Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 7 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1694
19. desember, 2012
Annað
‹ 5
6
Fyrirspurn
Lögð fram 10 ára aðlögunaráætlun um fjárhagsleg viðmið samkv. ákvæðum í sveitarstjórnarlögum 138/2011.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 9 atkvæðum á fundi sínum þ. 5.des. sl. að vísa 10 ára aðlögunaráætlun um fjárhagsleg viðmið til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Svar

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri, tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu:
"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir framlagða 10 ára aðlögunaráætlun fyrir 2013-2023 en hún sýnir miðað við þær forsendur sem hún er byggð á, að sveitarfélagið uppfylli fjárhagsleg viðmið ákvæða sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og reglugerðar um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga á árinu 2019."

Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari. Eyjólfur Sæmundsson tók til máls. Kristinn Andersen kom að andsvari. Þá tók til máls Valdimar Svavarsson. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari. Valdimar Svavarsson svaraði andsvari. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari öðru sinni. Lúðvík Geirsson tók til máls. Geir Jónsson kom að andsvari. Lúðvík Geirsson svaraði andsvari. Geir Jónsson kom að andsvari.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 6 atkvæðum, 5 sátu hjá.

Rósa Guðbjartsdóttir kom að svohljóðandi bókun f.h. fulltrúa Sjálfstæðisflokks:

"Hafnarfjörður uppfyllti ekki viðmið um skuldahlutfall skv. sveitarstjórnarlögum þann 1. jan sl. og þarf því að leggja fram 10 ára aðlögunaráætlun um hvernig sveitarfélagið hyggst ná því markmiði að skuldahlutfall sveitarfélagsins verði undir 150% en það hefur verið yfir 250% markinu um árabil.

Áætlunin sýnir svart á hvítu í hve þröngri fjárhagsstöðu bæjarfélagið er en afar þung greiðslubyrði og fjármagnskostnaður, eða um 3600 milljónir króna árlega á næstu árum, er að sliga bæjarfélagið. Forsendur áætlunarinnar og þeirra talna sem hér eru lagðar fram eru að gengi verði fast á tímabilinu, vextir haldist óbreyttir, tekjur aukist jafnt þétt og að árlega verði einungis 370 milljónum króna varið í nýframkvæmdir. Þá ríkir enn algjör óvissa um hvernig endurfjármögnun á 11 milljarða króna Depfaláni mun verða og hver kjörin kunna að verða.

Framlögð 10 ára aðlögunaráætlun er því nokkurs konar friðþægingaráætlun og vel unnið excel-skjal þar sem marga óvissuþætti vantar inn í til að um raunhæft plagg sé að ræða."

Valdimar Svavarsson (sign), Rósa Guðbjartsdóttir (sign), Kristinn Andersen (sign),
Geir Jónsson (sign), Helga Ingólfsdóttir (sign).

Gunnar Axel Axelsson kom að svohljóðandi bókun f.h. fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna:

"Aðlögunaráætlun sem byggir á nýjum fjármálareglum

Gerð aðlögunaráætlunar til tíu ára byggir á nýjum fjármálareglum sveitarfélaga sem tóku gildi með nýjum sveitarstjórnarlögum í byrjun þessa árs. Í lögunum er kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að gæta jafnvægis í rekstri. Er þá miðað við tekjur og útgjöld vegna rekstrar eigi að vera í jafnvægi á hverju þriggja ára tímabili, svokölluð jafnvægisregla.
Í jafnvægisreglunni felst að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum.
Einnig er í nýjum lögum mælt fyrir um ákveðið viðmið hvað varðar skuldir, svokölluð skuldaregla.
Í skuldareglunni felst að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum samkvæmt reikniaðferðum sem lýst er í IV. kafla reglugerðar nr. 502/2012.
Samkvæmt lögunum er sveitarfélögum skylt að sýna fram á að þau geti uppfyllt ofangreind skilyrði innan 10 ára.
Uppfyllir jafnvægisreglu öll árin og skuldaviðmið á 7 árum

10 ára áætlun Hafnarfjarðarbæjar sýnir að sveitarfélagið uppfyllir jafnvægisreglu öll árin og miðað við forsendur aðlögunaráætlunarinnar nær sveitarfélagið að uppfylla fjárhagsleg viðmið um skuldahlutfall árið 2019.

Áætlunin byggir á sömu forsendum og þriggja ára áætlun sem þegar hefur verið samþykkt. Byggt er á forsendum þjóðahagsspár um launaþróun, afborganir, verðbætur og vextir eru reiknaðir í samræmi við gildandi samninga og fyrningar eru óbreyttar á milli ára. Ekki er gert ráð fyrir neinum tekjum af lóðasölu á árunum 2017-2023 og eru framkvæmdir áætlaðar 370 m.kr. á ári út tímabilið.
Í ljósi framangreindra forsendna er óhætt að fullyrða að aðlögunaráætlunin er sett fram af varkárni og sýnir hún að miðað við núverandi forsendur og þann mikla og jákvæða árangur sem náðst hefur við að aðlaga rekstur bæjarins að breyttum aðstæðum eftir hrunið muni Hafnarfjarðarbær uppfylla jafnvægisregluna öll árin og vera komin niður fyrir hið lögbundna 150% skuldaviðmið töluvert fyrr en ný lög gera kröfu um, án þess að til komi aukning á tekjum, til að mynda vegna lóðasölu eða aukins hagvaxtar.
Áætlunin sýnir að rekstur Hafnarfjarðarbæjar er í góðu jafnvægi og hefur fulla burði til að standa við félagslegar og fjárhagslegar skuldbindingar sínar til framtíðar."

Margrét Gauja Magnúsdóttir (sign), Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign), Gunnar Axel Axelsson (sign),
Eyjólfur Sæmundsson (sign), Guðný Stefánsdóttir (sign), Lúðvík Geirsson (sign).