Fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og fyrirtækja hans 2012-2015.
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 12 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1671
19. desember, 2011
Annað
‹ 8
9
Fyrirspurn
7.liður úr fundargerð BÆJH frá 1.des. sl. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og fyrirtækja hans árin 2012-2015. Lögð fram afgreiðsla fræðsluráðs á áætlun vegna fræðslumála og tillaga að gjaldskrám. Einnig afgreiðsla fjölskylduráðs vegna áætlunar fjölskylduþjónustu og gjaldskrám hennar.
Bæjarráð vísar drögum af fjárhagsáætlun 2012 -2015 ásamt fyrirliggjandi tillögum á gjaldskrám til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, tók til máls.
Rósa Guðbjartsdóttir vék af fundi kl. 17:30.
Valdimar Svavarsson tók til máls.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 10 samhljóða atkvæðum að vísa drögum að fjárhagsáætlun 2012-2015 ásamt fyrirliggjandi tillögum á gjaldskrám til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Svar

Síðari umræða í bæjarstjórn:

Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, tók til máls og lagði fram tillögur um álagningu fasteignagjalda á árinu 2012, tillögu um niðurfellingu fasteignaskatts á árinu 2012 af eigin íbúð elli- og örorkulifeyrisþega ásamt reglum þar að lútandi. Jafnframt lagði hann fram breytingartillögur að gjaldskrám vegna sorphirðu, Vatnsveitu, Fráveitu, bílastæðagjalds, fjölskylduþjónustu og fræðsluþjónustu auk þess sem hann lagði fram breytingartillögu við fjárhagsáætlun 2012. Jafnframt lagði bæjarstjóri fram tillögu vegna lánasamninga við Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs.

Valdimar Svavarsson tók til máls. Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari. Valdimar Svavarsson svaraði andsvari. Þá tók til máls Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir. Þá Gunnar Axel Axelsson og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir. ´

Margrét Gauja Magnúsdóttir vék af fundi kl. 16:45. Í hennar stað mætti Guðný Stefánsdóttir. Fyrsti varaforseti, Valdimar Svavarsson tók við fundarstjórn. Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari við fyrri ræðu Sigurlaugar Önnu Jóhannsdóttur. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari við fyrri ræðu Sigurlaugar Önnu Jóhannsdóttur. Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir svaraði andsvari. Eyjólfur Sæmundsson tók til máls. Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir kom að andsvari. Eyjólfur Sæmundsson svaraði andsvari. Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir kom að andsvari öðru sinni. Eyjólfur Sæmundsson svaraði andsvari öðru sinni. Sigríður Björk Jónsdóttir tók til máls. Þá Kristinn Andersen.

Annar varaforseti, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, tók við fundarstjórn. Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir vék af fundi kl. 17:35. Í hennar stað mætti Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi.

Geir Jónsson tók til máls. Fyrsti varaforseti, Valdimar Svavarsson, tók við fundarstjórn að nýju. Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari. Geir Jónsson svaraði andsvari. Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari öðru sinni. Geir Jónsson svaraði andsvari öðru sinni. Gunnar Axel Axelsson kom að stuttri athugasemd. Geir Jónsson kom að stuttri athugasemd. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari við fyrri ræðu Geirs Jónssonar. Guðmundur Rúnar Árnason kom að andsvari við fyrri ræðu Geirs Jónssonar. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom að andsvari við fyrri ræðu Geirs Jónssonar til að bera af sér ámæli. Eyjólfur Sæmundsson tók til máls og lagði fram svohljóðandi ályktunartillögu:

"Átak til atvinnueflingar og sölu lóða.

Inn komi nýr útgjaldaliður undir Umhverfis- og framkvæmdasviði , "markaðssetning lóða og efling atvinnulífs". Til þessa verkefnis verði ráðstafað alls 13 m.kr. á árinu 2012.


Greinargerð

Í skýrslu starfshóps á vegum bæjarráðs um lóðamál sem skilað var sl. haust var m.a. lagt til að Umhverfis- og framkvæmdasviði yrði falin markaðssetning lóða fyrir atvinnustarfsemi. Með þessari tillögu er fjármunum ráðstafað til þessa verkefnis þannig að markaðssetning lóðanna og þar með efling atvinnustarfsemi í bænum geti orðið með markvissum hætti. Það er mikilvægt fyrir Hafnarfjörð að nýta þau tækifæri sem hér eru til atvinnuuppbyggingar, en bærinn hefur upp á að bjóða eitt frambærilegasta og stærsta iðnaðar- og atvinnulóða hverfi á höfuðborgarsvæðinu sem nú þegar er tilbúið til úthlutunar."

