Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, tók til máls. Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls. Þá Helga Ingólfsdóttir, Kristinn Andersen og Geir Jónsson. Valdimar Svavarsson tók til máls. Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, tók til máls. Valdimar Svavarsson kom að andsvari.
Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls og lagði fram f.h. fulltrúa Sjálfstæðisflokks bókun.
Gert stutt fundarhlé. Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls og las upp leiðrétta bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks sem var svohljóðandi:
"Bæjarfultrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir áhyggjum af erfiðri fjárhagsstöðu bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og þeirri þungu greiðslubyrði sem blasir við vegna fyrirhugaðrar endurfjármöngunar gjaldfallinna skulda bæjarsjóðs. Samkvæmt væntanlegum skilmálum endurfjármögnunarinnar sem fyrirhuguð er má gera ráð fyrir að ýmsar skuldir bæjarins, samtals að upphæð 14 milljarðar króna, verði endurfjármagnaðar með afar óhagstæðum vaxtakjörum. Hætta er á að þessi háu vaxtakjör muni sliga bæjarsjóð næstu árin og jafnvel næstu áratugina.
Ennfremur er lýst yfir undrun á hversu langan tíma endurfjármögnunin hefur tekið og hversu seint var farið af stað í viðræður. Fljótt varð ljóst að ekki yrði um endurfjármögnun að ræða frá DEPFA og að of seint lágu fyrir áætlanir um að fara aðrar leiðir eins og sú leið sem líklegust er að nú verði niðurstaðan. Ekki var heldur reynt að semja um lækkun eða niðurfellingu hluta skuldanna við þennan stærsta lánadrottinn bæjarsjóðs, þe, þrotabú DEPFA, en niðurfelling skulda hefur tíðkast hjá íslensku bönkunum, fjölda fyrirtækja og fleirum. Þetta olli því að lán fóru í vanskil og varð þess valdandi að við erum nú að semja um endurfjármögnun skulda uppá 14 milljarða í stað 4,3 milljarða eins og lá fyrir að endurfjármagna á þessu ári. Miðað við þær upphæðir sem um ræðir, vexti og allar aðrar forsendur, (sbr. verðbólguspá, skuldaþolsviðmið, fyrirliggjandi viðhaldsþörf í bæjarfélaginu o.fl.) verður erfitt fyrir íbúa og fyrirtæki bæjarfélagsins að standa undir stóraukinni greiðslubyrði til lengri tíma, hvað þá að greiða niður höfuðstól skuldanna. Greiðslubyrði sveitarfélagsins má ekki verða svo íþyngjandi að hún komi niður á lögboðinni þjónustu bæjarfélagsins."
Valdimar Svavarsson (sign), Rósa Guðbjartsdóttir (sign), Kristinn Andersen (sign),
Geir Jónsson (sign), Helga Ingólfsdóttir (sign).
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók til máls og lagði fram f.h. fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna svohljóðandi bókun:
"Gerðar hafa verið greiningar af óháðum aðilum á greiðslugetu og fjárhagsstöðu Hafnarfjarðarbæjar sem sýna að bærinn hefur fulla burði til að standa undir þeirri endurfjármögnun sem fyrir stendur."
Guðmundur Rúnar Árnason (sign), Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign), Sigríður Björk Jónsdóttir (sign),
Margrét Gauja Magnúsdóttir (sign), Gunnar Axel Axelsson (sign), Eyjólfur Sæmundsson (sign).