Fjárhagsáætlun bæjarsjóðs 2010 og þriggja ára áætlun 2011-2013
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 15 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1627
22. desember, 2009
Annað
‹ 6
7
Fyrirspurn
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 11 samhljóða atkvæðum tillögu um að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs 2010 og þriggja ára áætlun 2011-2013 verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn að viku liðinni, þriðjudaginn 22. desember.
Svar

Tekin fyrir framlögð breytingartillaga bæjarstjóra við síðari umræðu vegna fjárhagsáætlunar 2010 sem er svohljóðandi:

"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að tekjur hafnarsjóðs hækki um 10 milljónir vegna hækkunar gjaldskrár. Sú hækkun hefur þau áhrif að afkoman hækkar um sömu fjárhæð og handbært fé hækkar að sama skapi.



Jafnframt verði lækkun um 13 milljónir í málaflokki 08, með vísan til endumats á kostnaði við sorphirðingu og ? eyðingu.



Vegna breytinga á tekjuviðmiði vegna niðurfellingar afsláttar fasteigna- og holræsagjalda tekjulágra aldraðra og öryrkja verði gert ráð fyrir 13 milljóna króna viðbótarkostnaði á málaflokk 02.



Leiguíbúðir í eigu bæjarins verði færðar upp í fasteignamat 2009 en endurmatið nemur um 1,7 milljarði króna. Endurmatið hækkar bókfært verð fasteignanna en á móti er það fært á sérstakan endurmatsreikning á meðal eigin fjár."





Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.



Teknar fyrir framlagðar tillögur fulltrúa Vinstri grænna vegna fjárhagsáætlunar 2010 sem eru svohljóðandi:





"Fullt aðgengi fatlaðs fólks að umhverfi og byggingum Hafnarfjarðar. Átaksverkefni í samstarfi við Vinnumálastofnun.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela framkvæmdaráði,í samvinnu við fagaðila, að láta endurskoða aðgerðaráætlun til að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk að umhverfi og byggingum Hafnarfjarðar, hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu bæjarins eða húsnæði leigt af öðrum, í samræmi við Aðgengi fyrir alla. Handbók um umhverfi og byggingar og Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.



Aðgerðaráætlunin verði send til umsagnar til Öryrkjabandalags Íslands, Þroskahjálpar, Blindrafélagsins og Sjálfsbjargar.



Þjónustu- og þróunarstjóra verði falið að hrinda aðgerðaráætluninni í framkvæmd sem átaksverkefni í samstarfi við Vinnumálastofnun.



Fagaðilar verði fengnir til að gera úttekt á því hvernig til hafi tekist með að bæta aðgengi fatlaðra að loknu verki."



Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)



Lögð fram breytingartillaga um að vísa framkominni tillögu til framkvæmdaráðs til umfjöllunar og yfirferðar. Bæjarstjórn samþykkti breytingartillöguna með 8 atkvæðum. 3 sátu hjá.



"Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela sviðsstjóra fjölskyldusviðs að fá ítarlega kynningu á Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir fjölskylduráð og alla starfsmenn sveitarfélagsins sem koma að eða munu tengjast málefnum fatlaðs fólks og yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélagsins. Kynningin verði á vegum fötlunarfræða við Háskóla Íslands og verði annað hvort í formi sérstakrar kynningar fyrir Hafnarfjörð eða að áðurnefndum aðilum gefist kostur á að sækja námskeið sem haldin eru í samvinnu við Endurmenntun HÍ."



Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)




Lögð fram breytingartillaga um að vísa framkominni tillögu til fjölskylduráðs til umfjöllunar og yfirferðar. Bæjarstjórn samþykkti breytingartillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.



"Stjórnsýsla samkvæmt alþjóðlegum gæðastöðlum

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hefjast handa við að laga stjórnun og rekstur Hafnarfjarðarbæjar að kröfum alþjóðlegra gæðastaðla. Slíkt verði gert með því að Hafnarfjarðarbær óski eftir því að vera tekinn út samkvæmt gæðastöðlunum ISO 9001 og 14001 til að sjá hvað sveitarfélagið þarf að gera til að standast þær gæðakröfur sem gerðar eru samkvæmt gæðakerfi ISO.



