Lagt fram. Bæjarráðsmenn Sjálfstæðisflokksins óska bókað: "Bæjarráðsmenn Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir miklum áhyggjum með afkomu Hafnarfjarðarbæjar í ljósi 6 mánaða uppgjörs sveitarfélagsins og rekstraryfirlits fyrir fyrstu 7 mánuðina. Áætlanir um afkomu A-hluta eru mjög langt frá þeim markmiðum sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sett um afkomu af rekstri sveitarfélagsins og ljóst að áætlanir fyrir árið í heild munu ekki nást. Hundruð milljóna hagræðingakröfur eru enn óútfærðar og ekki útlit fyrir að þær náist á þessu ári. Jafnframt höfum við áhyggjur af því að mörg sveitarfélög hafi verið að merkja lækkun tekna nú þegar liðið hefur á árið og ef slík þróun verður einnig í Hafnarfirði minnkar ennfrekar svigrúmið í rekstrinum. Starfsfólk og stofnanir bæjarins hafa unnið mjög gott hagræðingarstarf á liðnum misserum en ljóst er að áralöng umframkeyrsla fyrrverandi meirihluta Samfylkingarinnar er að koma okkur í koll." Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað: "Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna fagna þeim mikla árangri sem náðst hefur í viðsnúningi á rekstri bæjarins og fram kemur í 6 mánaða uppgjöri sveitarfélagsins. Það uppgjör ásamt úttekt á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem skilað verður um mánaðarmótin september/október eru mikilvæg gögn í þeirri vinnu sem framundan er við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011. Sá veruleiki sem skall á sveitarfélögum, og þar á meðal Hafnarfirði, haustið 2008 og afleiðingar þess hruns er ekki skammtímaverkefni sveitarfélaga heldur langtímaverkefni. Það er því mikilvægt að vanda vel til verka og leita lausna og hagræðingar sem er sem sanngjörnust fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Áætlanir um afkomu A-hluta er í samræmi við markmið fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðar fyrir árið 2010. Vænst er fulltrar þátttöku fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í vinnu við gerð fjárhagsáætlunnar fyrir árið 2011 og 3ja ára áætlun bæjarstjórnar þar sem farið verður ítarlega yfir öll þau atriði sem lúta að rekstrarmálum sveitarfélagsins."