Hagræðingartillögur, útfærsla
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 14 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3244
26. nóvember, 2009
Annað
Fyrirspurn
Bæjarstjóri gerði grein fyrir stöðu málsins og lagði fram eftirfarandi tillögur í starfsmannamálum í hagræðingarskyni:
1. Með vísan til ákvörðunar bæjarráðs frá 26. ágúst sl. um að segja upp öll gildandi samningum varðandi akstursgreiðslur, er samþykkt að lækka fastar/reglulegar akstursgreiðslur frá 1. janúar 2010 um 40% frá því sem nú er.
2. Jafnframt er samþykkt hagræðingarkrafa upp á 40% vegna aksturdagsbóka sem útfærð verður nánar í fjárhagsáætlun 2010.
3. Samþykkt er hámarksviðmið, vegna yfirvinnugreiðslna hjá Hafnarfjarðarbæ, 43,44 tímar á mánuði. Í samræmi við hámarksviðmið verður öllum föstum/reglulegum yfirvinnustundum umfram 43,44 tímum sagt upp frá og með næstu mánaðarmótum með þriggja mánaða fyrirvara. Unnt er að óska eftir endurmati á hámarksviðmiði.
4. Óheimilt er að greiða starfsmanni með fastar/reglulegar yfirvinnustundir til viðbótar þeirri föstu yfirvinnu nema sýnt sé að unnin yfirvinna, að meðaltali yfir 6 mánaða tímabil, sé meiri en föst/regluleg yfirvinna á sama tímabili eða að um sé að ræða verkefni sem falli utan starfssviðs starfsmanns.
5. Starfsmönnum verði boðið að lækka starfshlutfall þar sem því verður við komið og reglur um launalaus leyfi rýmkuð.
6. Settar verði sérstakar reglur um samninga varðandi flýtingu starfsloka.
Starfsmannastjóra er jafnframt falið að leggja fram drög að reglum varðandi lið 5. og 6. á næsta reglulega fundi bæjarráðs.
Svar

Bæjarráð samþykkir framlagðar tillögur.   Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka eftirfarandi: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja hagræðingartillögurnar en benda á að tillögurnar taka einungis til ákveðinna þátta í launum starfsmanna.  Óskað er eftir því að á næsta fundi bæjarráðs verði lagðar fram tillögur að hagræðingu í greiðslum til verktaka og útfærsla á því hvernig verja megi  önnur störf í bæjarfélaginu eins og lögð hefur verið áhersla á að beri að gera, því ljóst er að fram komnar hagræðingartillögur duga alls ekki til að ná fram því markmiði. Rósa Guðbjartsdóttir (sign.) María Kristín Gylfjadóttir (sign.) Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna bókar eftirfarandi: Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna styður framlagða tillögu um endurskoðun á launasamsetningu og hagræðingartillögu tengda starfsmannamálum. Með tillögunum felst m.a. tækifæri til að endurskoða jafnvel úrelta launasamsetningu, sem taka þarf þá sérstaklega tillit til en leiðir vonandi til enn meira jafnræðis á milli karla og kvenna í launum. Jafnframt er ljóst að hér er um að ræða einn anga af þeirri fjárhagsáætlunarvinnu sem verið er að vinna fyrir öll svið bæjarins. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign) Fulltrúar Samfylkingar bóka eftirfarandi: Framlagðar tillögur um hagræðingu í launaútgjöldum taka mið af þeim áherslum sem lagðar hafa verið í fyrri samþykktum og snerta þennan útgjaldaþátt þar sem horft er til jafnræðis út frá heildarlaunum.   Frekari tillögur um hagræðingu almennra rekstrarútgjalda eru til yfirferðar hjá stjórnendum málasviða og vinnuhópum kjörinna fulltrúa og í viðkomandi ráðum og nefndum og verða síðan teknar til endanlegrar yfirferðar í bæjarráði áður en fjárhagsáætlun verður lögð fyrir bæjarstjórn líkt og venja er.   Guðmundur Rúnar Árnason (sign.) Ellý Erlingsdóttir (sign.) Gísli Ó. Valdimarsson (sign.)