Stefnt verði að vottun á starfsemi framkvæmdasviðs fyrir árslok 2010. Önnur svið bæjarins fylgi þar á eftir."



Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)



Lögð fram breytingartillaga um að vísa framkominni tillögu til bæjarráðs og gæðastjóra til umfjöllunar og yfirferðar. Bæjarstjórn samþykkti breytingartillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.



"Niðurgreiðslur á matarkostnaði í leik- og grunnskólum.

Komið til móts við tekjulágar fjölskyldur

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að ráðast í tilraunaverkefni skólaárið 2010 ? 2011 í tengslum við niðurgreiðslu á matarkostnaði barna í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar sem felst í því að forráðamenn barna í leik- og grunnskólum fylla út tekjuupplýsingar á þar til gerðu eyðublaði í íbúagátt Hafnarfjarðar. Þær fjölskyldur sem falla undir ákveðin tekjuviðmið fái niðurfellingu eða afslátt á gjöldum vegna skólamáltíða barna sinna í leik- og grunnskólum. Hægt væri að styðjast við núverandi reglur um niðurfellingu fasteignagjalda fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega.



Fræðsluskrifstofu og félagsþjónustu, í samráði við fjármálastjóra Hafnarfjarðar, er falið að leggja fyrir bæjarráð tillögur að nánari útfærslu fyrir 1. mars 2010."



Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)



Lögð fram breytingartillaga um að vísa framkominni tillögu til fræðsluráðs til umfjöllunar og yfirferðar. Bæjarstjórn samþykkti breytingartillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.





Tekin fyrir framlögð tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks vegna fjárhagsáætlunar 2010 sem er svohljóðandi:



"Stjórnsýsla

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gera breytingar á stjórnkerfi Hafnarfjarðarbæjar til að ná fram einföldun, hagræðingu og sparnaði og auka á skilvirkni og samræmingu milli málaflokka. Í því skyni verði sviðum bæjarins fækkað um eitt með sameiningu fræðslu- og fjölskyldusviða. Fyrsta skrefið í þessari hagræðingu verði að sameina fræðslu- og fjölskylduráð.

Jafnframt verði Skipulags- og byggingaráði falin verkefni umhverfisnefndar og bæjarráði verkefni menningar- og ferðamálanefndar."



Haraldur Þór Ólason (sign)

Rósa Guðbjartsdóttir (sign)

Almar Grímsson (sign)



Lögð fram breytingartillaga um að vísa tillögunni til umfjöllunar í forsetanefnd. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti breytingartillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.



Teknar fyrir framlagðar hagræðingartillögur fulltrúa Sjálfstæðisflokks gagnvart framkvæmdum og skipulagi vegna fjárhagsáætlunar 2010 sem er svohljóðandi:

Framkvæmdir og skipulag - hagræðing

"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að hægt verði á framkvæmdum við Kaplakrika að sinni vegna erfiðrar fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Lögð er áhersla á að ekki verði farið í nýjar framkvæmdir í bæjarfélaginu nema fjármögnun liggi fyrir."

Haraldur Þór Ólason (sign)

Rósa Guðbjartsdóttir (sign)

Almar Grímsson (sign)

Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi breytingartillögu:

"Bæjarfulltrúar Samfylkingar leggja til að þeim þætti tillögunnar sem lýtur að framkvæmdahraða í Kaplakrika sé vísað til umsagnar hjá FH, samningsbundnum byggingarverktaka og Fasteignafélags Hafnarfjarðar". Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti breytingartillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

Varðandi seinni lið í tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks samþykkti bæjarstjórn liðinn með 11 samhljóða atkvæðum. Lúðvík Geirsson lagði fram svohljóðandi bókun:

"Bæjarfulltrúar Samfylkingar benda á að það kemur skýrt fram í greinargerð með fjárhagsáætlun að fjárfestingar taki mið af fjármögnun eins og hún liggur fyrir hverju sinni og þessi samþykkt því í fullu samræmi við framlagða fjárhagsáætlun árins 2010."