Eyjólfur Sæmundsson (sign)
Gunnar Axel Axelsson (sign)
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)
Guðmundur Rúnar Árnason (sign)
Margrét Gauja Magnúsdóttir (sign)
Sigríður Björk Jónsdóttir (sign)

Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari. Eyjólfur Sæmundsson svaraði andsvari. Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari öðru sinni. Eyjólfur Sæmundsson svaraði andsvari öðru sinni. Rósa Guðbjartsdóttir kom að stuttri athugasemd. Eyjólfur Sæmundsson kom að stuttri athugasemd. Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari. Eyjólfur Sæmundsson svaraði andsvari. Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari öðru sinni. Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari við fyrri ræðu Eyjólfs Sæmundssonar. Kristinn Andersen kom að andsvari við fyrri ræðu Eyjólfs Sæmundssonar. Eyjólfur Sæmundsson svaraði andsvari. Kristinn Andersen kom að andsvari öðru sinni. Eyjólfur Sæmundsson svaraði andsvari öðru sinni. Kristinn Andersen kom að stuttri athugasemd. Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, tók til máls. Annar varaforseti, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, tók við fundarstjórn. Valdimar Svavarsson kom að andsvari. Guðmundur Rúnar Árnason svaraði andsvari. Valdimar Svavarsson kom að andsvari öðru sinni. Guðmundur Rúnar Árnason svaraði andsvari öðru sinni. Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari við fyrri ræðu Guðmundar Rúnars Árnasonar. Guðmundur Rúnar Árnason svaraði andsvari. Geir Jónsson kom að andsvari við fyrri ræðu Guðmundar Rúnars Árnasonar. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari við fyrri ræðu Guðmundar Rúnars Árnasonar. Helga Ingólfsdóttir tók til máls. Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi, tók sæti að nýju á fundinum kl. 19:15 og Guðný Stefánsdóttir vék af fundi. Forseti tók við fundarstjórn að nýju. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom að andsvari. Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls. Annar varaforseti, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, tók við fundarstjórn. Margrét Gauja Magnúsdóttir tók til máls. Þá Sigríður Björk Jónsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir.

Gengið til atkvæðagreiðslu um framlagða ályktunartillögu varðandi Átak til atvinnueflingar og sölu lóða.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Gengið til atkvæðagreiðslu um framlagðar tillögur um álagningu fasteignagjalda, tillögu um niðurfellingu fasteignaskatts á árinu 2012 af eigin íbúð elli- og örorkulifeyrisþega ásamt reglum þar að lútandi.

Framlögð tillaga um álagningu fasteignagjalda:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að álögð fasteignagjöld vegna ársins 2012 verði eftirfarandi:
Fasteignaskattur
Reiknast af heildarfasteignamati
Íbúðarhúsnæði 0,32%
Opinberar byggingar 1,32%
Atvinnuhúsnæði - annað húsnæði 1,65%
Hesthús 0,6875%
Sumarhús 0,55%
Lóðarleiga
Reiknast af lóðamati
Íbúðarhúsnæði 0,42%
Opinberar byggingar 1,30%
Atvinnuhúsnæði 1,30%
Lóðarleiga annarra lóða en tilgreindar hér að ofan 0,55%

Almennir gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2012 eru tíu, fyrsti gjalddaginn er 15. janúar 2012 en efitir það 1. dagur hvers mánaðar frá mars til nóvember og eindagi 30. dögum síðar. Gjalddagi fasteignagjalda, að lægri fjárhæð en 20.000 kr. er 1. febrúar 2011. Gjalddagar fasteignagjalda, sem lögð eru á nýjar eignir á árinu, eru jafn margir og almennu gjalddagarnir sem eftir eru ársins þegar álagning fer fram."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

"Framlögð tillaga um niðurfellingu fasteignaskatts á árinu 2012 af eigin íbúð elli- og örorkulífeyrisþega (75% örorka):
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir niðurfellingu fasteignaskatts 2012 samkvæmt eftirfarandi viðmiðum.
Einstaklingar Brúttótekjur 2011

100% niðurfelling 2.450.000
80% niðurfelling 2.450.001 2.800.000
50% niðurfelling 2.800.001 3.100.000
25 % niðurfelling 3.100.001 3.350.000
Hjón
100% niðurfelling 0 3.450.000
80% niðurfelling 3.450.001 3.850.000
50% niðurfelling 3.850.001 4.200.000
25 % niðurfelling 4.200.001 4.500.000

