felur skipulags- og byggingarsviði að ræða við málsaðila um framhald málsins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, Rósa Guðbjartsdóttir og Jón Páll Hallgrímsson, taka undir álit meirihlutans í málinu og telja ennfremur að ekki séu forsendur fyrir því að skipuleggja fjölda íbúðalóða á grónum svæðum í bæjarfélaginu um þessar mundir þegar ljóst er að mikið offramboð er á íbúðahúsnæði í bænum. Bent er á að hundruð íbúða og lóða í öðrum hverfum bæjarins standa auðar og óseldar. Fulltrúar Samfylkingarinnar benda á að skipulags- og byggingarlög heimila lóðarhafa að koma fram með tillögu að deiliskipulagi á sinn kostnað en hér var um að ræða tillögu að þjónustuíbúðum með þjónusturýmum fyrir fjölþætta starfsemi.