Fyrirspurn
Tekin fyrir að nýju
1.liður úr fundargerð SBH frá 28.apríl sl. og 2. liður fundargerðar bæjarstjórnar frá 30. apríl sl.
Tekin til umræðu tillaga að Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025, greinargerð, uppdrættir og umhverfisskýrsla. Skipulagið var auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdatíma er lokið, athugasemdir bárust. Áður lagðar fram innkomnar athugasemdir. Lögð fram samantekt sviðsstjóra á þeim með tillögu að svörum.
Skipulags- og byggingarráð gerir svör sviðsstjóra að sínum, samþykkir aðalskipulagstillöguna og að málinu verði lokið skv. 32. grein skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulags- og byggingarráð gerir eftirfarandi tillögu til bæjarstjórnar:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 ásamt fylgiskjölum og að málinu verði lokið skv. 32. grein skipulagslaga nr. 123/2010".
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 11 atkvæðum fyrirliggjandi tillögu að Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 - 2025.
Sigríður Björk Jónsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun f. h. allrar bæjarfulltrúa:
Aðalskipulag er í eðli sínu stefnumótun sem er bindandi fyrir aðrar skipulagsákvarðanir og stýrir heildaruppbyggingu í sveitarfélaginu til langs tíma. Sú tillaga sem hér er lögð fram til samþykktar hefur fengið ítarlega umfjöllun og kynningu á undanförnum misserum bæði innan stjórnsýslu bæjarins sem og annarra hagsmunaðaðila, ekki síst íbúa. Helstu áhersluatriði aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013 ? 2025 eru umhverfismál, samgöngur og húsverndun.
Í þeirri undirbúningsvinnu sem hefur staðið yfir síðastliðin 3 ár, þá hefur verið haft að leiðarljósi að setja fram áætlun um framkvæmdir og uppbyggingu sem líklegt má telja að eigi sér stað á þeim gildistíma sem um ræðir eða á árunum 2013-2025.
Í aðalskipulaginu eru auknar áherslur á sjálfbæra þróun og verndun byggðar, vistkerfis og náttúru. Hafnarfjörður státar af tiltölulega mörgum gömlum íbúðarhúsum sem ljá eldri bæjarhlutum hlýlegan blæ endurspegla þróun bæjarins allt frá upphafi. Í aðalskipulaginu er kveðið á um verndun yfirbragðs heillegra húsaraða og hverfa sem bera stílbrigði ákveðinna tímabila í byggingarsögu bæjarins. Í nýjum hverfum er áhersla á umhverfisgæði, og meðal annars er gefið rúm fyrir svo nefnt visthverfi í einu þeirra, þar sem fólk getur stundað vistvænan búskap. Lögð er áhersla á vistvænt samgöngukerfi með aukinni áherslu á göngu- og hjólastíga og almenningssamgöngur.
"Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 er gott dæmi um verkefni sem unnist hefur þvert á pólitískar línur, enda er aðalskipulag í eðli sínu langtímastefna bæjarfélagins um uppbyggingu og þróun. Aðalskipulag þarf að endurspegla samfélagsgerð og áherslur á hverjum tíma en um leið er afar mikilvægt að íbúar geti treyst því að skipulag standi í öllum grundvallaratriðum og að hægt sé að vinna raunhæfar áætlanir um bæði uppbyggingu húsnæðis fyrir fólk og fyrirtæki.
Með aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 - 2025 hefur verið mörkuð skýr stefna varðandi þróun og uppbyggingu bæjarins til langs tíma. Það er mikilvægur leiðarvísir í því að halda áfram að byggja upp gott samfélag fyrir okkur öll."