Tekjuviðmiðun er árstekjur 2011 samkvæmt skattframtali 2011; samtalan af stofni til útreiknings tekjuskatts og útsvars (reitur 2.7 á skattframtali) og fjármagnstekjum samtals (reitur 3.10 á skattframtali.
Um framkvæmd niðurfellingar fasteignaskatts gilda nánari reglur sem bæjarstjórn setur hverju sinni."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir eftirfarandi reglur vegna lækkunar eða niðurfellingar fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega og vegna andláts maka.
1. Ellilífeyriþegi þarf að hafa orðið 67 ára árið fyrir niðurfellingu eða lækkun fasteignaskatts.
2. Öryrkjar þurfa að vera 75% öryrkjar til að fá niðurfellingu eða lækkun á fasteignaskatti. Þeir sem eru úrskurðaðir 75% öryrkjar á álagningarári eiga rétt á hlutfallslegri lækkun frá því að örorkumat tók gildi.
3. Vegna fráfalls maka er felldur niður fasteignaskattur að 100% hluta næsta ár eftir andlát maka óháð tekjum. Skilyrði fyrir niðurfellingu er framvísun dánarvottorðs.
4. Eingöngu er veittur afsláttur af gjöldum af íbúðum sem ellilífeyrirþegar, öryrkjar eða eftirlifandi maki eiga og búa í. Eingöngu er veittur afsláttur af gjöldum af einni íbúð í eigu aðila.
5. Sé umsækjandi í óvígðri sambúð gilda sömu reglur og um hjón sé að ræða.
6. Þegar um hjón eða sambúðaraðila er að ræða nægir að annar aðilinn fullnægi því skilyrði að vera elli- eða örorkulífeyrisþegi.
7. Verði slit á hjónabandi eða sambúð þeirra einstaklinga sem getið er í 6. gr. þá eiga aðilar máls rétt á öðru hvoru eftirtöldu frá og með þeim tíma sem lögskilnaður eða sambúðarslit eru skráð.
a. Að njóta óbreytts afsláttar út álagningarárið óski þeir þess.
b. Að vera meðhöndlaðir sem einstaklingar frá og með þeim tíma óski þeir þess, enda geti þeir með fullnægjandi hætti sýnt aðgreindar sértekjur sínar á undan sbr. 8. gr.
8. Varðandi tekjuviðmiðanir er litið til tekna ársins 2011, það er samtalan af stofni til útreiknings tekjuskatts og útsvars (reitur 2.7. á skattframtali) og fjármagntekjum (reitur 3.10. á skattframtali).
Reglur þessar eru settar með heimild í lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, 5. gr. 4. mgr."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Gengið til atkvæðagreiðslu um framlagðar breytingartillögur að gjaldskrám vegna sorphirðu, Vatnsveitu, Fráveitu, bílastæðagjalds, fjölskylduþjónustu og fræðsluþjónustu.

Framlögð tillaga vegna sorphirðu og hreinsunar taðþróa:
"Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá vegna sorphirðu og hreinsunar taðþróa í Hlíðarþúfum. Sorphirðugjald verður kr. 19.300 á hverja tunnu og taðþróargjald kr. 9.700 á hverja stíu í hesthúsi"

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga vegna Vatnsveitu Hafnarfjarðar:
"Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá Vatnsveitu Hafnarfjarðar. Vatnsgjald verður 0,112% af heildarfasteignamati og notkunargjald skv. mæli á hvern rúmmetra vatns verður kr. 18."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga vegna Fráveitu Hafnarfjarðar:

"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá Fráveitu Hafnarfjarðar. Fráveitugjald verður 0,185% af heildarfasteignamati."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga vegna bílastæðagjalds við Tjarnarvelli:

"Bílastæðagjald fyrir hvert stæði á Tjarnavöllum verður kr. 3.325 á árinu 2012 og verður innheimt með fasteignagjöldum ársins."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga vegna fjölskylduþjónustu:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir framlagða tillögu um breytingar á gjaldskrá fjölskylduþjónustu varðandi sundstaði, þjónustu við eldri borgara og öryrkja, heilsdagsskóla og leikjanámskeið."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga um breytingar á gjaldskrá fræðsluþjónustu:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gjaldskrá leikskóla verði sem hér segir
frá 1.2.2012 frá 1.8.2012
Gjald á mánuði, fyrir hverja dvalarklukkustund á dag 2.830 kr. 2.971 kr.
Gjald á mánuði fyrir fyrstu 1/2 dvalarklukkust. á dag, umfram 8 klst. 3.675 kr. 3.859 kr.
Gjald á mánuði fyrir morgunhressingu 1.524 kr.
Gjald á mánuði, fyrir hádegismat 4.335 kr.
Gjald á mánuði, fyrir síðdegishressingu 1.524 kr.
Sýnishorn; 8 klst. dvöl á dag í mánuð, með fæði 30.021 kr. 31.153 kr.
Aðrir gjaldaliðir verða óbreyttir."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga um gjald fyrir hádegismat í grunnskólum:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gjald fyrir hádegismat í grunnskólum verði sem hér segir:
Frá 1.2.2012 375 kr.á hverja máltíð frá 1.8.2012 400 kr. á hverja máltíð"

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð breytingartillaga á fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2012:
"Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á fjárhagsáætlun 2012

Aukin fjárheimild á málaflokk 02 um 20.043 þús.kr vegna innri leigu á eignum sem keyptar verða af Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs á árinu 2011.

Aukin fjárheimild á málaflokk 04 um 103.448 þús. kr. vegna leiðréttingu á innri leigu og afnot skólanna af íþróttamannvirkjum.

Tekjur vegna afnota á íþróttahúsum 138.424 þús.kr
Gjöld vegna afnota af íþróttamannvirkjum ( 221.125) þús.kr
Innri leiga og húsleiga ( 21.436) þús.kr
Annar kostnaður- lækkaður 689 þús.kr.

Aukin fjárheimild á málaflokk 05 fyrir 4.687 þús kr. vegna leiðréttingu á innri leigu.

Lækkun á fjárheimild á málaflokk 06 fyirr 119.642 þús.kr. vegna leiðréttinga á innri leigu og afnot skóla á íþróttamannvirkjum.

Tekjur vegna afnota skóla 120.461 þús kr.
Innri leiga ( 819) þús.kr

Unnið er að endurskoðun á þátttöku stofnana í rekstri íþróttamannvirkja en niðurstaða liggur enn ekki fyrir og því er notast við sömu forsendur og undanfarin ár. Breyting á þessum liðum hafa ekki áhrif á heildarafkomu bæjarins þar sem um er að ræða innri viðskipti innan aðalsjóðs.

