Skipulags og byggingarráð samþykkir skipulagstillöguna eins og hún liggur fyrir samkvæmt uppdrætti dags. 5. nóvember 2013. Þeir fyrirvarar eru þó settir að þess sé gætt að lóðafrágangur verði í samræmi við skipulag og að farið verði eftir skiltareglugerð Hafnarfjarðarbæjar við allar nýframkvæmdir.
Áður en framkvæmdir hefjast skal liggja fyrir undirritað samkomulag við nærliggjandi lóðarhafa um samnýtingu á bílastæðum þegar um stórviðburði er að ræða. Þá verði bílastæðaskipulag aðgengilegt á heimasíðu félagsins sem og samkomulag um samnýtingu stæða. Æskilegt er að slíku samkomulagi fylgi bílastæðakort þar sem gestum er leiðbeint hvar hægt sé að leggja bílum og nota almenningssamgöngur þegar um stórviðburði að ræða, sem um leið hvetur gesti á jákvæðan hátt til að nota aðra samgöngukosti en einkabílinn. Gert er ráð fyrir að bílastæðafjöldi samkvæmt tillögunni svari eftirspurn vegna daglegrar notkunar eins og kemur fram í meðfylgjandi greinagerð.
Deiliskipulag þetta hefur gildistímann 12 ár með vísan í 37. grein skipulagslaga þar sem sett er inn ákvæði um framkvæmdatíma svokallaðara þróunarsvæða í þegar byggðu hverfi. Þessi fyrirvari er ma. settur vegna nálægðar við veghelgunarsvæði Reykjanesbrautar og Flatahrauns þar sem nokkur óvissa ríkir um þróun almenninssamgangna (samgönguás höfuðborgarsvæðisins) á næstu árum. Þetta á einkum við um áfanga nr. 8 á skipulagstillögunni dags. 5. nóvember 2013.
Við deiliskipulagsgerð í þegar byggðu hverfi getur sveitarfélag ákveðið að skilgreina afmarkað svæði sem þróunarsvæði þar sem vinna skal hefðbundið deiliskipulag. Í slíkri áætlun skal tilgreina framkvæmdatíma áætlunarinnar sem skal vera a.m.k. fimm ár en ekki lengri en fimmtán ár. Framkvæmdatími áætlunarinnar hefst við gildistöku áætlunarinnar en ef hann er ekki tilgreindur skal miða við fimmtán ár.
Axel Guðmundsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.