Fyrirspurn
Borist hefur með tölvupósti dags. 07.09.2009 fyrirspurn frá Guðna Gíslasyni um hvaða leyfi hafa verið gefin fyrir byggingum á svæði því sem hestamenn hafa við s-v hluta Kleifarvatns. Athugun skipulags- og byggingarsviðs hefur leitt í ljós að engin byggingarleyfi né stöðuleyfi eru fyrir umræddum byggingum. Á sínum tíma voru byggðar þarna hnakkageymslur, sem Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005 - 2025 Krýsuvík, gerir ráð fyrir að verði fjarlægðar í áföngum, en nú er risin þarna mun umfangsmeiri byggð húsa, sum þeirra ný, sem skipulags- og byggingarfulltrúi hefur farið fram á að verði fjarlægð samkvæmt 56. grein skipulags- og byggingarlaga: "Ef byggingarframkvæmd, sem fellur undir IV. kafla laga þessara, er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni og hún brýtur í bága við skipulag eða framkvæmd er hafin með byggingarleyfi sem brýtur í bága við skipulag ber byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir tafarlaust og síðan skal hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. - Hafi mannvirki, sem fellur undir IV. kafla laga þessara, verið reist án samþykkis sveitarstjórnar og hún látið hjá líða að fjarlægja það innan sex mánaða frá því að henni var kunnugt um málið skal Skipulagsstofnun láta fjarlægja mannvirkið á kostnað sveitarfélags." Borist hefur umsókn frá Pálmari Harðarsyni dags. 02.11.2009, þar kemur fram að hann hafi fjarlægt þrjú hús af svæðinu fyrir Krýsuvíkurnefnd Sörla, og sækir hann í staðinn um stöðuleyfi fyrir eitt hús. Skipulags- og byggingarfulltrúi synjaði þeirri umsókn, þar sem ekki er lagaheimild fyrir slíku stöðuleyfi og það samræmist ekki skipulagi. - Skipulags- og byggingarfulltrúi óskaði 11.11.2009 eftir skýringum á umræddri byggð húsa frá Pálmari Harðarsyni, Krýsuvíkurnefnd Sörla og öðrum hugsanlegum eigendum innan fjögurra vikna, m.a. hvenær og á hvaða forsendum húsin hafa risið, og vísar síðan erindinu til Skipulags- og byggingarráðs. Einnig er óskað eftir áætlun um það hvenær húsin verði fjarlægð til samræmis við áðurnefnt ákvæði í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar Krýsuvík 2005 - 2025. Svör hafa ekki borist. Erindið var til umfjöllunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 06.01.2010, sem vísaði því til skipulags- og byggingarráðs með eftirfarandi tillögu: Skipulags- og byggingarfulltrúi vísar erindinu til skipulags- og byggingarráðs með eftirfarandi tillögu:
"Skipulags- og byggingarráð óskar eftir skýringum á umræddri byggð húsa frá Pálmari Harðarsyni, Krýsuvíkurnefnd Sörla og öðrum hugsanlegum eigendum innan fjögurra vikna, m.a. hvenær og á hvaða forsendum húsin hafa risið. Einnig er óskað eftir áætlun um það hvenær húsin verði fjarlægð til samræmis við áðurnefnt ákvæði í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar Krýsuvík 2005 - 2025. Berist ekki umbeðnar skýringar innan tilskilins tíma mun skipulags- og byggingarráð fjalla um málið að nýju og ákveða viðeigandi ráðstafanir."