Aukin fjárheimild á málaflokk 13 fyrir 13.000 þús.kr. vegna sérstaks markaðsátaks við sölu atvinnulóða.

Eignasjóður:

Tekjur eignasjóðs hækka um 21.015 þús.kr. vegna breytingu og leiðréttingu á innri leigu. Afskriftir hækka um tæpar 2 milljónir krónur og fjármagnsliðir hækka um rúmar 11 milljórnir krónur.

Eignir eignasjóðs hækka um 195 millj.kr vegna kaupa á fasteignum og langtímaskuldir hækka um 204 millj.kr.

Samstæða :

Áhrif breytinganna eru að heildarafkoma samstæðunnar lækkar um 28 milljón króna, eignir hækka um 191 millj.kr, skuldir hækka um 219 millj.kr og veltufé frá rekstri lækkar um rúmar 15,7 millj.kr."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga að afgreiðslu á fjárhagsáætlun 2012:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir fjárhagsáætlun ársins 2012 fyrir Bæjarsjóð Hafnarfjarðar og stofnanir hans sem lögð var fram 7. desember 2011 með áorðnum breytingum sbr. samþykkta breytingartillögu. Helstu niðurstöður fyrir A og B hluta eru eftirfarandi í þús.kr.:
Rekstrarreikningur:

Tekjur ............................................. 15.970.797
Gjöld............................................... (12.940.163)
Afskriftir.......................................... (873.320)
Fjármagnsliðir................................. (2.028.648)
Rekstrarniðurstaða ......................... 128.666


Efnahagsreikningur:
Eignir............................................. 44.987.484
Eigið fé ......................................... 7.442.739
Skuldir .......................................... 37.544.745

Sjóðstreymi:
Veltufé frá rekstri.......................... 1.852.514
Fjárfestingar.................................. (190.000)
Ný lán /lánsfjárheimild.................. 0
Greiddar afborganir og lán ............. (1.383.614)"

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum. 5 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun aðalsjóðs fyrir árið 2012 var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun eignasjóðs fyrir árið 2012 vegna var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun GN-eigna ehf. fyrir árið 2012 var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun A-hluta fyrir árið 2012 var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarhafnar fyrir árið 2012 var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Fráveitu Hafnarfjarðar fyrir árið 2012 var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Vatnsveitu Hafnarfjarðar fyrir árið 2012 var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Húsnæðisskrifstofu fyrir árið 2012 var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Samanteknar fjárhagsáætlanir A- og B-hluta 2012 voru bornar undir atkvæði og samþykktar með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Framlögð tillaga vegna lánasamnings við Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir hér með að taka eftirfarandi lán samtals að fjárhæð 196.690.000 krónur hjá Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs, kt. 510211-0140, með veði í eignum sem sveitarfélagið er að kaupa af sama aðila:
Lán að fjárhæð kr. 16.900.000 með veð í fasteigninni Hnotuberg 19, fastanúmer 207-5754;
Lán að fjárhæð kr. 21.990.000 með veð í fasteigninni Bæjarhraun 2, fastanúmer 207-4239;
Lán að fjárhæð kr. 59.400.000 með veði í fasteigninni Blikaás 1, fastanúmer 224-4735;
Lán að fjárhæð kr. 34.700.000 með veði í fasteigninni Smárahvammur 3, fastanúmer 207-9050;
Lán að fjárhæð kr. 63.700.000 með veði í fasteigninni Berjahlíð 2, fastanúmer 223-9065.

Lánin eru til 25 ára og í samræmi við skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa framangreindar eignir en lánið er tekið til að fjármagna kaup þeirra.
Jafnframt er Guðmundi Rúnari Árnasyni, kt. 010358-4779, bæjarstjóra veitt fullt og ótakmarkað umboð f.h. Hafnarfjarðarbæjar til þess að undirrita lánssamninga við Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs, sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari."

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 11 samhljóða atkvæðum.

Gert stutt fundarhlé.

Valdimar Svavarsson tók til máls og lagði fram f.h. fulltrúa Sjálfstæðisflokks svohljóðandi bókun:

