Forseti bæjarstjórnar bar upp framlagða tillögu um lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem bæjarráð vísaði til bæjarstjórnar á fundi sínum þann 9. febrúar sl.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 6 atkvæðum framlagða tillögu. 5 sátu hjá.
Valdimar Svavarsson tók til máls og lagði fram f.h. fulltrúa Sjálfstæðisflokks svohljóðandi bókun:
"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á að greiðslubyrði bæjarins, kjör og skilmálar við endurfjármögnun láns frá Depfa eru bænum verulega íþyngjandi og ljóst að án frekari aðgerða verður erfitt fyrir bæinn að ná endum saman. Það lán sem bærinn stefnir nú á að taka er hugsað til að létta á og framlengja þeim greiðslum sem greiða á Lánasjóð sveitarfélaga á árinu. Aftur á móti sýnir þessi lántaka að reksturinn er varla að skila nægum afgangi til að standa undir þeim afborgunum sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun sem samþykkt var fyrir einungis tveimur mánuðum."
Rétt er líka að benda á að enn liggur ekki fyrir þriggja ára áætlun bæjarsjóðs sem venja hefur verið að afgreiða samhliða fjárhagsáætlun í desember. Þegar spurt hefur verið um ástæður þessarar tafar hafa fjármálastjóri og bæjarstjóri svarað því til að enn sé verið að ná áætluninni saman. Þetta þýðir einfaldlega að tekjur standa enn ekki undir útgjöldum í áætlunum næstu ára og því ljóst að enn þarf að lækka kostnað eða hækka skatta til að ná endum saman. Þetta er því staðan þrátt fyrir yfirlýsingar Samfylkingar og Vinstri grænna um að búið sé að koma böndum á rekstur bæjarins og ekki verði af frekari niðurskurði. Það þýðir þá væntanlega að meirihlutinn ætlar að hækka enn og aftur álögur á bæjarbúa á næstunni til þess að ná að standa við skuldbindingar bæjarins við Depfa.
Bæjarfulltúar Sjálfstæðisflokksins hafa áhyggjur af hvort bæjarfulltrúi Vinstri grænna, og tilvonandi bæjarstjóri, geri sér grein fyrir þeirri stöðu sem bærinn er kominn í og hvað væntanlegur bæjarstjóri ætlar að taka til bragðs við að snúa þessari þróun við.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka jafnframt þá skoðun sína, eftir að hafa farið yfir samninginn við Depfa, að hann sé Hafnfirðingum afar óhagstæður og ekki komið til móts við Hafnarfjarðarbæ í erfiðri stöðu, eins og dæmi eru um annars staðar. Lagt er til að samningar verði án tafar teknir upp aftur til að ná viðunandi niðurstöðu, sem geri bæjarfélaginu kleift að vinna sig út úr þeirri stöðu sem því hefur verið komið í."
Valdimar Svavarsson (sign), Rósa Guðbjartsdóttir (sign),Kristinn Andersen (sign),
Geir Jónsson (sign), Ólafur Ingi Tómasson (sign).
Guðmundur Rúnar Árnason tók til máls og lagði fram f.h. fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna svohljóðandi bókun:
"Þessi bókun undirstrikar enn og aftur að það hugnast bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins illa að vel gangi að vinna úr þeirri stöðu sem orsakaðist af efnahagshruninu 2008. Þráhyggja þeirra varðandi lánasamninginn við Depfa kallar á óháð mat á þeim samningi. Sjálfstæðisflokkurinn leggur engar efnislegar tillögur fram frekar en fyrri daginn, heldur kastar fram óábyrgum, hálfkveðnum vísum sem ekki eru einu sinni svaraverðar."
Guðmundur Rúnar Árnason (sign), Margrét Gauja Magnúsdóttir (sign), Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign),
Gunnar Axel Axelsson (sign), Eyjólfur Sæmundsson (sign), Sigríður Björk Jónsdóttir (sign).