Valdimar Svavarsson tók til máls og lagði fram svohljóðandi breytingartillögu: "Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felur bæjarstjóra og fjármálastjóra að leggja fram og gera áætlun um aðgerðir í fjármálum bæjarins og fá upp á borðið þá valkosti sem eru í stöðunni. Tillögurnar og valkostirnir skulu m.a. innihalda:
1. Markmiðasetningu við gerð fjárhagsáætlunnar fyrir næsta ár og endurskoðun á áætlun næstu 3ja ára. 2. Samantekt á veltufjáreignum, lausu fé, skuldabréfum, hlutabréfum, lóðum og öðrum eignum bæjarins sem ekki eru í notkun og hugmyndir að því hvernig koma má þeim í verð og greiða niður skuldir. 3. Greiningu og sundurliðun á því hvaða þjónusta sem bærinn er að veita flokkast undir grunnþjónustu, annars vegar, og aðra þjónustu, hins vegar, og kostnaði við þessa þætti. 4. Greiningu á tækifærum sem felast í samrekstri málaflokka og sviða innan bæjarkerfisins. 5. Greiningu á tækifærum sem felast í því að leita samvinnu um rekstur málaflokka með öðrum sveitarfélögum.
Tillögur og valkostir skulu lagðar fyrir bæjarráð eigi síðar en um mánaðarmótin september-október." Valdimar Svavarsson (sign) Rósa Guðbjartsdóttir (sign) Kristinn Andersen (sign) Geir Jónsson (sign) Helga Ingólfsdóttir (sign)
Guðmundur Rúnar Árnason tók til máls. Valdimar Svavarsson kom að andsvari. Gunnar Axel Axelsson tók til máls. Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari. Valdimar Svavarsson kom að andsvari við fyrri ræðu Gunnar Axels Axelssonar. Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari. Helga Ingólfsdóttir tók til máls. Þá Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir. Valdimar Svavarsson kom að andsvari. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari. Valdimar Svavarsson kom að andsvari öðru sinni. Eyjólfur Sæmundsson tók til máls. Valdimar Svavarsson kom að andsvari. Geir Jónsson kom að andsvari við fyrri ræðu Eyjólfs Sæmundssonar. Eyjólfur Sæmundsson svaraði andsvari. Guðmundur Rúnar Árnason tók til máls. Þá Rósa Guðbjartsdóttir. Lúðvík Geirsson gerði athugasemdir við fundarsköp. Valdimar Svavarsson kom að stuttri athugasemd við fundarsköp. Bæjarstjóri, Guðmundur Rúnar Árnason, kom að andsvari við fyrri ræðu Rósu Guðbjartsdóttur. Rósa Guðbjartsdóttir svaraði andsvari. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom að andsvari við fyrri ræðu Rósu Guðbjartsdóttur. Gunnar Axel Axelsson tók til máls. Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari. Kristinn Andersen tók til máls. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari. Kristinn Andersen svaraði andsvari. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom að andsvari við fyrri ræðu Kristins Andersen. Guðmundur Rúnar Árnason tók til máls og lagði til að framlagðri breytingartillögu yrði vísað frá bæjarstjórn. Hann lagði jafnframt fram svohljóðandi bókun: "Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna fagna því hversu vel bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðast hafa kynnt sér málefnasamning núverandi meirihluta og verkefnaskrá þess meirihluta. Jafnframt treysta bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taki fullan þátt í vinnu við gerð fjárhagsáætlunnar fyrir árið 2011 og 3ja ára áætlun bæjarstjórnar þar sem farið verður ítarlega yfir öll þau atriði sem lúta að rekstrarmálum sveitarfélagsins. Hins vegar þykir bæjarfulltrúum Samfylkingar og Vinstri grænna sæta furðu að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ítrekað leggja fram tillögur um mál sem eru þegar í vinnslu og fulltrúum flokksins á að vera fullkunnugt um. Hvað þessa ákveðnu tillögu varðar þá er þegar búið að kaupa úttekt á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem skilað verður um mánaðarmótin september/október. Í þeirri úttekt verður tekið á öllum þeim þáttum sem þessi síðkomna tillaga tekur á, að undanskildum sérstökum áherslum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á eignasölu sameiginlegra þjónustustofnana bæjarfélagsins. Vítin ættu að vera til varnaðar í þeim efnum eins og sannast víða í sveitarfélögum þessa daga." Guðmundur Rúnar Árnason (sign) Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign) Gunnar Axel Axelsson (sign) Lúðvík Geirsson (sign) Eyjólfur Sæmundsson (sign) Sigríður Björk Jónsdóttir (sign) Gengið til atkvæðagreiðslu um framlagða frávísunartillögu. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða frávísunartillögu með 6 atkvæðum, 5 greiddu atkvæði á móti. Valdimar Svavarsson tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun: "Sjálfstæðismenn harma að ekki hafi enn borist 6 mánaða uppgjör bæjarins og hafa þeir ekki séð neinar tillögur um aðgerðir eða stefnumörkun í fjármálum frá meirihlutanum í bæjarstjórn. Með þessari tillögu er tekið frumkvæði í málinu og þeirri vinnu komið strax af stað með því að fá þá kosti sem eru í stöðunni upp á borðið. Sjálfstæðismenn bjóða jafnframt fram samstarf um lausn vandans og munu ekki láta sitt eftir liggja nú, frekar en áður, til að vinna að sameiginlegum hagsmunum Hafnarfjarðar og Hafnfirðinga. Við hörmum að framkominni tillögu hafi verið vísað frá." Valdimar Svavarsson (sign) Rósa Guðbjartsdóttir (sign) Kristinn Andersen (sign) Geir Jónsson (sign) Helga Ingólfsdóttir (sign)