"Skattar og gjöld hækkuð til að ná endum saman

Fjárhagsstaðan og fjármálastjórn meirihlutans er nú ekki betri en svo að brotið er það grundvallarviðmið sem verið hefur síðustu ár að hækka ekki krónutölu fasteignagjalda milli ára. Að þessu sinn hækkar bæði stofn fasteignagjalda og álagningarprósenta þannig að álagning fasteignagjalda hækkar á íbúðarhúsnæði hækkar um 150 milljónir milli ára í krónum talið eða um tæp 20.000 að meðaltali á íbúð í Hafnarfirði. Að auki hækkar holræsagjald úr 0,16% í 0,185%, sorphirðu og sorpeyðingargjald úr 17.000 kr. í 19.300 kr. Niðurgreiðsla á máltíðum í grunnskólum og leikskólum minnkar og gjaldskrár hækka í flestum stofnunum bæjarins.
Í áætluninni er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði um 1900 milljónir árið 2012 og að fjárfestingar lækki milli ára og verði einungis 190 milljónir á árinu 2012. Samt sem áður þá er gengið á handbært fé og ef horft er til síðustu ára þá hefur bæjarsjóður aldrei náð þeirri framlegð og því veltufé útúr rekstrinum sem þarf til þess að þessi áætlun gangi eftir. Veltufé frá rekstri var t.d. einungis 901 milljón árið 2010.
Líklegt verður að telja að frekari hagræðingu þurfi ef meirihlutinn ætlar að halda þessari áætlun því reynslan hefur sýnt það síðustu árin að áætlanir hafa ekki staðist. Meirihlutinn er aftur á móti að reyna að telja bæjarbúum trú um að búið sé að hagræða nóg og að frábær árangur hafi náðst t.d. í fræðslumálum. Við vitum að laun hafa hækkað á árinu en ef við horfum á annan rekstrarkostnað sviðsins þá var hann áætlaður 2750 milljónir í áætlun fyrir árið 2011 en skv. endurskoðaðri áætlun er hann 3003 milljónir og skv. áætlun fyrir 2012 nemur hann 3083 milljónum. Þarna munar 330 milljónum sem er ekki í samræmi við orð meirihlutans um að á árinu sem er að líða hafi náðst hagræðing í málaflokknum. Málaflokknum sem tilvonandi bæjarstjóri meirihlutans, bæjarfulltrúi Vinstri grænna hefur stýrt frá síðustu kosningum án þess að áætlanir hafi nokkurn tíma staðist.

"Jafnvægi í rekstri - Aukin framlegð - Niðurgreiðsla skulda" eru slagorð áætlunar meirihlutans. Jafnvægið í rekstri er ekki meira en svo að hækka þarf gjöld til að ná endum saman og að auki er gengið á handbært fé milli ára til að eiga fyrir afborgunum, vöxtum og fjárfestingum. Að auki sést að það eina sem hefur bjargað árinu sem nú er að líða eru auknar tekjur í formi útsvars því ef horft er framhjá endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2011 og einungis horft á upphaflega áætlun og hún borin saman við endurskoðaða áætlun þá sést að tekjur hækkuðu um 1070 milljónir á árinu en gjöld um 1200 milljónir, auk þess sem fjármagnsgjöld voru líka 800 milljónum hærri en áætlað var. Það virðist því ekkert benda til þess að jafnvægi sé að nást og allavega virðist framlegð ekki vera að aukast á árinu 2011.

Vanskilin munu kosta okkur um 1000 milljónir

Við það að lán bæjarins hjá Depla fóru í vanskil í vor féllu samstundis önnur lán sem bærinn skuldaði Depla uppá 8,5 milljarða og á einum degi jókst vandinn við endurfjármögnun úr því að leysa endurfjármögnun uppá 4,3 milljarða í það að bærinn þurfti að leysa vanda uppá tæpa 13 milljarða. Bankinn gjaldfelldi strax lán sem voru á gjalddaga í byrjun árs 2012 og það sem kannski var enn verra að hann gjaldfeldi hagstæð lán sem voru á gjalddaga árið 2018 uppá um 3 milljarða. Það að þessi lán voru gjaldfelld hefur nú þegar kostað okkur hundruð milljóna í beinum fjárútlátum auk þess að gera endurfjármögnunina mun erfiðari og óhagstæðari. Það eitt að öll lánin voru gjaldfelld mun kosta okkur um 1000 milljónir aukalega í vaxtakostnað því endurfjármögnunin er á mun hærri vöxtum. 1000 milljónir samsvara rekstri 10 leikskóla á ári.