Lúðvík Geirsson (sign)



"Lagt er til að deiliskipulagsvinnu við Drafnarsvæði verði frestað, sem og skipulagsrannsóknum við nýtt hafnarsvæði, einnig samkeppni og deiliskipulagsvinnu á Dvergslóð en gert er ráð fyrir aðkeyptri skipulagsvinnu í öllum tilvikum. Ennfremur er lagt til að deiliskipulagsvinnu í miðbæ verði seinkað sem og aðkeyptri ráðgjafaþjónustu við rammaskipulag Í upplandi bæjarins, Hamranesi 2 og Áslandi. Hátt í tíu milljónir króna myndu sparast á árinu 2010 yrði þessum skipulagsverkefnum seinkað."

Haraldur Þór Ólason (sign)

Rósa Guðbjartsdóttir (sign)

Almar Grímsson (sign)

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi tillöguna með 8 atkvæðum. 3 samþykktu tillöguna.



Fjárhagsáætlun aðalsjóðs var borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun eignasjóðs var borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun A-hluta var borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarhafnar var borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Fráveitu Hafnarfjarðar samþykkt með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Vatnsveitu Hafnarfjarðar samþykkt með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Húsnæðisskrifstofu samþykkt með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun GN-eigna ehf. samþykkt með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Samanteknar fjárhagsáætlanir A og B -hluta voru bornar undir atkvæði og samþykktar með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða fjárhagsáætlun fyrir bæjarsjóð Hafnarfjarðar og stofnanir hans fyrir árið 2010 sem lögð var fram 15. desember 2009 með áorðnum breytingum 22. desember 2000 með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða þriggja ára áætlun fyrir árin 2011-2013 með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá.

Helstu niðurstöður fyrir A og B - hluta eru eftirfarandi í þús. kr.:


2010

Tekjur ....................................... 12.922.351
Gjöld ........................................ 11.529.782
Afkoma f. fjármagnsliði ...... 1.392.569
Fjármagnsliðir ........................ (981.927)
Afkoma ársins ........................ 410.642

Eignir í árslok ......................... 38.365.779
Eigið fé í árslok ..................... 1.361.774
Skuldir í árslok ....................... 37.004.005
Fjárfestingar............................. 825.000
Lánsfjárheimild....................... 4.030.000




2011 2012 2013

Tekjur ....................................... 13.001.676 13.383.699 13.680.683
Gjöld ........................................ 11.372.093 11.620.294 11.817.065
Afkoma f. fjármagnsliði ...... 1.629.583 1.763.405 1.863.618
Fjármagnsliðir ........................ (944.060) (902.813) (859.360)
Afkoma ársins ........................ 685.523 860.592 1.004.258

Eignir í árslok ......................... 38.334.057 38.307.710 38.895.081
Eigið fé í árslok ..................... 2.047.296 2.906.889 3.911.157
Skuldir í árslok ....................... 36.286.761 35.400.821 34.983.924
Fjárfestingar............................. 75.000 45.000 45.000
Lánsfjárheimild....................... 6.149.598 3.139.219 0






Haraldur Þór Ólason, f.h. sjálfstæðismanna, lagði fram svohljóðandi bókun:



"Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2010 er sú síðasta á yfirstandandi kjörtímabili og lýsir hún glögglega afleiðingum glannalegrar fjármálastefnu Samfylkingarinnar síðustu 2 kjörtímabil.

Eftir fall bankanna fyrir rúmu ári hefur Samfylkingin, þrátt fyrir traustan meirihluta, ekki treyst sér til að fara í hagræðingu nema hafa fulltrúa minnihlutaflokkanna með í ráðum.

