Bæjarstjóri, ráðning
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 14 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3265
8. júlí, 2010
Annað
Fyrirspurn
Bæjarstjóri Lúðvík Geirsson lagði fram eftirfarandi yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann mun láta af störfum sem bæjarstjóri frá og með deginum í dag.
"Á þeim 8 árum sem ég hef gegnt starfi bæjastjóra hef ég lagt ríka áherslu á gott samstarf og samráð við bæjarbúa alla. Sú samstaða hefur verið mikilvæg í þeirri gríðarmiklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í bæjarfélaginu á þessum tíma þegar íbúum hefur fjölgað um nær fjórðung. Í ljósi þeirra eftirmála nýliðinna kosninga og ákvarðana um skipan í embætti bæjarstjóra er einboðið að ekki mun ríkja sú almenna sátt sem er að mínu mati nauðsynleg til að viðhalda áfram víðtækri samvinnu og samráði í bæjarfélaginu. Til að tryggja að bæjarstjórn fái þann starfsfrið sem nauðsynlegur er til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem m.a. hafa verið kynnt í ítarlegri stefnuyfirlýsingu nýs meirihluta, hef ég óskað eftir því við bæjarfulltrúa sitjandi meirihluta að ljúka mínum störfum sem bæjarstjóri og ganga ekki frá ráðningasamningi til næstu tveggja ára eins og bæjarstjórn hafði samþykkt fyrir sitt leyti á fundi sínum þann 14. júní. Mun ég því láta af störfum bæjarstjóra Hafnarfjaðar frá og með deginum í dag. Þessi ákvörðun er alfarið mín og er tekin með hagsmuni bæjarfélagsins og bæjarbúa í huga. Það andóf sem pólitískir andstæðingar meirihlutaflokka bæjarstjórnar hafa staðið fyrir og beinst hafa fyrst og fremst að stöðu minni sem bæjarstjóra í kjölfar nýafstaðinna kosninga mega á engan hátt veikja stöðu sitjandi meirihluta, né heldur skapa óróa og ósamstöðu sem hafnfirskt samfélag þarf síst á að halda um þessar mundir. Á þeim aldarfjórðungi sem ég hef tekið virkan þátt í bæjarmálum í Hafnarfirði, þar af sem bæjarfulltrúi í 16 ár og bæjarstjóri undanfarin 8 ár hef ég lagt höfuðáherslu á að vinna að framgangi og framförum í almannaþjónustu og treysta stöðu Hafnarfjarðar sem fyrirmyndar á þeim vettvangi. Ég er stoltur og hreykinn af þeim árangri sem bæjaryfirvöld í breiðri sátt með starfsmönnum bæjarins og bæjarbúum hafa náð fram og ég veit að nýr meirihluti í bæjarstjórn undir forystu nýs bæjarstjóra mun standa samhentur um þær sömu áherslur á þessu nýja kjörtímabili. Ég vil á þessum tímamótum þakka öllu samstarfs- og samferðarfólki á undanförum árum fyrir sérstaklega góð og ánægjuleg samskipti og samvinnu. Um leið óska ég Hafnfirðingum öllum bjartrar framtíðar í gróandi og góðu bæjarsamfélagi."
Formaður lagði fram tillögu um að Guðmundur Rúnar Árnason yrði ráðinn bæjarstjóri frá og með deginum í dag til 15.6. 2012.
Einnig lagði hún fram ráðningasamning í samræmi við það.
Jafnframt var lagt fram yfirlit yfir laun bæjarstjóra í nokkrum stærstu sveitarfélögum landsins sem og "Könnun á kjörum sveitarstjóranrmanna, framkvæmdastjóra sveitarfélaga og greiðslu til nefndarmanna hjá íslenskum sveitarfélögum 2010 frá júní 2010."
Svar

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkir  með 3 atkvæðum ráðningu Guðmundar Rúnars Árnasonar sem bæjarstjóra og jafnframt fyrirliggjandi ráðningarsamning.   Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna harma það að bæjarbúar fái ekki áfram notið krafta Lúðvíks Geirssonar í starfi bæjarstjóra, en skilja ákvörðun hans og virða. Jafnframt þakka þeir Lúðvíki farsæl og óeigingjörn störf sem bæjarstjóri undanfarin átta ár og óska honum velfarnaðar í framtíðinni.     Fulltrúar Sjálfstæðiflokksins sitja hjá við afgeiðsluna og óska bókað: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka Lúðvíki Geirssyni samstarfið á liðnum árum og fyrir óeigingjörn störf hans á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Lúðvíki og fjölskyldu hans er óskað velfarnaðar í framtíðinni. Nýjum bæjarstjóra Guðmundi Rúnari Árnasyni er óskað til hamingju og góðs gengis í nýju starfi á komandi misserum.