Óhagstæður samningur um endurfjármögnun

Þann 7. desember samþykkti meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna samning við skilanefnd Depfa bankans um framlengingu lána, breytt kjör og skilmála. Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn greiddu atkvæði gegn samningnum, samning sem gárungarnir kalla orðið ?HAFSAVE? . Ástæða þess að sjálfstæðismenn samþykktu hann ekki er ekki eingöngu sú staðreynd að mikil leynd er yfir samningnum og að helstu atriðum hans hefur verið haldið leyndum fyrir bæjarbúum heldur það að hann er einfaldlega ekki góður og hann er í raun bara skammtímalausn bæjarfélags sem komið var upp að vegg. Bæjarstjóri hefur keppst við að segja hvað honum þyki vont að samningurinn sé trúnaðarmál en hefur á sama tíma uppljóstrað helstu atriðum hans í nokkrum viðtölum. Hann hefur sagt að hann sé til fjögurra ára með vaxtagreiðslum og afborgunum á þriggja mánaða fresti, ásættanlegum vöxtum og að lóðir séu meðal annars veðsettar. En hverju er hægt að bæta við þetta og af hverju er samningurinn ekki góður:
Í fyrsta lagi þá voru lánin sem verið er að framlengja við Depfa án veða. Hvað þýðir það á mannamáli? Bankinn á veð í öllum lóðum og jafnvel öðrum eignum bæjarins þar til lánið er greitt upp og mun því ekki aflétta veði á einstökum lóðum nema greitt sé inná lánin. Það að veðsetja eignir er fyrst og fremst réttlætanlegt ef það tryggir mun betri vexti, léttari greiðslubyrði , meiri sveigjanleika í afborgunum og eða lengri endurgreiðslutíma.
Í öðru lagi þá eru lánin einungis til fjögurra ára og því í raun um að ræða frestun fram yfir kosningar sem þýðir að öllum líkindum að við sjálfstæðismenn munum lenda í því að leysa þetta mál eftir kosningar. Það segir líka að varla er réttlætanlegt að veita frekari veð eins og gert var vegna þess hve tíminn er stuttur og óvissan að þeim tíma liðnum mikil.
Í þriðja lagi þá eru það vextirnir. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir 2012 þá er ljóst að fjármagnskostnaður er verulegur svo ljóst er að ekki eru vextirnir lægri en áður. Samt er verið að gefa aðgang að veðum og yfirleitt er það forsenda að vextir séu í það minnsta ekki hærri ef auka veð eða tryggingar eru veittar.
Í fjórða lagi er það greiðslubyrðin. Í fjárhagsáætlun má sjá að greiðslubyrði lána bæjarins er verulega þung og ljóst að afborganir af langtímalánum bæjarins á næsta ári eru um 1380 milljónir en fara í um 1600 milljónir árið 2013. Að auki þá er gert ráð fyrir að fjármagnskostnaður verði um 2 milljarðar á næsta ári þannig að ljóst er að ekkert má útaf bregða á næstunni.
Okkar niðurstaða er því sú að samningurinn er ekki góður og ítrekum við að skoða hefði átt málið heildstætt. Þessi samningur hefur einnig grundvallaráhrif á fjárhag bæjarsjóðs næstu ár og sjást þess merki strax í fjárhagsáætlun 2012 þar sem greiðslubyrði lána er mjög há og ekkert má útaf bregða. Það er óásættanlegt að ekki liggi fyrir 3ja ára áætlun fyrir árin 2013-2015 samhliða framlagningu þessarar áætlunar því ljóst er að greiðslu- og vaxtabyrgði verður gríðarleg á næstu árum.

Tifandi tímasprengjur

Það veldur okkur sjálfstæðismönnum miklum áhyggjum að í þessari áætlun er í raun enn og aftur frestað að taka á vanda sem hangir yfir bæjarsjóði í formi skuldbindinga sem þarf að greiða, framkvæmda sem nauðsynlegar eru og viðhalds sem nauðsynlegt er að sinna en hefur setið á hakanum í mörg ár.
Umhverfis- og framkvæmdasvið tók í aðdraganda fjárhagsáætlunarinnar saman lista yfir framkvæmdir sem bærinn þarf að ráðast í, annaðhvort til þess að bjarga verðmætum eða til þessa að uppfylla og klára verk sem hann hefur skuldbundið sig til. Samkvæmt þessum lista þá þarf nauðsynlega að framkvæma fyrir um 1600 milljónir á næstunni til þess að uppfylla ofangreint. Er þar um að ræða frágang gatna, stíga, grænna svæða og annan frágang í nýjum hverfum. Frágang íþróttamannvirkja sem hafnar hafa verið framkvæmdir við og standa undir skemmdum auk annarra framkvæmda sem þarf að klára og ráðast í til að sinna þjónustu við bæjarbúa. Það er ljóst að þær 190 milljónir sem áætlaðar eru í framkvæmdir árið 2012 duga skammt og því mun vandinn bara aukast á næstunni og aukinn hætta á að framkvæmdaþörfin og kostnaðurinn við þær aukist. Umhverfis og framkvæmdaráð áætlaði að lágmarks fjárhæð sem þyrfti á árinu 2012 í þessi verkefni væri um 350 milljónir en meirihlutinn skar þá upphæð niður um 160 milljónir til að ná saman endum. Til að átta sig á stærðargráðunni þá samsvarar framkvæmdaþörfin, 1600 milljónir, öllu því veltufé frá rekstri sem bærinn áætlar að fá á árinu 2011.
Viðhald fasteigna, gatna, og annarra eigna bæjarins hefur að sama skapi verið í algjöru lágmarki síðustu ár og er engin breyting á því milli ára. Umhverfis- og framkvæmdasvið áætlaði að það þyrfti um 45 milljónum meira í viðhald en áætlunin gerir ráð fyrir.
Samanlagt var því skorið niður um rúmar 205 milljónir frá því sem umhverfis- og framkvæmdasvið taldi brýnt í þessum málaflokki til þess að ná endum saman, þrátt fyrir að skattheimta í gegnum fasteignagjöld hafi verið aukin um tæpar 100 milljónir milli ára.
Fyrir utan þetta þá er ennþá ógreiddur fjármagnstekjuskattur til ríkisins sem stendur í milli 700 og 800 milljónum. Þetta eru gjöld sem einstaklingar og fyrirtæki komast ekki hjá að greiða.

1500 milljónir framúr áætlunum síðustu 2 ár

Við sjálfstæðismenn höfum ítrekað gagnrýnt það að fjárhagsáætlanir bæjarins hafa ekki staðist síðustu árin og ekki sé hægt að tryggja trúverðugleika meðal fjárfesta og fjármögnunaraðila meðan svo er. Við höfum sérstaklega bent á að það sem stjórnendur bæjarins geta fyrst og fremst haft stjórn á er kostnaðurinn því erfiðara getur reynst að áætla tekjur. Árið 2010 og fyrrihluta ársins 2011 þá hefur meirihlutinn farið rúmlega 1500 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. 1500 milljónir sem hefðu komið sér mjög vel í þeim endurfjármögnunarviðræðum sem bærinn hefur staðið í síðasta árið.