Samfylkingin reynir einnig að skýla sér bak við bankakreppuna sem orsök fjárhagsvanda Hafnarfjarðarbæjar nú. Sannleikurinn er hins vegar sá, að hér í Hafnarfirði fór meirihlutinn offari í framkvæmdum og útgjöldum og jók stöðugt skuldasöfnun til að halda uppi of háu framkvæmdastigi á þenslutímum.

En þegar á reynir og taka verður erfiðar ákvarðanir gætir eindreginnar ákvarðanafælni hjá Samfylkingunni. Því skal haldið til haga að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa á hverju ári lagt til ákveðna hagræðingu en meirihluti Samfylkingarinnar hefur ávallt fellt slíkar tillögur án umræðu.

Nú eru þeir hins vegar í vandræðum og bæjarfélag okkar þarf svo sannarlega á því að halda að allir leggist á eitt til að taka til í rekstri Hafnarfjarðarbæjar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru sem fyrr reiðubúnir að leggja sitt af mörkum og hafa því tekið þátt í undirbúningi fjárhagsáætlunar fyrir 2010. Minnt er á að ýmis atriði í henni eru ekki útfærð og er því brýn nauðsyn að á fyrstu mánuðum nýs árs verði fylgt fast eftir hagræðingu einkum á sviði fræðslumála enda er það ein af helstu forsendum fyrir að fjárhagsáætlunin standist.

Lykilatriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2010 eru:



- Frá árinu 2002, þegar Samfylkingin tók við stjórn bæjarins, hafa skuldir bæjarins nær þrefaldast;. Það er napur sannleikur að skuldir Hafnarfjarðar í hlutfalli við tekjur eru nú 275 %.

- Í stjórnartíð Samfylkingarinnar hafa tekjur bæjarfélagsins einungis dugað fyrir rekstri: Fjármagnskostnaður og nýjar framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar með nýjum lánum.

- Hafnarfjörður er orðið eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og sendi eftirlitsnefnd sveitarfélaga bréf í október s.l. þar sem óskað er upplýsinga og skýringa hvernig brugðist verði við erfiðri fjárhagsstöðu Hafnarfjarðarbæjar.

- Fyrir liggur að skuldir og skuldbindingar bæjarins eru nú 37 milljarðar króna sem nemur skuldum á hvern íbúa að upphæð um 1,4 milljónum króna en að meðaltali eru skuldir sveitarfélaga í landinu um 770 þús. kr á íbúa.

- Í nágrannasveitarfélögum eins og Garðabæ og Seltjarnarnesi hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks hefur verið stöðugur í áratugi. Þar er haft að leiðarljósi aðhald í rekstri og greiðslu skulda og geta þeir því boðið þegnum sínum lægra útsvar og önnur gjöld. Það skiptir því máli hverjir stjórna sveitarfélögum og hvernig.

- Yfirbygging bæjarfélagsins og stjórnsýsla hafa síðastliðin ár þanist út. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt ríka áherslu á einföldun stjórnkerfis bæjarins, bæði til fjárhagslegrar hagræðingar og aukinnar skilvirkni.

- Ein verstu mistök sem gerð hafa verið í fjármálastjórn bæjarins voru þegar Samfylkingin gekk ekki að tillögu Sjálfstæðisflokksins í september 2007 um að selja hlut Hafnarfjarðar Hitaveitu Suðurnesja þá þegar. Ef Samfylkingin hefði ekki verið haldin ákvarðanafælni væru skuldir bæjarins um 15 milljörðum króna lægri. Þess í stað fóru þeir peningar sem Orkuveitan greiddi nú í desember í að greiða yfirdrátt hjá banka og einnig viðskiptaskuldir sem stofnað var til á árinu.



Nú blasir við mikið endurreisnarstarf í Hafnarfirði enda bærinn mjög skuldsettur. Nú horfum við því fram til þess að Samfylkingin verði leyst af hólmi næsta vor enda gagngerrar tiltektar þörf í rekstri og fjármálum bæjarins."



