Bæjarráð samþykkir framlagða tillögur með 3 atkvæðum gegn 2.
Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokkins bóka eftirfarandi:
Hafnarfjarðarbær á í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum. Rúmlega fjögurra milljarða króna lán hefur verið í vanskilum mánuðum saman og enn er óvissa um niðurstöðu endurfjármögnunar þess. Bærinn hefur þurft að grípa til ýmissa sársaukafullra sparnaðaraðgerða undanfarna mánuði og misseri. Þær aðgerðir felast m.a. í uppsögnum á starfsfólki bæjarins, niðurskurði, hagræðingu og hækkunum á þjónustugjöldum. Verulegur niðurskurður á framlögum til Vinnuskólans hefur leitt til þess að hópur hafnfirskra ungmenna gengur nú um atvinnulaus. Fyrir fáeinum dögum var ákveðið að hækka matargjöld í grunn- og leikskólum bæjarins. Mörgum styrkbeiðnum til fjölbreyttra samfélagslegra verkefna (meðal annars til Rauða Krossins, SÁÁ og Félags einstæðra foreldra) hefur verið hafnað vegna fjárskorts. Svona mætti lengi telja. Í ljósi þessa telja undirrituð, það vera beina móðgun við hafnfirska útsvarsgreiðendur að meirihlutinn leggi til að Hafnfirðingar greiði fyrir þjónustu í öðrum sveitarfélögum. Hafnarfjarðarbær á fullt í fangi með að greiða eigin reikninga og því leggjumst við gegn því að orðið verði við erindi um aukna þátttöku í kostnaði til Strætó bs til að bæta megi samgöngur í Álftanesi.
Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bóka eftirfarandi:
Þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ríkir full samstaða meðal þeirra um að tryggja samfellu í þjónustu í almenningssamgöngum á svæðinu, hvert sem sveitarfélagið er. Þátttaka í byggðasamlagi felur í sér skyldur engu síður en réttindi. Það eru mikilvægir hagsmunir íbúa á öllu svæðinu, að þjónusta byggðasamlaganna standist lágmarkskröfur. Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins dæmir sig sjálf og undirstrikar með skýrum hætti mismunandi pólitíska sýn.