Við völd í 21,5 af síðustu 26 árum

Samfylkingin hefur verið í meirihluta meira og minna frá því árið 1986. Það er staðreynd. Flokkurinn hefur líka verið í ríkisstjórn frá 2007 og virtust ekki gera mikið til að afstýra hruninu. Það er því alltaf jafn hlægilegt þegar Samfylkingin kennir Sjálfstæðisflokknum um allt sem farið hefur úrskeiðis í Hafnarfirði. Sérstaklega þegar þeir segja að það sé allt einkaframkvæmdarsamningum að kenna. Heildarskuldbindingar bæjarins vegna leigu í dag eru um 1780 milljónir og eru fleiri samningar en einkasamningar þar inní. Að auki keypti bærinn eignir útúr einkaframkvæmdarsamningum fyrir nokkrum árum uppá 3 milljarða og því eru heildar skuldbindingar vegna þessa um 4,7 milljarðar. Og gleymum ekki að þetta voru og eru samningar um skólahúsnæði, íþróttahús og leikskóla sem hefur verið vel við haldið af eigendum. Það er því alltaf jafn hlægilegt þegar því er haldið fram að þessar upphæðir séu upphaf allra vandræðanna í fjármálum bæjarins. Sérstaklega þegar heildar skuldir og skuldbindingar bæjarins eru um 37.325 milljónir. Þá gleymir Samfylkingin því að á árinu 2008 einu saman var framkvæmt fyrir um 7 milljarða og þar af kostaði ein sundlaug um 3 milljarða. Þessi málflutningur dæmir sig sjálfur og sýnir að meirihlutinn þráast enn við að viðurkenna vandann.
Sjálfstæðismenn þreytast heldur ekki á því að rifja upp þegar fulltrúar flokksins í bæjarstjórn lögðu fram tillögu um það að selja bréf bæjarins í HS-Orku fyrir um 7 milljarða og greiða upp erlendar skuldir fyrir söluandvirðið. Samfylkingin samþykkti þetta ekki og missti þannig af tækifæri sem hefði þýtt að skuldir bæjarins væru vel á annan tug milljarða lægri en þær eru í dag.

Eflum atvinnulífið - nýtum auðlindir - virkjum kraftinn

Leiðin út úr þeim vanda sem bærinn er nú í er fyrst og fremst sú að halda áfram því að hagræða í rekstri, hvetja atvinnulífið til dáða og styðja við það eftir fremsta megni. Við þurfum jafnframt að nýta þær auðlindir sem bærinn á til tekjuöflunar og við verðum að virkja kraftinn í þeim einstaklingum sem búa í bænum.
Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa lagt fram tillögur og ýtt vinnu af stað varðandi stór hagsmunamál eins og framtíð Álversins í Straumsvík, átak í atvinnumálum, mati á tækifærum til sölu lóða bæjarins og nýtingu jarðvarma í Krísuvík. Þetta eru allt mál sem koma til með að móta framtíð bæjarins, skapa okkur tekjur og vonandi þannig að koma okkur í gegnum þann háa skafl sem við Hafnfirðingar hafa verið fastir í of lengi. Við munum halda áfram að vinna að framfaramálum og málum sem auka hagsæld og hag Hafnfirðinga."
Valdimar Svavarsson (sign), Rósa Guðbjartsdóttir (sign), Kristinn Andersen (sign),
Geir Jónsson (sign), Helga Ingólfsdóttir (sign).

Gunnar Axel Axelsson tók til máls og lagði fram f.h. fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna svohljóðandi bókun:

"JAFNVÆGI Í REKSTRI, AUKIN FRAMLEGÐ OG NIÐURGREIÐSLA SKULDA

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2012 felur í sér sterk skilaboð um árangur. Hún byggir á árangri í fjármálastjórn og því að tekist hefur að framfylgja metnaðarfullri fjárhagsáætun ársins 2011. Með fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 er staðfest að náðst hefur jafnvægi í rekstri Hafnarfjarðarbæjar, án þess að gripið hafi verið til frekari hagræðingar. Jafnframt og samhliða hafa erlendar skuldir bæjarsjóðs verið endurfjármagnaðar og fyrir liggur skýr áætlun um niðurgreiðslu skulda á næstu árum.
Með því að jafnvægi hefur náðst í rekstrinum og því að lögð hefur verið fram áætlun um niðurgreiðslu skulda, hefur verið lagður grunnur að nýrri sókn í Hafnarfirði.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á árinu 2011 og áætlun ársins 2012 byggir á, sýna að náðst hefur góð viðspyrna til framtíðar. Alger viðsnúningur hefur orðið frá efnahagshruninu, sem hafði jafnvel enn meiri áhrif í Hafnarfirði en víða annars staðar, vegna hraðrar uppbyggingar í bæði grunngerð og þjónustu við íbúa árin þar á undan.
Meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna hefur lagt höfuðáherslu á að standa við félagslegar og fjárhagslegar skuldbindinga sínar. Hvort tveggja hefur gengið eftir og með því jafnvægi sem hefur náðst og endurfjármögnun erlendra lána, hefur verið lagður grunnur að sókn til framtíðar. Með ábyrgri fjármálastjórn og góðri samvinnu við bæði íbúa og starfsmenn bæjarins hefur þessu mikilvæga takmarki verið náð, en þó er ljóst að áfram þarf að gæta aðhalds á næstu árum.
Helstu lykilstærðir fjárhagsáætlunar eru eftirfarandi:
Rekstrarniðurstaða A og B hluta fyrir árið 2012 er jákvæð um 128,6 millj.kr. og rekstrarniðurstaða A hlutans 13,9 milljónir króna.