Haraldur Þór Ólason (sign)

Rósa Guðbjartsdóttir (sign)

Almar Grímsson (sign)



Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, lagði fram svohljóðandi bókun vegna fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðarbæjar árið 2010:

"Margt í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir árið 2010 er gott, samræmist stefnu okkar Vinstri grænna og unnið í samvinnu við minnihlutann. Annað í fjárhagsáætluninni er hins vegar lítið útfært og því ekki hægt að taka afstöðu til þess fyrirfram hvort, og þá með hvaða hætti, kröfur um hagræðingu náist og hvort sú hagræðing verði ásættanleg út frá stefnu og hugmyndafræði Vinstri grænna.

Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðar er afar erfið. Samkvæmt fjárhagsáætluninni fyrir 2010 verður eiginfjárstaða sveitarfélagsins neikvæð, afborganir skulda á árinu 2010 verða 70% af tekjum ársins, áætlaður hagnaður aðalsjóðs fyrir fjármagnsliði aðeins rúmar 16 milljónir og veltufé frá rekstri rúmur 1.1 milljarður. Það er því ljóst að hér er teflt á tæpasta vað og mikið verk framundan.

Samkvæmt greinargerð fjárhagsáætlunarinnar er lykilatriði að standa vörð um velferðarmál og grunnþjónustu. Taka má undir það að með fjárhagsáætluninni hafi verið stigið það skref að standa vörð um velferð bæjarbúa. Þetta hefur t.d. verið gert með því að tryggja að grunnupphæð fjárhagsaðstoðar uppfærist um áramót miðað við neysluvísitölu og með endurskoðun á afsláttarfyrirkomulagi á fasteignaskatti og holræsagjaldi fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Hins vegar á eftir að koma í ljós hvort að takist að standa vörð um suma þætti grunnþjónustunnar þar sem þær hagræðingarkröfur sem gerðar eru til grunnskólans upp á 300 milljónir eru að mestu óútfærðar.

Ýmislegt í stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar er komið til ára sinna og tímabært að taka til endurskoðunnar. Stefna okkar Vinstri grænna er að leik- og grunnskóli eigi vera gjaldfráls. En á meðan ekki er vilji til að koma til móts við það þá þarf að endurskoða það afsláttarfyrirkomulag sem nú er við lýði í leik- og grunnskólum og leiðrétta með þeim hætti að það taki mið af breyttu samfélagi t.d. með því að tekjutengja afslættina betur og taka tillit til atvinnuleysis forráðamanna frekar en að miða við fjölskyldugerð.

Einnig þarf að skoða með hvaða hætti sveitarfélagið ætlar að styðja við íþróttaiðkun bæjarbúa og íþróttafélög í bænum. Taka þarf til skoðunar hvaða þættir íþróttafélaganna teljast til grunnþjónustu, hvaða þættir teljast til mikilvægs forvarnastarfs og hvort, og þá hvernig, eigi að endurskilgreina aðkomu sveitarfélagsins að rekstri þeirra.

Mikil gerjun er í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Nefnd um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er að skila af sér tillögum auk þess sem unnið er að yfirfærslu ýmissa málaflokka frá ríki til sveitarfélaganna. Hér þarf að fara sér hægt og horfa blákalt á hlutina. Málaflokkarnir sem hér um ræðir eru málefni fatlaðs fólks, aldraðra og heilsugæslan. Sumir ræða jafnvel um að færa ætti framhaldsskólana líka. Eru sveitarfélögin tilbúin til þess að taka við þessum málaflokkum? Hver er staða þeirra í dag? Gert er ráð fyrir því að Hafnarfjörður taki við málefnum fatlaðs fólks við upphaf árs 2011. Við vinstri græn í Hafnarfirði efumst um að það sé raunhæft og leggjum mikla áherslu á að við flýtum okkur hægt, vel verði staðið að yfirfærslunni og undirbúningur vandaður. Meðal annars er mikilvægt að stjórnmálamenn, stjórnsýsla og starfsfólk sveitarfélagsins kynni sér nýjar áherslur í þessum málaflokki en þær einkennast einkum af því að tryggja beri mannréttindi fatlaðra barna, ungmenna og fullorðinna einstaklinga og stuðla að jafnrétti þeirra á við aðra borgara. Til að svo sé þá er t.d. aðeins einn angi þess að tryggja fötluðu fólki fullt aðgengi að umhverfi og byggingum sveitarfélagsins. Við þessa fjárhagsáætlun er flutt tillaga í þriðja sinn sem leggur áherslu á að aðgengi verð bætt. Vonandi gengur betur að framfylgja tillögunni í þriðja sinn en hingað til.

