Bæjarráð Hafnarfjarðar ítrekar áður samþykkta ályktun um sjúkraflutninga sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 22. janúar 2014. Bæjarráð lýsir fullum stuðningi við stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og staðfestir umboð hennar í þeirri erfiðu vinnu sem farið hefur fram óslitið frá því í október 2011 vegna endurnýjunar á samningi á sjúkraflutningum SHS.
Bæjarráðið lýsir vonbrigðum sínum vegna skilningsleysis heilbrigðisráðuneytisins á því að ríkið þurfi að greiða þann kostnað sem ríkinu ber og hefur nú leitt til þess að stjórn SHS hefur þurft að grípa til þess neyðarúrræðis að biðja um verklok vegna þjónustunnar. Það neyðarúrræði byggist ekki á einlægum vilja til þess að slíta samstarfi ríkis og sveitarfélaga og skilja að sjúkraflutninga og slökkvistarf, heldur á algjöru vonleysi gagnvart stöðu mála.