Heildareignir samstæðunnar eru áætlaðar um 44,9 milljarðar kr. í árslok 2012 og skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar um 37,5 milljarðar kr. og eigið fé er 7,45 milljarðar kr.

Verðmæti lóða að fjárhæð 11 milljarða kr. er ekki bókfært í bókum bæjarins en verðmæti þeirra vega upp á móti langtímalánum bæjarins og lækka þar með áhættuna sem felst í skuldsetningunni.

Áætlað veltufé frá rekstri A hluta er um 1,4 milljarður kr. og samantekið fyrir A og B hluta 1,9 milljarðar kr. sem er rúmlega 12% af heildartekjum.

Á undanförnum árum hefur verið dregið úr framkvæmdum og fjárfestingum en í áætlun ársins 2012 er gert ráð fyrir 190 millj.kr til nýframkvæmda. Af varúðarástæðum er ekki er gert ráð fyrir neinni lóðarsölu í áætlun fyrir árið 2012, þó ötullega verði unnið að markaðssetningu lóðanna.

Á árinu 2012 er ráðgert að greiða niður lán að fjárhæð 1,4 millj.kr.

Útsvarhlutfall á árinu 2012 verður 14,48%. Áætlað er að brúttó útsvarstekjur nemi um 10,6 milljarðar kr. en af þeirri fjárhæð munu 1,3 milljarðar kr. ganga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eða um 1,72% þannig að nettó útsvarstekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar um 9.350 millj.kr.
Stofn til útreiknings fasteignagjalda sem innheimt eru á árinu 2012 miðast við fasteignamat eigna sem birt var í sumarbyrjun 2011.
Gert er ráð fyrir hóflegum hækkunum og breytingum á gjaldskrá sveitarfélagsins. Í flestum tilfellum mun hækkunin aðeins fylgja verðlagsbreytingum og hækkun aðfanga og launa.

Nýgerðir kjarasamningar þýða verulegan kostnaðarauka fyrir Hafnarfjarðarbæ og byggir launaáætlun ársins á þeim samningum.

Á árinu 2011 var gripið til fjölþættra aðgerða til að draga úr kostnaði í rekstri. Þær fólust meðal annars í sameiningu stofnana, breyttu starfsfyrirkomulag og styttri opnunartíma. Sérstök ástæða er til að þakka starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar fyrir þeirra hlut í þeim árangri sem náðst hefur. Því miður hefur þó ekki verið komist hjá uppsögnum starfsfólks í nokkrum mæli við þessa hagræðingu.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 er ekki gert ráð fyrir því að grípa þurfi til sambærilegra aðgerða á komandi ári.
Stærsta einstaka viðfangsefni stjórnenda Hafnarfjarðarbæjar á árinu 2011 var endurfjármögnun erlendra lána upp á um 13 milljarða króna. Þetta hefur tekið langan tíma og kostað mikla vinnu, ekki síst vegna erfiðra aðstæðna á lánamörkuðum. Erlendir lánamarkaðir hafa að mestu verið lokaðir innlendum aðilum í kjölfar hrunsins og hafa aðstæður á innlendum mörkuðum verið afar erfiðar.
Sá endurfjármögnunarsamningur sem gengið er frá við DEPFA/FMS í desember 2011, veldur straumhvörfum í rekstri og stöðu Hafnarfjarðarbæjar. Saman leggja fjárhagsáætlun ársins 2012 og endurfjármögnunarsamningurinn grunn að því mikilvæga jafnvægi sem nú er náð í rekstri bæjarsjóðs.
Með því jafnvægi sem hefur skapast, niðurgreiðslu skulda og stóraukinni framlegð, skapast viðspyrna sem leggur grunn að traustri framtíð bæjarins. Áfram er þó nauðsynlegt að gæta fyllsta aðhalds í rekstri, til að styrkja enn frekar þennan árangur.
Með þetta i farteskinu, auðlindirnar sem Hafnarfjarðarbær býr yfir að ógleymdu starfsfólki og íbúunum sjálfum er óhætt að horfa bjartsýn til framtíðar. Það er bjart framundan í Hafnarfirði, þótt stormurinn hafi verið í fangið um stund."
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign), Margrét Gauja Magnúsdóttir (sign), Gunnar Axel Axelsson (sign),
Guðmundur Rúnar Árnason (sign), Eyjólfur Sæmundsson (sign), Sigríður Björk Jónsdóttir (sign).