Margt hefur verið gert til að hagræða í rekstri bæjarins og á starfsfólk heiður skilið fyrir dugnað við þá vinnu. Það er hins vegar hlutverk og ábyrgð bæjarstjórnar að taka pólitískar ákvarðanir og marka stefnu byggða á mótaðri hugmyndafræði um það hvernig samfélagi við viljum búa í.

Ljóst er að mikið verk er framundan við að snúa fjárhagsstöðu Hafnarfjarðar við. Við Vinstri græn erum reiðubúin til að taka höndum saman við bæði meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar við þá vinnu en leggjum jafnframt áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um velferðarmál og grunnþjónustu við bæjarbúa."

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)

Lúðvík Geirsson, f.h. fulltrúa Samfylkingar, kom að svohljóðandi bókun:


"Í niðurstöðum og áherslum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010 felast skýr skilaboð um að standa áfram vörð um velferð og þjónustu við bæjarbúa. Þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt í tekjum bæjarsjóðs samhliða auknum útgjöldum vegna fjölskyldu- og velferðarmála, verður áfram lögð megináhersla á að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri, stjórnsýslu og framkvæmdum án þess að skerða grunnþjónustu og velferðarmál. Það endurspeglast m.a. í því að:


Stefnt er að jákvæðri rekstrarniðurstöðu í bæði A og B hluta á árinu 2010.
Veltufé frá rekstri mun aukast uppí nær tvo milljarða eða um 15% af heildartekjum.
Skattar og þjónustugjöld verða óbreytt.
Hagræðingu verður áfram náð fram í bæði rekstri og fjárfestingum.
Aukin framlög verða til fjárhagsaðstoðar og velferðarmála.
Skuldir bæjarfélagsins lækka og eignastaða styrkist


Framlög til velferðarmála munu aukast m.a. með hækkun framfærslustyrkja. Almenn þjónustugjöld sem tengjast grunn- og leikskóla verða óbreytt fram að nýju skólaári og kynntar hafa verið tillögur um aukinn afslátt af fasteignagjöldum til ellilífeyrisþega og öryrkja. Hagræðingu í rekstri verður m.a. náð með auknu aðhaldi, nýjum þjónustuútboðum, markvissri stýringu í rekstri fasteigna, lækkun launakostnaðar og öðrum aðgerðum án þess að grunnþjónusta verði skert né gæði almennrar þjónustu við bæjarbúa.

Reiknað er með að útsvarstekjur lækki um 4% á milli ára frá útkomuspá sem er raunlækkun um ríflega 8% miðað við verðlagsforsendur. Álagningarhlutfall fasteigna­skatts, vatnsgjalds, holræsagjalds og lóðarleigu verður óbreytt á milli ára en sorpeyðingargjald hækkar um 10% á milli ára. Umfangsmikið endurmat á landsvísu varð á matsstofni fasteigna fyrr á árinu en það leiddi til að matsstofn Hafnarfjarðarbæjar lækkar um 3,6% á milli ára. Þessi lækkun leiðir til að tekjur vegna fasteignagjalda lækka sem nemur þessum prósentum miðað við álagningu ársins 2009. Reiknað er með að launabreytingar á árinu 2010 verði óverulegar. Á yfirstandandi ári var farið í aðgerðir til að lækka launakostnað sem munu skila sér enn frekar á árinu 2010.

