Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
Bæjarráð samþykkir að hönnunarferli vegna byggingar hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð haldi áfram á næstu vikum í umsjón fasteignafélagsins. Bæjarstjórn samþykkti 18. júní sl. að farið yrði í hagkvæmniúttekt um staðsetningu hjúkrunarheimilis. Niðurstöður þeirrar úttektar verða birtar um miðjan september. Þar sem umboð verkefnastjórnar féll niður við kosningarnar í vor mun bæjarráð hafa umsjón með verkefninu þar til ný verkefnastjórn um byggingu hjúkrunarheimilis verður skipuð að lokinni hagkvæmniúttekt. Bæjarráð þakkar fráfarandi verkefnastjórn störf hennar og óskar eftir kynningu á þeim á næsta fundi ráðsins.
Fulltrúar Samfylkingar og áheyrnarfulltrúi VG í bæjarráði ítreka þá afstöðu sem sett var fram í bæjarstjórn 18. júní sl. og lýsa yfir vonbrigðum sínum með að eitt af fyrstu verkum nýs meirihluta sé að setja uppbyggingu á hjúkrunarheimili í Hafnarfirði í uppnám og telja að órökstudd tillaga um hagskvæmniúttekt sé leið til að stöðva framgang verkefnisins án þess að gera um það formlega samþykkt. Með þessu er í raun rofin sú þverpólitíska sátt og samstaða sem verið hefur um þetta mál allt frá árinu 2006 og sköpuð algjör óvissa um afdrif verkefnisins og stöðu og ábyrgð sveitarfélagsins vegna þeirra samninga sem í gildi eru um framkvæmd þess.
Í gildi er samningur milli Hafnarfjarðarbæjar og velferðarráðuneytisins um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð. Upphafleg áætluð verklok voru í árslok 2012 en eins og kemur fram í svari Hafnarfjarðarbæjar til ráðuneytisins dags. 11. mars 2013 urðu óviðráðanlegar ástæður þess valdandi að verkið tafðist í upphafi en samþykkt verkáætlun gerir ráð fyrir að nýtt heimili taki til starfa í árslok 2015. Í erindi velferðarráðuneytisins til Hafnarfjarðarbæjar dags. 4. mars 2013 kemur skýrt fram að mikill vilji sé hjá öðrum sveitarfélögum til að taka þátt í verkefninu og ráðuneytið líti svo á að ekki sé hægt að verða við óskum þeirra nema ef t.a.m. Hafnarfjarðarbær einhverra hluta vegna fellur frá þátttöku sinni.
Fyrrnefndur samningur er hluti af sérstöku átaksverkefni sem íslensk stjórnvöld hleyptu af stokkunum á árunum 2009-2010 og nefnist Leiguleiðin. Markmið verkefnisins var að bæta aðbúnað aldraðra á Íslandi, taka úr notkun fjölbýli og fjölga einbýlum sem uppfylla viðmið velferðarráðuneytisins um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Nokkur sveitarfélög sem áttu sameiginlega brýna þörf fyrir úrbætur voru valin til þátttöku í verkefninu, m.a. Akureyrarbær, Garðabær og Hafnarfjörður. Í október 2012 fluttu 45 aldraðir íbúar úr afar óhentugu húsnæði í Kjarnalundi og Bakkahlíð í Lögmannshlíð, nýtt og glæsilegt hjúkrunarheimili á Akureyri og sl. haust fluttu íbúar sem áður bjuggu á Vífilstaðaspítalanum í nýtt heimili í Sjálandi í Garðabæ. Þátttaka Hafnarfjarðarbæjar í verkefninu miðar að því að leysa af hólmi húsnæði Sólvangs sem hefur gegnt lykilhlutverki í hjúkrun aldraðra í Hafnarfirði frá árinu 1953 en uppfyllir ekki lengur nútímakröfur.
Arkitektahönnun nýja heimilisins er nú að mestu lokið, verkfræðihönnun er langt komin og gerir gildandi verkáætlun ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fljótlega og nýtt heimili taki til starfa í lok næsta árs. Sú verkefnastjórn sem hefur borið ábyrgð á verkefninu og framkvæmd þess, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn auk fulltrúa Félags eldri borgara í Hafnarfirði og Öldungaráðs, hefur látið framkvæma margþættar greiningar á forsendum verkefnisins, byggingu og rekstri nýs hjúkrunarheimilis. Vinna verkefnastjórnarinnar hefur einkennst af mjög góðu samstarfi allra fulltrúa og leitast hefur verið við að viðhalda góðu samstarfi og tryggja sem mesta samstöðu um þær leiðir sem ákveðið hefur verið að fara í uppbyggingu hins nýja hjúkrunarheimilis. Verkefnastjórnin hefur kynnt sér byggingu og rekstur hjúkrunarheimila á Íslandi og unnið náið með hönnuðum heimilisins sem og öðrum ráðgjöfum sem hafa komið að störfum hennar.
Samningur Hafnarfjarðarbæjar og ríkisins um þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu var undirritaður 3. maí 2010 og hlaut hann staðfestingu fjármálaráðherra í mars sl. þegar fyrir lá samþykki velferðarráðuneytis, Landlæknis og Framkvæmdasýslu ríkisins á teikningum hins nýja heimilis. Samkvæmt samningnum leggur Hafnarfjarðarbær heimilinu til lóð og annast hönnun og byggingu þess. Í Skarðshlíð er gert ráð fyrir fjölþættri uppbyggingu, meðal annars nýrri heilsugæslustöð og þjónustuíbúðum fyrir aldraða og er bygging heimilisins mikilvægur þáttur í þróun og uppbyggingu Vallarsvæðisins.