Hjúkrunarheimili Hádegisskarði 1, undirbúningur
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 10 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3343
21. febrúar, 2013
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram eftirfandi tillaga starfshóps bæjarráðs skv. samþykkt bæjarráðs 20. september 2012.
Með tilvísun í meðfylgjandi áætlun dagsettri 20.02.2013 leggur starfshópurinn til að bjóða út byggingu hjúkrunarheimils við Hádegisskarð í Hafnarfirði. Útboð mannvirkja (bygging og lóð) verði með hefðbundnum hætti þ.e. hönnun boðin út sér og í framhaldi af því mannvirkin sjálf. Kappkostað verði að byggingin uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru til nútíma hjúkrunarheimila í dag. Ennfremur að tekið verði tilliti til kostnaðarsjónarmiða bæði er varðar bygginguna sjálfa og rekstur innan hennar m.t.t. þeirrar þjónustu sem íbúum hjúkrunarheimilisins verður veitt. Skipuð verði verkefnastjórn sem sjái um ofangreind útboð og eftirfylgni með þeim. Horft verði m.a. til samnings um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í Hafnarfjarðarkaupstaði sem undirritaður var 3. maí 2010. Í þeim samningi kemur fram að um sé að ræða hjúkrunarheimili fyrir 60 íbúa, við hönnun skal hinsvegar líka taka tillit til hugsanlegar stækkunar hjúkrunarheimilisins í framtíðinni og þeirrar stoðþjónustu sem tengst gæti starfsemi þess í byrjun eða í náinni framtíð. Samkvæmt fyrrgreindum samningi um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í Hafnarfjarðarkaupstaði sem undirritaður var 3. maí 2010, skal Hafnarfjarðarbær gera sérstakan samning við velferðarráðuneytið um rekstur hjúkrunarheimilisins. Hafnarfjarðarbæ er heimilt að fela þriðja aðila að veita þjónustu á grundvelli þess samnings, enda liggi fyrir staðfesting velferðarráðuneytisins, en ábyrgð sveitarfélagsins á samningsskyldum við ráðuneytið verður ekki framseld. Leggur starfshópurinn til að verkefnastjórn verði falið að undirbúa rekstur heimilisins og gera tillögu þar að lútandi til bæjarráðs. Skal verkefnastjórnin meðal annars skoða hvort grundvöllur sé til samstarfs við aðra framkvæmdaraðila sambærilegrar þjónustu, svo sem önnur sveitarfélög.
Svar

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu starfshópsins og felur bæjarstjóra að leita tilnefninga í verkefnastjórn um byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis við Hádegisskarðs sbr. fyrirliggjandi drög að erindisbréfi og undirbúa störf verkefnastjórnar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka eftirfarandi:
"Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja fram komna tillögu starfshóps, um að stofnuð verði verkefnastjórn sem undirbúi útboðsferli vegna byggingar nýs hjúkrunarheimilis, en gert er ráð fyrir að eftirfarandi atriði liggi jafnframt fyrir hið fyrsta:

1) Staðið verði við fyrri samþykktir skýrslu starfshóps frá 2006, og ítrekun starfshóps fjölskylduráðs frá 2012, um áframhaldandi þróun og uppbyggingu Sólvangssvæðisins, þar sem verði framtíð miðstöðvar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði. Samið verði við ríkisvaldið um að þetta gangi eftir.

2) Gerð verði kostnaðargreining og lagðar verði fram rekstrarlegar forsendur fjárfestinga og stoðþjónustu sem munu tengjast nýju hjúkrunarheimili.

3) Gerð verði kostnaðar- og fjárfestingaráætlun vegna nauðsynlegra vegtenginga og stofnbrautar á svæðinu við hjúkrunarheimilið.

4) Fyrir liggi áætlanir um hvernig bæjarfélagið muni fjármagna hlut sinn í uppbyggingu og rekstri framangreindra atriða."

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram eftirfarandi bókun:
"Fyrir liggur skýr stefnumörkun bæjarfélagsins um framtíðaruppbyggingu á sviði öldrunarmála og hefur um hana ríkt þverpólitísk samstaða og sátt. Var sú stefnumörkun yfirfarin af starfshópi fjölskylduráðs sem skilaði samantekt sinni í júní 2012. Í henni kemur fram að gert sé ráð fyrir að í tengslum við byggingu nýs hjúkrunarheimilis verði sú aðstaða sem til staðar er á Sólvangi, með tengingu við starfsemi heilsugæslunnar sem er í samtengdu húsnæði og nærliggjandi þjónustuíbúðum aldraðra, nýtt til uppbyggingar á miðstöð öldrunarþjónustu, s.s. á sviði dagvistunar, hvíldarinnlagna, endurhæfingar, sameiginlegri stjórnstöð heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu og síðast en ekki síst upplýsinga- og ráðgjafaþjónustu fyrir aldraða."