Helstu niðurstöðutölur fyrir árið 2010 eru eftirfarandi:

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A hluta verði jákvæð um nær 668 m.kr. fyrir fjármagnsliði á árinu 2010 en hún verður jákvæð um rúmar 158 m.kr. samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2009. Rekstrarniðurstaða eftir fjármagnsliði er áætluð jákvæð um 247 m.kr. á árinu 2010 en samkvæmt útkomuspá 2009 er rekstrarniðurstaða hins vegar neikvæð eftir fjármagnsliði um 1.552 m.kr. vegna óhagstæðra gengis- og verðlagsbreytinga.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta er áætluð jákvæð um 401 m.kr. á árinu 2010 en samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2009 eru hún neikvæð um 1.948 m.kr.

Veltufé frá rekstri í A hluta á árinu 2009 er áætlað 1.164 m.kr. og samantekið fyrir A og B hluta nær 1.850 m.kr.

Dregið hefur verið úr öllum framkvæmdum og fjárfestingum á árinu 2009 en fjárfestingaráætlun fyrir árið 2010 verður endurskoðuð þegar línur skýrast varðandi fjár­mögnun hverrar framkvæmdar.



Fjárhagsáætlun ársins 2010 mun tryggja áfram velferð og jöfnuð meðal bæjarbúa. Jafnframt því að gæta ítrasta aðhalds í rekstri og standa vörð um samfélagslega þjónustu verður sótt fram á öllum sviðum:

Samvinna og samráð verður við bæjarbúa, félög, samtök og fyrirtæki um sókn til nýrrar framtíðar.
Sérstök áhersla verður lögð á atvinnuátak og endurmenntun fyrir ungt fólk.
Áframhaldandi samstarf verður við Nýsköpunarmiðstöð og Vinnumálastofnun um atvinnuþróunarverkefni.
Horft verður sérstaklega til nýsköpunar í atvinnumálum með áherslu á nýtingu vatnsauðlinda og gagnavera á nýjum iðnaðarsvæðum bæjarins.
Nýtt verða öll tækifæri til atvinnusköpunar í tengslum við öfluga starfsemi og þjónustu Hafnarfjarðarhafnar.
Endurskoðað verður skipulag nýrra byggingasvæða með breytta þörf og aðstæður á markaði í huga.
Framkvæmdir munu hefjast við nýtt hjúkrunarheimili á árinu, í samvinnu við stjórnvöld.
Lokið verður þeim framkvæmdum sem eru á verkáætlun hjá bæjarfélaginu og tekin ákvörðun um frekari nýframkvæmdir eftir því sem fjármögnun leyfir.
Gæðastýring í fasteignarekstri bæjarfélagsins tryggi enn frekari hagkvæmni og sparnað fyrir bæjarfélagið og leitað verður eftir samningum um frekari yfirtöku einkaframkvæmdarsamninga.


Með margvíslegum aðgerðum á því ári sem nú er að líða hefur náðst umtalsverð hagræðing í rekstri bæjarfélagsins en lang stærsta einstaka hagræðingin sem náðst hefur á síðustu mánuðum og mun hafa veruleg jákvæð áhrif til næstu framtíðar á útgjöld bæjarfélagsins er yfirtaka og uppkaup Hafnarfjarðarbæjar á svonefndum Nýsis-eignum, Hagræðing bæjarfélagsins af þessari yfirtöku á einkaframkvæmdasamningum er vel á annað hundrað milljónir á ári og heildarhagræðing hátt í tveir milljarðar á því tímabili sem eftir var af umræddum samningum, auk þess sem bæjarfélagið hefur nú eignast þessar þjónustubyggingar.

