Fyrirspurn
Forseti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi tillögu:
Með vísan til samþykktar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, frá 7. maí 2010 samþykkir bæjarráð að láta taka saman skýrslu um Hafnarfjörð, þar sem fram komi m.a. upplýsingar um stjórnsýslu og fjármálastjórn, siðareglur, reglur um skráningu hagsmunatengsla. Sérstök hliðsjón verði höfð af þeim lærdómum sem draga má af skýrslu Rannsóknanefndar Alþingis. Haft verði samráð við lögfræði- og velferðarsvið Sambands íslenskra sveitarfélaga um verklag, þar sem sambandið áformar sambærilega samantekt um sveitarfélögin almennt.
Meðal annars verði fjallað um eftirfarandi atriði:
Ábyrgðar- og verksvið embættismanna annars vegar og kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn, nefndum og ráðum hins vegar. Sérstaklega verði fjallað um valdmörk, boðleiðir og umboð.
Tengsl stjórna B-hlutafyrirtækja og annarra stjórna sem sveitarfélagið á aðild að, svosem landshlutasamtaka og byggðasamlaga, við stjórnkerfi bæjarins.
Reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum bæjarfulltrúa, auk siðareglna starfsfólks og kjörinna fulltrúa.
Skráning, aðgangur og meðferð upplýsinga, einkum með tilliti til trúnaðar.
Reglur um gerð fjárhagsáætlunar, fjár- og áhættustýring, áhættumat og eftirlit
Samskipti við aðila utan stjórnkerfisins sem fara með opinbert fé, einstaklinga, fyrirtæki eða félagasamtök, hvort sem er að ræða á grundvelli samninga eða styrkveitinga.