Frá því á sl. sumri hefur verið unnið að endurmati eigna hjá eignasjóði Hafnarfjarðarbæjar. Það mat nær fyrst og fremst til vatnsveitu og fráveitu og regnvatnsveitna sem ekki hafa verið eignfærðar sérstaklega, auk þess sem endurmat fer einnig fram á leiguíbúðum bæjarins sem eru vel á þriðja hundrað talsins. Niðurstaða þessa endurmats á eignum mun liggja fyrir í byrjun komandi árs.

Fyrir liggur að eignir Hafnarfjarðarbæjar í fullbúnum lóðum á nýjum atvinnu- og íbúðasvæðum er að verðmæti yfir 10 milljarðar króna. Samkvæmt niðurstöðum fjárhagsáætlunar liggur skýrt fyrir að eignastaða bæjarfélagsins er mjög traust og langt umfram skuldir og hún mun styrkjast enn frekar þegar niðurstöður endurmats liggja fyrir á næstunni.

Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði ætti að líta í sinn eigin rann í þegar kemur að umræðu um skuldamál og ábyrga efnahagsstjórn umliðins áratugar og hvar höfuðábyrgð á efnhagshruni þjóðarinnar liggur. Nýlegar yfirlýsingar formanns flokksins þeirra um mistök, valdaþreytu og ábyrgð tala þar skýrustu máli.

Það hefur mætt mikið á starfsmönnum og stjórnendum bæjarfélagsins í þungum verkefnum sem við höfum þurft að takast á við á undanförnum misserum. Það hefur líka reynt á innri styrk stjórnsýslunnar og samvinnu kjörinna fulltrúa. Allir hafa lagt sitt af mörkum og þótt ekki hafi verið fullur einhugur um allar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til þá hefur gott samráð og samstaða náðst um allar þær helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það er mikilvægt að slík samstaða sé fyrir hendi og um leið vilji til samstarfs. Fyrir það ber að þakka um leið og lögð er áhersla á að okkur öllum megi auðnast að eiga áfram farsælt og gott samstarf um þau mikilvægu verkefni sem bíða okkar á nýju ári.

Á sama tíma og það fækkar íbúum í höfuðborg landsins og stendur í stað í flestum nærsveitarfélögum okkar, þá fjölgar áfram í Hafnarfirði. Sú staðreynd talar sínu máli. Það er eftirsótt að búa í Hafnarfirði, því hér eru áherslur jafnaðar tryggðar í velferð og þjónustu. Hér er öruggi íbúanna og réttur þeirra til félagslegrar þáttöku og þjónustu tryggður burtséð frá efnahag og öðrum aðstæðum. Hér eru áhersla jafnaðarstefnunnar ríkjandi og félagslegt réttlæti haft í hávegum.

Við höfum notað tímann vel á síðustu árum og byggt upp á hraðan og markvissan hátt. Sú mikla uppbygging mun treysta alla framtíðarstöðu bæjarfélagsins og gefa okkur tækifæri til frekari sóknar á þeim miklu og verðmætu byggingarlöndum sem bæjarfélagið hefur yfir að ráða, og eru fullbúin til uppbyggingar hvort heldur er á íbúðar- eða atvinnu­svæðum. Um leið og ný sóknarfæri gefast í atvinnu- og uppbyggingarmálum á næstu misserum þá stöndum við vel að vígi með okkar landsvæði til reiðu.

Sá sóknarhugur sem hefur einkennt hafnfirskt samfélag á undanförnum árum er okkar styrkur í komandi framtíð. Við erum vel undirbúin í sókn til nýrra framfara. Sókn fyrir endurreisn í íslensku efnahag og velferð almennings. Við höfum staðið vörð um og munum verja áfram þá áfanga sem við höfum náð á undanförnum árum. Þannig og eingöngu með þeim hætti verðum við best í stakk búin til að sækja fram að nýju."

Lúðvík Geirsson (sign)

Ellý Erlingsdóttir (sign)

Guðmundur Rúnar Árnason (sign)

Margrét Gauja Magnúsdóttir (sign)

Guðfinna Guðmundsdóttir (sign)

Gunnar Svavarsson (sign)

Gísli Ó. Valdimarsson (sign)